03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (3791)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það verður að játa, að embættisstofnanir þær, sem um ræðir í frv. á þskj. 554, eru ekki eina fordæmið. Nú munu vera 2 lögreglustjórar úti á landi, í Keflavík og í Bolungavík. Auk þess voru á sínum tíma stofnuð slík embætti á Akranesi og Ólafsvík, en báðir þessir staðir eru orðnir kaupstaðir, og lögreglustjóraembætti þar því lögð niður. En í þeim tilfellum, þar sem lögreglustjóraembætti hafa verið stofnuð áður, ætla ég, að þau hafi verið reist á þeim rökum, að þarfir ríkisins krefðust þess, að þar væru settir embættismenn, sem gegndu þessu starfi, hefðu tolleftirlit o. fl. Aftur á móti hef ég ekki heyrt þau rök fyrir þessum. embættisstofnunum, sem hér er um að ræða. Það er aðeins um þarfir sveitarfélagsins að ræða, sem fært er fram sem rök fyrir þessum embættum, og einmitt vegna þess sýnist mér, að hér sé um mjög mikla stefnubreytingu í sveitarstjórnarmálum að ræða. Það er augljóst, að ef þessi litlu kauptún ættu að fá sérstaka embættismenn launaða úr ríkissjóði, mundu margir aðrir staðir koma á eftir og heimta það sama. Og ég vil taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði hér við fyrri hl. hessarar umr., að ég sé ekki, að aðrir staðir, þar sem sýslumaður hefur aðsetur, hafi ekki alveg sama rétt til þess að láta ríkið launa starfsmenn til þess að standa fyrir hreppsmálefnum. Mér er ekki kunnugt um, að sýslumönnum hafi verið falin nein sveitarstjórnarstörf þar sem þeir hafa aðsetur. Ég veit ekki til þess, og það er þá alveg einsdæmi, ef það hefur komið fyrir. Ég er því þeirrar skoðunar, að það væri mikið fljótræði án þess að taka alla sveitarstjórnarlöggjöfina til mjög nákvæmrar athugunar. En ég held, að það verði naumast gert á einu þingi, og ekki fært að gera það nema að koma með málið vel undirbúið undir þing. Og ef stofnað væri til slíkra umbóta, sem hér er um að ræða í þessu frv., mundi það áreiðanlega draga dilk á eftir sér, mjög kostnaðarsaman fyrir ríkissjóð, því að þótt hér sé ekki um að ræða nema fáa tugi þúsunda, þá mundi það vissulega áður en mörg ár væru liðin vera komið upp í hundruð þús. kr.

Ég vil því fyrir mitt leyti mjög eindregið mæla með því, að dagskrártill., sem flutt hefur verið af hv. þm. Dal., nái samþykki d. Ég skal játa það, að ég mun ekki láta mig það miklu skipta, þó að hún væri höfð með einhverju öðru orðalagi, eins og hv. 1. þm. Eyf. talaði um. Mér skilst, að það væri þá eitthvað á þá leið, að hlutaðeigandi ráðh., sem er fjmrh., yrði falið að láta fara fram endurskoðun á Sveitarstjórnarlöggjöfinni. Ég mundi ekki hafa neitt sérstakt á móti því, en hins vegar verð ég að draga í efa, að það hafi komið fram nokkur sérstök rök fyrir því, að sveitarstjórnarlöggjöfin þurfi gerbyltingar við. Ég ætla, að það muni hagkvæmara að láta kostnaðinn við sveitarstj. hvíla á hreppnum sjálfum en að leggja allt á ríkið, fyrst og fremst af því, að öllum hlýtur að vera ljóst, að fyrir landið í heild mundi það verða miklu kostnaðarmeira að láta ríkið bera kostnaðinn af stjórn sveitarfélaganna. Og a. m. k. kem ég ekki auga á, að það sé nokkur sérstök ástæða í sambandi við þetta frv. að gefa stór fyrirmæli um það að taka sveitarstjórnarlöggjöfina til nýrrar athugunar og undirbúa breytingar í þá átt, sem hér hefur verið rætt um. Og mér þykir næsta ólíklegt, að sú stefna hefði mikið þingfylgi að leggja kostnaðinn af stjórn sveitarstjórnarmálanna á ríkissjóð.