18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

16. mál, fjárlög 1946

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta þessar umr. lengi. Það hafa komið hér nokkrar hnútur til fjvn., og er það kannske eðlilegt að vissu leyti, en flestar hafa þær verið heldur veigalitlar og rök lítil eða engin.

Ég vil leyfa mér að mótmæla því, sem kom fram frá hv. 2. þm. Rang., þar sem hann ber það á form. n., að hann hafi neitað að bera upp ýmsar till., sem fyrir n. lágu. Þetta er ekki rétt. Form. hefur ekki neitað að bera upp neina till., sem vitað var, að hafði nokkurt fylgi. Þær hafa því hlotið það þinglega afgreiðslu. Um till., sem vitað var, að lítinn byr höfðu hjá nm., kannske aðeins einn nm., sem fylgdi henni, þá var það ekki sótt svo fast að fá þær bornar upp, ef vitað var, að þær féllu í n. Um till. þá, sem hann sérstaklega átti við, er það að segja, að ég vissi, að hún yrði ekki samþ. í n., og þess vegna lagði ég ekki á það ríka áherzlu, að hún yrði borin upp, en hefði ég farið þess á leit við hv. form., þá veit ég, að hann hefði gert það. Ég tel mér skylt að leiðrétta þetta sem einn nm.

hv. frsm. hafi sýnt í framsögunni yfirlæti og óbilgirni, því hirði ég ekki að svara, því að hann mun svara því sjálfur, ef honum finnst ástæða til, og skal ég ekki svara að öðru leyti fyrir hann, ég tel þess ekki þörf.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. frsm., en það er ekki mjög mikið, sem ég þarf að minnast á. Hann gaf í skyn, að ég væri nú farinn að hafa minni áhuga fyrir Krýsuvíkurvegi. Við höfum oft talað um þennan veg, hv. þm. Barð, og ég. Ég skal viðurkenna, að eftir langan og harðan bardaga varð ég að láta undan í fjvn., eins og í sumu öðru, og fékk ekki mínar fyllstu till. uppfylltar og gaf eftir, að vegurinn yrði lækkaður um 150 þús. kr., en samt sem áður er hann langhæstur allra vega í fjárl., eins og vera ber, en að það hafi verið af því, að ég hafi verið orðinn áhugaminni fyrir þeim vegi en áður, það er mesti misskilningur. Mig langar til að spyrja hv. form. fjvn.: Var það af því, þegar hann féll frá því að brúa fjórar ár í Barðastrandarsýslu, að hann teldi þess ekki þurfa? Hafði hann minni áhuga fyrir því en áður? Ég býst við, að svo hafi ekki verið. Ég býst við, að hann hafi unnið það til að ná einhverju samkomulagi í n., að hann féll frá því, en ekki öðru. Sama máli gegnir með mig um þessa lækkun til Krýsuvíkurvegar, ég gerði það til að ná samkomulagi, en ekki af því, að ég væri áhugaminni fyrir veginum en áður var. Hv. samþm. minn heimtaði, að það væri gefin skýrsla um, til hvers þetta fé hefði farið, sem eftir var gefið. Mér þótti þetta svo broslegt af manni, sem hefur verið í fjvn. Þótt maður gefi eftir á einhverjum lið, þá er ekki verið að gefa hann til sérstaks ákveðins staðar, það er til hinna sameiginlegu þarfa ríkissjóðs, sem kemur fram annars staðar í hækkun, þótt ekki sé í sambandi við þá lækkun. Ég get ekki gefið honum aðra skýringu, og ég hef ekki rétt til að gefa sérstökum manni eða kjördæmi þetta fé.

Þá hefur verið talað hér talsvert um hinn nýja Austurveg, sem ég skil ekki, að þurfi að breyta um nafn. Suðurlandsbraut hefur hann heitið, en hitt er nýyrði frá hv. 1. flm., nýsköpunarmanninum hv. 2. þm. Árn., en ég tel vel til fallið að halda gamla nafninu, hann hefur heitið Suðurlandsbraut, en það er aukaatriði, hvaða nafn vegurinn fær. Mér þykir dálítið einkennilegt, hvernig hefur verið látið út af þeirri till., sem hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. V.-Sk. hafa flutt um þennan veg. Þeir hafa þar flutt till. þeirrar mþn., sem um málið hefur fjallað, um að leggja á hverju ári 3,7 millj. í þennan veg. Þetta gengur svo langt, að meira að segja einn nm., sem á nú sæti hér á þingi, er undrandi yfir þessari málsmeðferð. Þetta er það, sem hann leggur sjálfur til í n., sem hann segir, að hafi starfað mjög vel og dyggilega og samvizkusamlega, en svo, þegar að Alþ. kemur að fylgja þeim till., sem n. leggur til og bendir á, þá er það kallað fjarstæða og gert af illum hug við málið að koma fram með það á þingi. Það er vitað, að í Ed. er frv., þar sem farið er fram á að taka 20 millj. kr. lán til að fullgera þennan veg, en ég sé ekki betur en hér hafi komið fram frá hæstv. fjmrh. till. um heimild til stórfelldrar lántöku til útgjalda ríkissjóðs á næsta ári, og ég get ómögulega séð þennan eðlismun, sem á þessu er, þó að því láni, sem tekið er á næsta ári, sé að einhverju leyti varið til þessa vegar, þó að lánsheimildin sé miklu stærri. Mér þykir miklu eðlilegra, að í þessu sem öðru sé fylgt vilja n.

Ég skal engan dóm leggja á, hvernig þetta vegarstæði er, ég þori ekki að segja um það, en ég mun í því tilfelli algerlega aðhyllast þá till., sem þessi n., sem í voru ýmsir sérfræðingar, leggur til. Ég tel, að við séum þess ekki umkomnir að koma með till. í aðra átt, hvað þetta snertir.

Þá þykir mér það ákaflega einkennilegt, sem kemur fram hjá fjölda hv. þm., þegar þeir tala um þessa samgöngubót austur yfir Hellisheiði, þá halda þeir fram, að Krýsuvíkurleiðin sé talin aðalleið, sem alltaf eigi að fara, þegar sá vegur er fullgerður. Þetta er mesti misskilningur. Þessu hefur aldrei verið haldið fram af neinum manni, sem er fylgjandi Krýsuvíkurleiðinni. Hæstv. fjmrh., hv. þm. Barð. og hv. 6. landsk. hafa allir rætt um, að Krýsuvíkurleiðin væri svo löng að hafa hana sem aðalleið. Hún hefur alltaf verið hugsuð sem þrautavaraleið, sem ekki væri farin nema þegar svo ber undir, að hinar leiðirnar væru ófærar, það er vitað mál. En þeir, sem hafa ferðazt hér iðulega á vetrum austur yfir Hellisheiði og vita, að það tekur stundum á annan sólarhring að komast til Reykjavíkur á bíl austan yfir fjall, þeim vex ekki í augum, þó að Krýsuvíkurleiðin sé 30 km. lengri, ef hún er greiðfær. Ég býst ekki við, að neinn sá maður, sem hefur lent í því svo að segja vikulega, eins og ég hef gert, að vera heilan sólarhring og stundum meira að brjótast austur yfir Hellisheiði, hvort sem farinn er Þingvöllur eða Hellisheiði, geti ekki sætt sig við 30 km. krók, ef sú leið er greiðfærari og snjóléttari. Ég býst við, að mþn. byggi till. sínar um Þrengslin á því, að vegur þar verði snjóléttari, af því að hann liggur um 100 km. lægra en Hellisheiðarvegurinn. Það er rétt, en við vitum þó, að Krýsuvíkurleiðin er miklum mun lægri en Þrengslin og liggur þar að auki á sjávarströndinni, og við, vitum, að þar er snjóléttara en þegar lengra kemur inn í landið. Það er svo einkennilegt með snjóalög austan fjalls, að jafnvel þótt það gæti komið fyrir, að á Krýsuvíkurleiðinni yrði snjór, sem er þó afar sjaldan, það er þá helzt, þegar snjóar af suðri eða landsuðri, sem það getur komið fyrir, að Þingvallaleiðin sé snjóléttari, það getur farið svo í einstökum tilfellum á margra ára millibili. En þegar leiðirnar eru orðnar þrjár, þá segja allir menn, sem þessar leiðir hafa athugað. að mjög miklar líkur séu fyrir því, að einhver leiðin verði ávallt fær, því að snjóalög eru svo misjöfn eftir því, á hvaða átt vindurinn blæs, og það er vitað um Krýsuvíkurleiðina, að þar liggur vegurinn á sjávarströndinni, sem oftast verður þrautalendingin, þegar miklir snjóar eru.

Ég þarf svo ekki meira að fara út í þessi vegamál, því að hv. þm. V.-Sk. sýndi fram á, að það er mótsögn, sem hefur komið fram hjá hv. 6. landsk., og tel ég ekki ástæðu til að fara nánar út í það atriði.

Þá vil ég minnast með örfáum orðum á brtt. frá hæstv. fjmrh. á þskj. 372, þar sem hann fer fram á að fá heimild í 22. gr. til að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda um 30%. Ég skal lýsa yfir fyrir mitt leyti og ég býst við fyrir hönd samflokksmanna minna í fjvn., að okkur finnst þessi till. að ýmsu leyti eðlileg og réttmætt, að hún komi fram að því undanteknu, eins og hv. form. tók fram að nokkru leyti, að við leggjum mikla áherzlu á, að þær verklegu framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru í dreifbýlinu og flestar með mjög lágar upphæðir, verði látnar sitja fyrir með framkvæmdir á næsta ári og frekar dregið úr ýmsum þeim stórbyggingum, sem framkvæma á aðallega í Reykjavík og kaupstöðunum, sem ég tel, að séu, eins og nú standa sakir, ekki hyggilegar, þó að kunni að vera hyggilegt að ráðast í þær, því að þær taka mikið af þeim gjaldeyri, sem mikil þörf er að nota til íbúðarhúsa og annars slíks, auk þess sem þær eru mjög mannfrekar og taka til sín ákaflega mikið af fólki, en eins og nú hagar til með vegagerð, er á það að líta, að það er tiltölulega miklu minna vinnuafli hægt að koma við, eins og hagar til víða með verkfæri til slíkra hluta, og þá munar ekki svo mikið um það, þó að það verði unnið í þeim dreifðu byggðum, sem aðkallandi er og þar sem ekki er veitt mikið fé til annarra verklegra framkvæmda. Og þar sem ég veit, að hæstv. fjmrh. muni líta á það mál með fullum skilningi, þá lýsi ég yfir, að ég mun greiða þessari till. atkv.