18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

16. mál, fjárlög 1946

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hérna 2. brtt. á þskj. 362, sem ég flyt ásamt 1. þm. Skagf., en það eru nú gamlir kunningjar, og hefur 1. þm. þegar fært rök fyrir þeim, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Svo flyt ég brtt. á þskj. 369, þar sem farið er fram á, að veittar verði 100 þús. kr. vegna rekstrarhalla, sem kynni að verða á fyrirhugaðri landbúnaðarsýningu í Reykjavík 1946. Þar sem þetta er nýmæli, vil ég fara nokkrum orðum um það. Fyrir vakir, að hér verði á næsta ári haldin allsherjar landbúnaðarsýning, sem verði sniðin eftir landbúnaðarsýningum í nágrannalöndum vorum. Þessar sýningar hafa sýnt sig í því að hafa mikla þýðingu. Þær hafa opnað augu fólksins fyrir því, sem gert hefur verið og verið er að gera, og skal ég í fáum dráttum gera grein fyrir því, sem sérstaklega mundi koma þarna fram. Það er þá í fyrsta lagi vélar og verkfæri í þágu landbúnaðarins og eldri tæki, sem þegar eru fallin úr gildi. Í öðru lagi framræsla og áhrif. áburðar. Auk þess yrði sýnt úrvals búfé. Þá er og ætlazt til, að fram komi þættir úr félagsstarfsemi bænda og þróun landbúnaðarins, hvernig hann hefur stækkað, hvað hann var stór, um árið 1900 og hvað hann er stór nú, hvað framleiðslan hefur verið mikil á hvern mann um 1900,1920 og svo aftur nú, svo að það komi í ljós og sýnt verði fram á, að því er ekki þannig varið, sem margir hafa fullyrt, að landbúnaðurinn hafi staðið í stað. Þá verður hér enn um garðrækt, grænmeti og hagnýtingu þess og ýmislegt fleira, sem snertir húsmæðurnar. Svo má benda á sýnishorn af byggingum í sveitum, innréttingu þeirra o. fl. Enn fremur kæmi þarna ýmislegt um verksmiðjuiðnað, ullar- og skinnvöruiðnaður og mjólkuriðnaður. Það er einnig vel hugsanlegt, að þarna kæmu sýnishorn um sandgræðslu og skógrækt. Þetta verður að sníða eftir stærri sýningum erlendis. Hvað fjáröflun til þessa snertir, þá er hægt að leita til ýmissa fyrirtækja landbúnaðarins um að ábyrgjast upphæð til að grípa til, ef halli yrði, og ýmsar fjáröflunarleiðir, svo sem happdrætti, aðgöngumiðar o. fl. En jafnframt er það alsiða erlendis, að ríkið taki þátt í að ábyrgjast einhverja greiðslu, og því er ekki nema eðlilegt, ef halli yrði á þessu, að ríkið tæki þátt í að greiða þá upphæð að meira eða minna leyti. Það var lítil reynslusýning haldin árið 1921, og eru því nú 25 ár síðan, og því full ástæða til að fara nú af stað. Af þessum ástæðum höfum við leyft okkur að bera þessa till. fram og vonum, að Alþ. heimili stj. að greiða þetta.