19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi mega gera þá fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvort ekki sé þess að vænta, að frá hans ráðuneyti verði lagt fram frv. nú á þessu þingi um jarðeignamál kaupstaða og kauptúna. Það er kunnugt, að það hefur setið að störfum milliþn. í þessu máli, sem mun hafa skilað niðurstöðum af störfum sínum til ráðuneytisins og gert till. um lagasetningu í þessu efni. — Ég fyrir mitt leyti álít, að brýn þörf sé á því, að yfirstandandi Alþ. gangi frá lagasetningu um þessi mál. Og ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hvort ekki megi búast við, að frv. um þetta efni, byggt á till. milliþn., verði flutt nú á þessu þingi.