18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

16. mál, fjárlög 1946

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Viðvíkjandi ræðu hv. frsm. fjvn., þá vil ég segja nokkur orð til leiðréttingar. Það er þá fyrst varðandi till. um framlag til byggingar til fiskiðnaðarrannsókna. Hv. frsm. sagði, að það væri vegna þess, hve illa væri gengið að Fiskifélaginu, að fjvn. vildi ekki taka þetta. Ég hef aldrei farið fram á, að Fiskifélagið léti af þessu starfi, og við njótum góðs af starfi þess, en Fiskifélagið á ekki þessa starfsemi. Og hér má ekki koma til greina einhver ást á Fiskifélaginu, heldur það sjónarmið, hvað okkur er fyrir beztu. Fjvn. getur ekki fengið neina fagmenn í þessu til að neita, að þetta er hyggilegast, og mér finnst meiri hl. fjvn. sýna þröngsýni með því að finnast oddur gegn Fiskifélaginu, þótt þessari rannsóknastöð sé komið upp. Fiskifélagið hefur nægileg verkefni fyrir þessu og er búið að vinna sitt brautryðjandastarf, og hefur sannað, hversu þessi rannsóknastarfsemi er þýðingarmikil. Nú er í ráði að setja upp sjúkdómarannsóknastöð fyrir sauðfé. Og það deilir enginn um nauðsyn sjávarútvegsins miðað við kvikfjárræktina, því að við stöndum og föllum með sjávarútveginum, og því verður ekki hjá þessu komizt. Smærri sjónarmið sem þessi eru ekki forsvaranleg sem ástæða til að bregða fæti fyrir þetta. . . . . . Ég valdi þessa leið vegna þess, að ég áleit það skemmstu leiðina, til þess að hægt væri að koma verksmiðjunni í 10 þús. mála afköst fyrir næstu síldarvertíð.

Hv. þm. Barð. (GJ) segir, að ég sé að tefja umr., en það er síður en svo, því að þessi till. er flutt af mikilli nauðsyn. Annars finnst þessum hv. þm., að við séum allir ábyrgðarlausir og gerum okkur aðeins leik að því að tefja málin, en á sér einum hvíli ábyrgðarfargið. — Hann talar um, að hér vanti ýmsar upplýsingar í þessu máli. Sem dæmi nefnir hann, að afköst verksmiðjunnar nú séu frá 5–7 þús. mál. Þetta stafar af ókunnugleika hjá hv. þm. Afköst verksmiðjanna breytast mjög eftir því, hvort síldin er mögur eða feit. Breytingin getur verið allt að 50%, þannig að verksmiðja, sem afkastar 5000 málum, getur undir beztu kringumstæðum komizt upp í 7500 mál. Slíkt er ekki hægt að ganga úr skugga um nema með reynslu, en í sumar var ekki hægt að fá þá reynslu vegna þess, hvað lítið var brætt. Hv. þm. vill draga í efa sannindi þess, að rekstrarmunur á 5000 og 10000 mála verksmiðju sé sá, sem hér hefur verið bent á.

Þær rekstraráætlanir, sem hér liggja fyrir, eru samdar af Snorra Stefánssyni. Snorri Stefánsson byrjaði að starfa í síldarverksmiðju ungur drengur og er viðurkenndur fyrir dugnað og nákvæmni í starfi sínu, auk þess sem ég þekki Snorra Stefánsson það vel, að ég veit, að hann bindur ekki nafn sitt við rangar áætlanir.

Þá spyr hv. þm. Barð., hvernig standi á því, að ég sem atvmrh. láti byggja 7500 mála verksmiðju, en ekki 10000 mála verksmiðju eftir þessari rekstraráætlun. En ég vil benda á, að í l. var gert ráð fyrir aðeins 5000 mála verksmiðju. Þessa áætlun lét ég hækka upp í 7500 mála afköst, vegna þess hvað reksturinn yrði tiltölulega miklu hagstæðari, auk þess sem afköst þessara verksmiðja geta í bezta tilfelli orðið allt að 10000 mál. Síldarverksmiðjan á Skagaströnd og Rauðka munu nota vélar, sem byggðar eru eftir teikningu Snorra Stefánssonar. Rauðka hefur því haft forustuna tæknilega séð, og er það vel þess virði, að það væri munað bæði við Siglufjarðarkaupstað og Snorra Stefánsson.

Það er ekki rétt hjá hv. þm., að ríkið hafi eingöngu reist verksmiðjuna, því að Siglufjörður hefur lagt í hana 500 þús. kr., sem ekki eru veðsettar. Vegna þessarar óveðsettu upphæðar hlýtur Siglufjarðarkaupstaður að hafa áhuga á rekstri verksmiðjunnar, því að ef Siglufjörður missir verksmiðjuna, þá eru líka þessar 500 þús. kr. tapaðar. Ef hv. þm. sjá sér ekki fært að samþ. þessa till., sem ég vona, að komi ekki til, hef ég lagt fram varatill. — Eftir upplýsingum frá verksmiðjustjóranum, þá mun ef til vill mögulegt að koma í framkvæmd þessari stækkun fyrir 1.5 millj., ef bæjarstjórnin getur samið við kröfuhafa. Siglfirðingar geta ekki hugsað sér að reka sína verksmiðju með 5000 mála afköst, þegar svo lítið þarf til þess að auka afköstin upp í 10000 mál.

Að lokum vonast ég eindregið til, að Siglfirðingum verði veittar 2 millj., þar sem hér er um þjóðarhagsmuni að ræða, en hef flutt þessa varatill. til að undirstrika nauðsyn málsins.