01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (3782)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Eins og nál. allshn. á þskj. 646 ber með sér, þá voru ekki nema 3 nm. viðstaddir, þegar n. afgreiddi málið, en þessir þrír nm. urðu sammála um að ráða hv. d. til þess að samþ. frv.

Ég þarf nú ekki að eyða orðum um það, hvílík nauðsyn stærri kauptúnum er á því að fá starfsmenn eins og hér er farið fram á í þessu frv. og nefndir eru lögreglustjórar. Ég hef í sambandi við annað frv., sem ég flutti hér allsnemma á þinginu, gert grein fyrir þessu og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég þá færði fram. En einhverjum kynni kannske að finnast í fljótu bragði, að það gætti ósamræmis í afgreiðslu þessa máls hjá allshn. og þess máls, sem ég flutti áður á þinginu um lögreglustjóra á Dalvík, þar sem n. lagði þá til, að það frv. yrði afgr. með rökst. dagskrá, að vísu mjög vingjarnlegri dagskrá við það mál, þar sem þörfin á þessu er í rauninni alveg viðurkennd. En þegar þess er gætt, að ýmislegt hefur skeð í þessu máli í millitíðinni, þá verður nú það ósamræmi minna er virðast kann í fljótu bragði, eða jafnvel alls ekki neitt. Og vissulega er ekki um neitt ósamræmi að ræða hjá mér persónulega, því að það er tekið fram í nál. allshn. um lögreglustjóra á Dalvík, að ég óski eftir og mæli með því, að það frv. verði samþ. Það, sem hefur skeð eftir að allshn. gaf út nál. 18. febr. um lögreglustjóra á Dalvík og þar til hún aftur gaf út nál. 27. marz um það frv., sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli það, að í Nd. var borið fram frv. um lögreglustjóra í Búðahreppi, sem hv. Nd. tók mjög vel í og samþ. með yfirgnæfandi atkvæðamagni og ekki einasta það, heldur tók hún efni þess frv., sem ég hef hér áður borið fram í þessari hv. d. um lögreglustjóra á Dalvík, og bætti því inn í það frv., sem lá fyrir Nd. Það hefur því sýnt sig á þessu tímabili, að það er mikill þingvilji fyrir því að taka upp þá skipan, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og ástæðan til þess, að allshn. þessarar d. vildi ekki halda frv. um lögreglustjóra á Dalvík til streitu, var sú, að sá ráðh., sem þetta mál heyrir undir, hefur hér í d. lagt eindregið á móti samþykkt þess, og að ekki var gert ráð fyrir, að það hefði byr í þinginu, þannig að það gæti náð samþykki. En afstaða Nd. er ljós orðin og þar af leiðandi virðist það svo, að það sé þá eingöngu hér í þessari hv. d., sem bresti fylgi, ef þetta nær ekki samþykki. Og þó að n. vildi fyrir alllöngu síðan slaka til í þessu efni fyrir ráðh., þá sér hún minni ástæðu til þess nú, þegar það er upplýst, að Nd. hefur ekki gert það.

Þegar þetta mál var hér til 1. umr., gerði hv. þm. Barð. nokkrar aths. við það. Þær gengu aðallega í þá átt að sýna fram á, að ef þetta frv. yrði samþ., þá mundu óhjákvæmilega koma beiðnir úr mörgum öðrum kauptúnum um það að fá skipaða lögreglustjóra. Þessar aths. hv. þm. urðu til þess að ég og reyndar einnig þeir nm., sem tóku þátt í afgreiðslu málsins, fórum að athuga líkurnar fyrir þessu, og við komumst að þeirri niðurstöðu, að þessar líkur væru sáralitlar. Það mundi varla vera um mörg kauptún að ræða, sem til mála gætu komið, þegar búið væri að samþ. þessi tvö. Hv. þm. taldi upp ýmis kauptún landsins, hin stærri, og taldi líklegt, að þar yrði farið fram á það sama, en í mörgum af þessum kauptúnum, sem hann taldi upp, eru lögreglustjórar. Það eru alls staðar sýslumenn í viðkomandi héruðum, og það kemur vitanlega aldrei til mála, að farið verði að samþ. sérstaka lögreglustjóra í þeim kauptúnum, þar sem sýslumenn héraðanna eiga aðsetur. Í því sambandi taldi hann upp, að ég man, Húsavík, Sauðárkrók, Borgarnes og fleiri staði, þar sem sýslumenn héraðanna hafa aðsetur. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann orða það, að það kæmi til mála að skipa þar sérstakan lögreglustjóra við hliðina á sýslumönnunum. Auk þess taldi hv. þm. upp ýmis kauptún, sem alls ekki eru sérstakir hreppar, og vitanlega kemur þetta heldur ekki til mála að því er þá snertir. Og yfirleitt leiddu þessar athuganir um það, við hverju mætti búast í þessum efnum, sem orð hv. þm. gáfu tilefni til, til þeirrar niðurstöðu, að það mundi verða lítið eða ekkert um beiðnir um sérstaka lögreglustjóra þegar búið væri að samþ. þessa tvo.

Nú nefndi hv. þm. Barð. það, sem út af fyrir sig er alveg rétt, að það er ekki sérstaklega lögreglustjórnin, sem veldur vandkvæðum á þessum stöðum, heldur frekar hitt að fá fastan starfsmann til þess að vera forustumaður í málefnum kauptúnsins, eins konar bæjarstjóri, sem lögreglustjórunum er ætlað að vera. Hann tók það réttilega fram, að í þeim kauptúnum, þar sem sýslumaður hefur búsetu, væri ef til vill sama þörf á því að fá nýtt fyrirkomulag í þessum efnum og í hinum. Þetta má vel vera rétt, og er sízt af öllu, að ég vilji draga úr því, sem fram kemur í till. til rökst. dagskrár í áliti allshn. um lögreglustjóra á Dalvík, að gerð verði athugun á því, hvernig stjórn stærri kauptúna verði bezt fyrirkomið, það er vitanlega nauðsynlegt að gera það. En ég fæ ekki séð, að þetta frv. geti verið því nokkuð til hindrunar, að svo verði gert, og ég tel alveg víst, að lausn þessa máls, þegar hún verður fyrir hendi, verði aldrei á annan veg en þann, að ákveðið verði, að þessi kauptún geti haft sérstakan starfsmann. Sýnist mér þá, að það geti ákaflega vel farið saman, þó að þessir lögreglustjórar séu skipaðir til bráðabirgða, að þeir taki þá við þeim störfum, þegar þar að kemur. Auk þess gæti dómsmrh., sem þetta mál heyrir undir, þó að þetta frv. yrði samþ., hagað því svo að setja menn í embætti í staðinn fyrir að skipa menn í þau. Ef þessu yrði breytt á næstunni, þá yrði um þessa starfsmenn að fara eftir því, sem ákveðið yrði þá í nýjum l. En jafnvel þó að ráðh. vildi ekki setja menn í þessi embætti, heldur skipa þá, — og maður gæti jafnvel hugsað sér, að ráðh. gæti ekki fengið menn í þessi embætti öðruvísi en að skipa þá, — held ég, að ekki væri hundrað í hættunni, þó að einhver breyt. yrði, því að það eru nú svo mörg lögfræðileg embætti og störf í landinu og menn að fara úr þeim af ýmsum ástæðum, að sjálfsagt mundi vera hægt að flytja þessa tvo lögreglustjóra til í embætti, ef til kæmi.

Þetta frv. er þannig til orðið, að íbúar þessara beggja staða, sem um ræðir, hafa eindregið óskað þess, að þar yrðu skipaðir lögreglustjórar, sem þeir ætlast svo til, að hafi jafnframt með höndum oddvitastörf í kauptúninu. Ég verð að líta svo á, hvað sem öllum fyrirætlunum um framtíðina líður, að það sé réttlátt, að Alþ. komi til móts við óskir íbúanna á þessum stöðum, sem eru í vandræðum með að geta fengið hæfa menn til þess að gegna oddvitastörfum, vegna þess, eins og öllum má ljóst vera, að oddvitastörf í stærri kauptúnum, einkum þeim, sem hafa töluverð umsvif í framkvæmdum, eru orðin svo umfangsmikil, að það er varla hægt að ætlast til þess að menn hafi þessi störf með höndum í hjáverkum. Ég vil því mælast til þess fyrir hönd allshn., að hv. d. samþ. nú þetta frv. óbreytt. En jafnframt vil ég lýsa yfir því fyrir mína hönd, og ég treysti, að þessir tveir meðnm. mínir, sem skrifa undir nál., séu mér sammála um það, — að við mundum á allan hátt styðja till., ef fram kynnu að koma um það, að tekið yrði til nýrrar athugunar, hvernig bezt væri að koma fyrir stjórn hinna stærri kauptúna. En eins og ég hef fært nokkur rök að, teljum við ekki, að samþykkt þessa frv. komi á nokkurn hátt í bága við það, að slík athugun fari fram.