01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (3784)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst mælast til þess við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað, þar til hæstv. dómsmrh. hefur tækifæri til að vera við. Mér er kunnugt um það af samtali við hann, að hann setur sig á móti þessu máli, og mér finnst það einkennileg traustsyfirlýsing hjá andstöðuflokki stj. að berja í gegn mál til þess að veita dómsmrh. það traust að veita svona embætti þvert ofan í sinn vilja. Mér þykir það einkennileg afgreiðsla hjá allshn., ef hún fer eingöngu eftir því, sem Nd. gerir í málinu, lætur hana skipa sér fyrir verkum. Mér virtist það koma fram hjá hv. frsm., að af því að Nd. vilji hafa þennan hátt á málinu, þá sjái allshn. Ed. ekki ástæðu til að rökræða málið eða taka afstöðu til þess á þann hátt, sem hún hefur gert áður.

Hv. þm. sagði, að ekki gæti komið til mála, að settir yrðu sérstakir lögreglustjórar til að starfa þar, sem sýslumenn sætu fyrir. Ég vil benda hv. frsm. á það, að aðalrökin fyrir þessu máli eru þau, að lögreglustjórar eigi að taka að sér sveitarstjórn og sveitarstjórn er óráðstafað á öllum þeim stöðum, þar sem sýslumenn sitja sem lögreglustjórar, og verður að hafa sérstakan oddvita af þeim ástæðum, að ekki er gengið fram þetta mikilvæga atriði, sem hér um ræðir. En eins og hv. þm. Dal. benti á, er hér kominn maður með fullum embættislaunum og auk þess hefur hann laun fyrir að vera oddviti og er þá með hæstlaunuðu mönnum í landinu. Ég vil í þessu sambandi benda á, hvaða staðir komi til greina um það að krefjast sérstaks lögreglustjóra. Við skulum sleppa Borgarnesi, vegna þess að þar er sýslumaður. Þá er Ólafsvík. Eins og hv. þm. Dal. minntist á, er ekki hægt að neita þeim um það, því að þar eru 500 íbúar á móti 330 í Búðahreppi. Svo er Hólmavík, þar er sýslumaður, Hjalteyri, þar er enginn sýslumaður. Það má benda á Bíldudal. Hann er ekki einu sinni sérstakur hreppur, er talinn í Suðurfjarðahreppi og inn í þessum hreppi eru enn þá 5–6 bæir, sem fylgja þessu hreppsfélagi. En á það að verða ástæða til þess, að þessum mönnum sé neitað um sama rétt og Fáskrúðsfirðingum? Er hægt að neita Suðurfjarðahreppi, sem hefur 600 íbúa, um lögreglustjóra, af því að nokkrir bæir eru inni í firðinum, sem einnig fylgja þessu hreppsfélagi? Þetta er ekki frambærilegt. Ég veit, að það kemur krafa frá Suðurfjarðahreppi um það að fá lögreglustjóra á Bíldudal, ef þetta verður samþykkt.

Ég vil benda frv. frsm. á, að það er ein gild ástæða fyrir svona hreppsfélög til að sækjast eftir að fá lögreglustjóra, og hún er sú, að á þennan hátt fá þau góðan gjaldþegn inn í hreppinn, sem hreppurinn getur lagt á. Þetta verður bezti gjaldþegninn í hreppnum. Það eru fleiri hreppar en Bíldudalur og Fáskrúðsfjörður, sem vildu þiggja slíka ostsneið rétt fyrir kosningarnar. Ég vil spyrja. Hvernig er þá hægt að neita héruðum, sem hafa fleiri en 330 íbúa, um nýja lækna? Nú er talað um, að það sé óviðeigandi að halda uppi læknum í héruðum, þar sem eru færri en 500 íbúar. Ég hygg, að þessi krafa skapi aftur kröfur um það, að settir verði læknar í héruð, sem hafa allt niður í 300 íbúa. Ég veit ekki betur en Hveragerði sé að verða sérstakur hreppur nú. Ekki situr þar sýslumaður. Flateyri, ekki situr þar sýslumaður. Suðureyri, Hnífsdalur, ekki sitja þar sýslumenn. Skagaströnd, með nýsköpunina, ekki er þar sýslumaður. Raufarhöfn, ekki sýslumaður, og ekki á Þórshöfn. Á Eskifirði situr að vísu sýslumaður. Á Selfossi situr sýslumaður nú, en þá kemur krafa um lögreglustjóra á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta er ekki endirinn á málinu, heldur upphafið. Svo kemur Súðavík, Blönduós, þar er sýslumaður, Hofsós, Hellissandur. Þetta eru allt fjölmennari þorp en Fáskrúðsfjörður, Þingeyri, Vopnafjörður, Djúpavogur, Höfn í Hornafirði, og svo fylgir Grindavík fljótt á eftir. Þetta þýðir útgjöld fyrir ríkissjóð upp á nokkur hundruð þúsund kr. Samt er ekki séð fyrir því, sem sérstaklega á að sjá fyrir í frv., þ. e. oddvitastörfum á þeim stöðum, þar sem lögreglustjórar eru.

Ég vil því mjög mælast til þess, að hæstv. forseti fresti þessari umr., þar til hægt er að ræða málið við hæstv. dómsmrh., sem er á móti málinu, og sjá, hvort ekki er hægt að fá samkomulag um það að afgr. málið með rökst. dagskrá í trausti þess, að ríkisstj. láti taka upp málið í heild og finni skynsamlega leið út úr þessu. Því að ella munu koma fram ótal kröfur, ekki aðeins viðvíkjandi lögreglustjórum, heldur einnig öðrum embættismönnum, svo sem læknum.