03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3792)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Ég sé nú enga ástæðu til þess að svara ræðu eins og ræðu hv. þm. Dal., því að þar kom ekkert nýtt fram. Hv. þm. var búinn að segja það allt áður, sem hann sagði nú, og ég var búinn að hrekja það. Og ég vil ekki tefja tímann með því að fara að endurtaka allt það, sem ég hef sagt. En hvað hæstv. ráðh. snertir, þá fannst mér gæta hjá honum misskilnings í ræðu hans, sem hann kom að aftur og aftur, og það var það, að hann hafði skilið þessi frv. svo, að ríkið ætti að kosta oddvitastarfið í viðkomandi kauptúnum, og ef áframhald yrði á þessu, þýddi það í raun og veru það, að ríkið kostaði oddvitastarfið í þessum kauptúnum. En það er nú ekki. Það er beinlínis tekið fram í frv., að lögreglustjórar fái laun sín fyrir oddvitastörf sem aðrir oddvitar frá hreppnum. Og ég bauð það fram í allshn., þegar hún var að fjalla um þetta mál, að það, sem þeir fengju fyrir oddvitastörf, drægist frá launum þeirra, þannig að ríkissjóður greiði þá þeim mun minna sem þeim launum nemur, og ég fyrir mitt leyti gæti vel sætt mig við þá breyt., t. d. ef hún kæmi fram við 3. umr. En meðnm. mínir litu nú þannig á, að lögreglustjórum væru ætluð svo lítil laun samkv. launal., a. m. k. samanborið við það, sem lögfræðingar fá yfirleitt þegar þeir eru í starfi, að það mundi geta verið hætta á því, að hæfir menn fengjust síður til starfsins, ef þessi breyt. yrði gerð. Og þess vegna varð nú ekki af því, að n. bæri fram brtt. um þetta.

Hæstv. fjmrh. sagði, að áður hefði stofnun lögreglustjóraembætta verði rökstudd með því, að ríkið hefði allmikilla hagsmuna að gæta á þeim stöðum, sem áður hefðu komið til greina, og þess vegna hefðu lögreglustjórar verið skipaðir. Ég efast dálítið um þetta. Ég held, að aðalatriðið hafi í öllum þessum tilfellum verið það, að kauptúnin gætu þannig fengið fastan starfsmann. Í Búðahreppi, þar sem hér er farið fram á, að lögreglustjóri verði skipaður, held ég, að sé töluverð tollheimta, og ég held, að hún sé a. m. k. eins mikil á Dalvík og hún var í Ólafsfirði, þegar þar var skipaður lögreglustjóri. Hæstv. ráðh. sagði, að í þeim kauptúnum, þar sem sýslumenn væru búsettir, væri eins mikil þörf á því og í öðrum kauptúnum að fá mann til að gegna oddvitastörfum fyrir sig. Má þetta vera rétt, og þess vegna er þörf á að endurskoða a. m. k. sumar gr. sveitarstjórnarlaganna. En það nær ekki nokkurri átt samt sem áður að skipa lögreglustjóra við hliðina á sýslumanni, og get ég ekki skilið, hvernig slíkt ætti að eiga sér stað. (GJ: Þetta er þó gert í Rvík). Það eru svo margskipt í Rvík þau störf, sem annars staðar eru í höndum eins manns, og skal ég ekki fullyrða, að það gæti ekki komið til mála. En a. m. k. er hann ekki skipaður til þess, eins og ráðh. var að tala um, að ríkið borgi oddvitastörfin, því að það er hvergi gert þar, sem lögreglustjóri hefur verið skipaður.

Hæstv. ráðh. taldi það nú geta komið til greina að samþ. ekki þessa dagskrártill. hv. d., heldur einhverja aðra, en í þessu sambandi lét hann þó í ljós, að hann efaðist um, að sveitarstjórnarlögin þyrftu endurskoðunar við. Ég játa, að sveitarstjórnarlögin eru vel samin og að þau eru byggð á gamalli reynslu og hafa gefizt yfirleitt vel. Og ég á ekki heldur við það, að nauðsynlegt sé að endurskoða öll atriði og öll ákvæði sveitarstjórnarlaganna. Ég átti í raun og veru aðeins við sérstakt atriði, og það var þetta, hvernig koma ætti fyrir forstöðu sveitarmálefna, einkum í kaupstöðum og annars staðar, þar sem fjölmennara er, og jafnvel að athuga skiptingu landsins í sýslur og hreppa. Þróunin hefur alltaf gengið í þá átt að skipta hreppunum, stundum vegna þess, að kauptún hafa vaxið upp, og þá má segja, að það sé eðlileg skipting, og stundum hefur verið um að ræða. skiptingu í hreina sveitahreppa. Hrepparnir verða minni og minni, en í litlum hreppum eru töluverðar tafir að því fyrir bændur að gegna oddvitastörfum. Ég held, að það þurfi að snúa við á þessari braut, hafa sveitarfélögin stærri og gera þeim með einhverjum hætti mögulegt að hafa mann til þess að gefa sig að þeim málefnum. Þetta er bara mín persónulega skoðun, sem ég hef haft lengi, eftir að ég sá, hvert stefndi í þessu máli. Ég þekki mæta vel sveit, þar sem í raun og veru eru alveg sömu atvinnuhættir, og með núverandi samgöngum eru allir í þeirri sveit nágrannar, svo að segja, en hún er bara skipt í 3 hreppa. Munurinn á þessum dagskrártill., sem fram hafa komið, — ein í þessu máli, en önnur í skyldu máli, — er sá, að þessi till. frá hv. þm. Dal. vísar málinu frá og í raun og veru, eins og ég sýndi fram á, algerlega á röngum forsendum, en sú dagskrártill., sem allshn. bar fram viðvíkjandi öðru máli, hún viðurkenndi þörfina á því, að þetta atriði, um stjórn stærri kauptúna, væri tekið til athugunar, og óskaði eftir því, að hæstv. ríkisstj. gerði það. Með öðrum orðum, önnur dagskrártill. er algerlega neikvæð í þessu máli, en hin er jákvæð, þó að báðar taki raunar viðkomandi mál af dagskrá. Nú álít ég alveg óþarft að vera að fresta þessari umr. til þess að þeir menn, sem vilja nú vísa málinu frá með rökst. dagskrá, geti haft tíma til þess að semja hana. Þetta er ekki nema 2. umr., og bezta aðferðin og vinnubrögðin í þessu máli væri þá það, ef allir vilja nú viðhafa hér fulla sanngirni, að hv. þm. Dal, taki sína till. aftur nú og lofi málinu að ganga til 3. umr. og þeir, sem vilja vísa því frá, taki við þá umr. upp till. allshn. að svo miklu leyti, sem hún á við þetta frv.