18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

16. mál, fjárlög 1946

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það er þegar orðið nokkuð áliðið nætur og farið að fækka í þingsalnum, þannig að það er ekki vert að fara mörgum orðum um það, sem hér hefur mjög dregizt inn í umr., sem sé Suðurlandsbrautina og framlag til hennar. En ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á það efni nokkrum orðum, og þá fyrst á það, sem hæstv. fjmrh. fór nokkrum orðum um það mál. Hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að ljúka Krýsuvíkurveginum, þar sem sú tilraun hefði verið gerð áður en byrjað var á Þrengslaveginum, eftir væru aðeins 35 km. af Krýsuvíkurveginum ólagðir, og það yrði að sjá, hvernig sú tilraun gæfist, áður en hafizt væri handa um að leggja veg um Þrengslin, sem mþn. hefur lagt til, að lagður yrði. Nú veit hæstv. fjmrh. það, — og um leið get ég svarað hv. síðasta ræðumanni — að það hefur aldrei verið til þess ætlazt, að Krýsuvíkurleiðin yrði aðalleið á milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Frá því fyrst að ákveðið var, að þessi vegur yrði lagður, hefur því jafnan verið haldið fram af öllum, sem hlut hafa átt að máli, að þetta yrði aðeins varaleið, sem mundi vera öruggust í snjóalögum að vetrinum, og nauðsynlegt væri að hafa hana til þess að tryggja samgöngur betur í snjóalögum en þær væru með Hellisheiðarleiðinni einni. Og það hefur þá líka komið í ljós, að hin varaleiðin, sem lögð hefur verið, sem er þó ekki fullger enn að öllu leyti, vegurinn um Þingvöll og Mosfellsheiði, hefur verið til mjög mikilla bóta þau ár, sem liðin eru síðan hann var tekinn í notkun. Þó er þessi leið mjög miklu hærri en Krýsuvíkurleiðin, enda er líka raunin sú, þrátt fyrir það, sem hv. 6 landsk. (GBen) sagði, að þessi leið hefur líka verið teppt undanfarna vetur og það verulega, þrátt fyrir það þó að engir snjóavetur hafi komið svo teljandi hafi verið síðan sú leið kom. Það er því jafnmikil þörf fyrir það, þótt Krýsuvíkurleiðin væri fullgerð, að leggja yfir Þrengslin fullkominn veg, sem verði aðalleið, eins og Hellisheiðarvegurinn er nú, sem er vitanlega stytzta leiðin og bezta í öllu sæmilegu færi. Það er vitanlega mikil nauðsyn á, að þessum vegi sé flýtt, einmitt til þess að draga úr flutningskostnaðinum á þessari leið, þar sem flutningskostnaðurinn er svo gífurlegur eins og raun ber vitni. Og mér er ekki kunnugt um, að þeir, sem staðið hafa að því, að vegur um Krýsuvíkurleiðina yrði lagður, hafi nokkurn tíma lagt til, að felld væru niður lög þau, sem samþ. voru 1932 um veginn um Þrengslin, en það frv. var þá flutt af þáverandi hæstv. ríkisstj. og samþ. á þ. 1932 og er þar af leiðandi enn í l., þó að ekki hafi verið lagt fram fé til hans á undanförnum árum, og það meðfram vegna þess, að ég hygg, að mér er ekki kunnugt um, að vegamálastjóri hafi komið með till. til fjvn. um það að leggja fé í þennan veg. Ég hef aldrei orðið var við það. En það er vitanlega þrátt fyrir það alveg jafnmikil nauðsyn á því að hraða framkvæmdum í þessum efnum, að leggja veg um Þrengslin, eftir að rannsókn hefur farið fram um þá leið af fagmönnum í þessum efnum, a. m. k. að meiri hluta til, þó að þeir hafi ekki allir verið fagmenn, sem við þá rannsókn hafa fengizt, eins og t. d. hv. síðasti ræðumaður (GBen), sem hér talaði, enda virðist það svo, sem hann sé allreikull í fræðum sínum, sem hann hefur tileinkað sér í þessari mþn., þar sem hann gerist til þess í sinni fyrstu ræðu hér á þingi að undrast yfir því að sjá till. borna fram við fjárl., sem er í fullu samræmi við það, sem mþn. sú lagði til. Því að það er þó vitanlegt, að hv. 6. landsk., sem síðast talaði, getur ekki á móti því mælt, að þar er lagt til, að þessi vegur skuli lagður á næstu sex árum með jöfnum framlögum úr ríkissjóði ár hvert, og eru því þessar till. í fullu samræmi við það, sem mþn. um þessi mál lagði til, eftir að vera búin að rannsaka það mál um alllangt skeið. Og má því segja um þessa framkomu hv. 6. landsk. þm. eins og sagt hefur verið áður stundum, að „ill var þín fyrsta ganga“ að byrja með því hér á hæstv. Alþ. að leggja á móti brtt. um það, sem hann ásamt öðrum er búinn að pæla við á kostnað ríkisins og ábyrgð Alþ. að gera till. um til Alþ., að gert yrði.

Hv. form. fjvn. var ekki lengi að finna þær hvatir, sem að baki lægju því að bera fram þessa brtt., eftir að búið er að gera rannsókn um þetta efni, að vilja allra þingflokkanna, hversu þetta mál skuli leyst, og telur, að þegar við flytjum brtt. við fjárl., sem er till. um að fylgja þeirri áætlun, sem gerð hefur verið sem niðurstaða af þessari rannsókn, og segir hv. form. fjvn., að við hv. 1. þm. Árn. séum hér með þessu aðeins með kosningabeitu. Ég vil þá segja það, að ég held, að það geti aldrei verið kosningabeita fyrir nokkurn mann að fylgja öðru heldur en réttustu máli og beztu fyrir þá umbjóðendur, sem þeir eru fyrir, og þjóðina í heild. Og ef hv. form. fjvn. og frsm. n. finnst sem hér sé um mjög mikla kosningabeitu að ræða, kannske eins og nýjan smokk, svo að notað sé hans orðalag, þá er það vitnisburður hans um það, að þetta, sem við leggjum til í brtt., sé það bezta, sem hægt er að gera í þessu máli, eins og komið er. Og hygg ég, að ég þurfi ekki frekari viðurkenningu um það frá hans hendi en einmitt þessa yfirlýsingu.

Hv. 6. landsk. þm. sagði það, að Krýsuvíkurleiðin hefði teppzt fyrr í fyrra en Hellisheiðarleiðin. Ég vildi mjög gjarnan biðja þennan hv. þm. að gefa mér upplýsingar um það, hvenær það var. Því að ég hef fylgzt allrækilega með því, síðan vegurinn komst alla leið að Kleifarvatni, hvernig snjóalögin hafa verið, þegar vegurinn hefur verið tepptur á Krýsuvíkurleiðinni. Og m. a. fór ég s. l. vetur með núv. hæstv. samgmrh., þegar tepptur var vegurinn alla leið frá Árbæ Hellisheiðarleiðina og austur á Kambabrún. Fórum við þá í litlum bíl alla leiðina að Kleifarvatni, án þess að snjókorn væri á þeirri leið. Og það hefur jafnan verið haft eftirlit með þeirri leið, þegar ófært hefur verið austur yfir fjall, og mér er ekki kunnugt um annað en að alltaf hafi verið fær Krýsuvíkurleiðin, þegar þær teppur hafa verið. Sú fullyrðing hv. 6. landsk. þm., að vegurinn úr Svínahrauni yfir í Ölfus muni einhver tryggasta vetrarleiðin, sem hægt sé að hugsa sér, er vitanlega svo fjarri öllum sanni fyrir þá, sem til þekkja, þar sem vitanlegt er, að mjög oft teppist leiðin fljótlega frá Lögbergi og ég vil segja upp í Svínahraun. Og ég vildi segja það í sambandi við það, sem hv. 6. landsk. þm. var að segja, að miklir skandalar hefðu verið gerðir undanfarið í sambandi við þessi vegamál, samgönguleiðina milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að þá væri það a. m. k. að bæta einum skandala þar við, ef einn af mönnum í mþn., sem hefur lagt til, að það yrðu tekin upp jöfn framlög á sex árum til þess að leggja þennan nýja veg um Þrengslaleiðina og jafnhliða að ljúka vegarlagningu á Krýsuvíkurleiðinni, — ef einn þessara manna verður síðan til þess að leggjast á móti sinni eigin till. strax og hann kemst inn fyrir dyr þingsalanna. Og ef — eftir að búið er að rannsaka þetta mál, hversu það verði heppilegast leyst, af fulltrúum frá öllum þingflokkum, og fullkomið samkomulag er komið á um það, hversu það skuli leyst, og samtímis situr ríkisstj., sem telur sig framar öllu öðru hafa áhuga á nýsköpun í landinu, — ef þá skeður það, að felld yrði till. sú, sem hér er fram borin til þess að leysa þetta mál, sem vitanlega hefur undanfarandi verið eitt hið örðugasta og mest knýjandi nauðsyn á að leysa á sem beztan hátt, bæði fyrir þá, sem búa vestan heiðar, sem er um þriðjungur landsmanna, hér í og kringum Reykjavík, og líka þá, sem búa á Suðurlandsundirlendinu, sem eru beztu landbúnaðarsvæði landsins, — ef það ætti að koma fyrir, þá væri það hinn langstærsti skandali, sem átt hefði sér stað í sambandi við þetta mál. Það er ömurlegt að hlusta á það, að þeir menn, sem berja sér á brjóst og segjast vilja nýsköpun á öllum sviðum og segja, að þeir einir vilji bæta fyrir fólkinu, ef þeir, þegar komið er með tiltölulega litla till. á móts við annað, sem nú er lagt til í sambandi við þessi fjárl., ég get bent á margt í því, sambandi, — til þess að bæta úr erfiðleikum, sem við er að stríða fyrir upp undir helming landsmanna, ef þeir menn, sem mest hafa barið sér á brjóst og sagzt vilja nýsköpun í landinu, leggjast á móti þessari brtt. og vilja drepa hana, þrátt fyrir fullt samkomulag í mþn. um þessa lausn á samgöngumálunum austur yfir fjall, — hvar er þá nýsköpunaráhuginn? Er hann aðeins í orði, en hjaðnar eins og bóla, ef á hann er andað?

Þá var hv. frsm. fjvn. með nokkrar fullyrðingar í minn garð og um minn málflutning og taldi, að ég væri ekki mjög sterkur í meðferð sannleikans, og vildi nefna nokkur dæmi. En það held ég, að óhætt sé að fullyrða, að ég sé sterkari á þeim leiðum en hv. þm. Barð. er á leiðum hógværðarinnar og lítillætisins. Ég verð að segja það, að það er næstum því að maður kveinki sér fyrir hönd annarra hv. fjvnmanna, að hlusta á þá framsögu, sem n. hefur valið sér hér í meðferð fjárl., framsögu, sem er svo full hroka og yfirlætis, eins og sá hv. þm. viti alla hluti betur, hvar sem er í landinu, í hvaða kjördæmi sem er, heldur en þm. héraðanna, og jafnvel fullyrðir hv., frsm., — eins og hann þekkti hjörtun og nýrun, — hvaða hvatir og leyndustu hugsanir hreyfa sér hjá hverjum þm. Mér kæmi ekki á óvart, þótt sumir hv. fjvnmenn undir þessari furðulega yfirlætislegu framsögu, sem hér hefur farið fram, væru ekki sérlega hrifnir eða ánægðir. A. m. k. vildi ég ekki, að fyrir mína hönd væri höfð slík meðferð mála, ef ég sæti í fjvn.

Ég skal þá aðeins víkja að þeirri fullyrðingu hv. frsm. fjvn. í minn garð, þar sem hann sagði, að ég hefði farið með ósannindi um tvö atriði í ræðu þeirri, sem ég flutti í dag um brtt., sem ég flyt við fjárl. Hann sagði, að ég færi með ósannindi um það, að það væri ekki nema 5 þús. kr. í raun og veru viðbótin, sem ég legði til um heimild til að veita fé til fyrirhleðslu á stað, sem ég gat um í dag, frá því, sem verið hefði á undanförnum árum á fjárl., og hann sagði, að í fjárl. í fyrra hefðu verið veittar 30 þús. kr. til þessa, en nú legði ég til, að 50 þús. kr. yrðu veittar til þessa. Sagði hv. frsm. fjvn., að meiri munur væri á 30 þús. kr. og 50 þús. kr. en 5 þús. kr., og rétt er það. En ef sá hv. þm. hefði hugað rétt að ræðu minni dag, þá hefði hann vitað, að ég sagði þá, að í undanförnum fjárl. í tvö ár, 1944 og 1945, hefði verið heimild til að veita 15 þús. kr. á fjárl. 1944 og 30 þús. kr. á fjárl. 1945, og eru það 45 þús. kr. (GJ: Það er Framsóknarreikningur). Er Sjálfstæðisreikningur eitthvað öðruvísi? Ef svo er, þá furðar mig ekki á því, þótt útkoman verði dálítið einkennileg hjá hv. form. fjvn. Þetta voru þau orð, sem ég sagði í dag. En vegamálastjóri taldi 15 þús. kr. of litla fjárhæð til þess að byrja með þessar framkvæmdir. En ef lagt er til nú, að 50 þús. kr. verði veittar til þessara framkvæmda á næsta ári, virðist mér ekki vera annað en endurveiting á þeirri upphæð, nema 5 þús. kr. Ef hv. frsm. skilur ekki þennan sannleika, held ég, að erfitt muni reynast að kenna honum sannleikann, ekki síður en hógværðina.

Þá hélt hv. frsm. fjvn. því enn fremur fram, að ég hefði farið með rangt mál, — ósannindi, eins og hann orðaði það, — þegar ég sagði, að vegamálastjóri hefði lagt til, að þessar þrjár brýr, sem ég flyt ásamt öðrum hv. þm. brtt. um, yrðu teknar til framkvæmda og veitt fé til þess, en hann sagði þá jafnframt, hv. frsm., að vegamálastjóri hefði lagt það til, að þessar brýr yrðu teknar fyrst, ef nokkrum brúm yrði bætt við. Er þetta ekki að leggja til, að brýrnar verði teknar upp? Ef hv. þm. Barð. skilur ekki mælt mál betur en þetta, þá treysti ég mér ekki heldur til að kenna honum meðferð á sannleikanum. Ég verð að segja það, að þar sem hann í öðru orðinu viðurkennir, að þessi till. hafi komið fram frá vegamálastjóra, eins og ómótmælanlegt er, og nú er hins vegar vitað, að það eru frammi till. um nokkrar brýr aðrar en þessar þrjár, þá er sjálfsagt, að mér skilst, að ef bætt verður við nýjum brúm, eins og allir kannast við, að full þörf sé á að bæta við brúm, þá er það till. vegamálastjóra, að þessar brýr verði teknar. Og að eiga svo að hlusta á það frá form. hinnar virðulegustu n. í þinginu, að hann sé að bera á aðra samþm. sína, að þeir fari með ósannindi, er þeir tala það, sem liggur skjallega fyrir, að er alveg nákvæmlega rétt (GJ: Fullkomin vísvitandi ósannindi). Já, það er nú svo, að út í hvaða fen og foræði sem hv. frsm. fjvn. anar, bæði í ósannsögli, yfirlæti og mikilmennsku, þá hef ég enga von um að geta bjargað honum.

Þá var hann að tala um það, hv. form. fjvn., að það væri lítið samræmi í því að leggja til, að milljónir væru lagðar til vissra mannvirkja frá minni hendi, og átti hann þar sennilega við framlagið til Suðurlandsbrautar, og leggja svo til að brjóta upp mannvirkin aftur. Ég skil ekki þennan málflutning. Hvar er lagt til í okkar till., að brotin verði upp mannvirki? Ég vil fá skýringu á þessu hjá hv. frsm. Hitt get ég ekki skilið, að á þeim mestu fjárveltiárum, sem yfir þessa þjóð hafa komið, sé búið að stofna fjármálum þjóðarinnar í þann vanda, að þrátt fyrir allt nýsköpunaryfirlætið sé ekki nokkur vegur að sinna neinum nýjum umbótum frá því, sem við höfum, til að bæta um samgöngumál landsins án þess að þurfa að taka til þess lán á lán ofan. Ég skil það ekki. Það er a. m. k. kominn tími til fyrir Alþ. eða þann meiri hl., sem ber ábyrgð á störfum Alþ., að endurskoða fjármálastefnu sína í þessu efni, því að það getur ekki farið saman að telja sig nýsköpunarmenn framar öllum öðrum, en jafnframt rísa upp á afturfótunum gegn hverri umbótatill., sem fram er borin til endurbóta í landinu, og telja, að það sé ekki hægt vegna fjárskorts. Og ef svo er fyrir þjóðinni farið, að enginn eyrir er til að verja til slíkra framkvæmda eins og hér er lagt til, þá er vissulega tími til kominn að endurskoða afstöðu fjvn. og hæstv. ríkisstj. í þessu efni, og ég hygg, að það sé rétt eins og hæstv. fjmrh. lét orð falla við afgreiðslu fjárl., að nýsköpunin byggðist á, að hægt væri að breyta til frá þeirri stefnu í fjárl., sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, en það sést bara ekkert á því bóla.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég vildi óska vini mínum, hv. þm. Barð., þess hlutskiptis að vera nokkru hógværari og rökfastari næst þegar hann tekur til máls um till. þm. en hann leyfði sér að vera í kvöld. Ég held líka, að það væri öllu hollara fyrir fjvn., ef hún ætlar sér að reyna að móta eitthvað afgreiðslu fjárl., svo að ég gefi hv. frsm. holl ráð frá mínu sjónarmiði séð, enda tel ég margt, sem hann heldur fram í minn garð og annarra, með öllu órétt, óhugsað og órökstutt.