12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (3830)

124. mál, skipulagssjóðir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. miðar að því að greiða fyrir skipulagningu á bæjum og framkvæma nauðsynlegar breytingar, sem leiðir af skipulagningunni. Frv. um sama efni, mjög rækilega undirbúið, var borið fram á Alþ. 1940, og er þetta frv. sniðið eftir því að mestu leyti, en þó breytt til um það, sem er, í raun og veru höfuðatriðið, þ. e. a. s., það er fært út og aukið og að ýmsu leyti e. t. v. bætt það atriði. En aðferðin til þess að greiða fyrir þessum skipulagsbreyt. í bæjunum, sem stungið er upp á í frv., er sú að koma upp skipulagssjóðum og afla þeim tekna. Langveigamesta aðriðið í þessari tekjuöflun er það, sem tekið er fram í 5. gr. frv., en það er verðhækkunarskattur á þær fasteignir, sem hækka í verði vegna fasteignamatsbreytinga, m. ö. o. takmarkaður verðhækkunarskattur. Í frv., sem borið var fram á Alþ. 1940, var kveðið svo á, að þegar fasteignamat færi fram, skyldi meta sérstaklega, hve miklu næmi hækkun á fasteignum af þeim ástæðum, sem frv. getur um, vegna skipulagsbreytingar, og var svo heimilað að taka allt að 80% skatt af þessum verðhækkunarskatti í skatt, til þess að greiða fyrir skipulagsbreytingunum. Í þessu frv. er sett inn alveg nýtt ákvæði. Það er haldið þessu, að við fasteignamat skuli meta sérstaklega þá hækkun, sem orðið hefur á eignunum vegna skipulagsbreytingarinnar. En svo er bætt áfram við ákvæði um það, að þegar búið er að fastákveða skipulagsbreytinguna, megi láta fara fram sérstakt mat á þeim eignum, sem ætla má, að hækki í verði við þessar framkvæmdir, og því næst ákvæði um það, að öll þessi allt að 100% verðhækkun renni í sjóði, skipulagssjóði, til þess að greiða fyrir þessari skipulagsbreytingu.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., sem flutt er af 6. þm. Reykv., borgarstjóranum í Rvík, og þess vegna er að ýmsu leyti miðað við Rvík, og n. hefur fallizt á, að í raun og sannleika væri þetta alveg nauðsynlegt. Og ég held, að allir séu sammála um það, að skipulagsbreyt. verði ekki komið fram, nema lögfest verði einhver ákvæði í þessu sambandi. Á hinn bóginn eru það ýmis atriði, sem eru mjög athyglisverð og m. a. þær breyt., sem gerðar hafa verið í þessu frv. frá frv. 1940. Það er t. d., að þegar skipulagsbreyt. hefur haft í för með sér mikla hækkun á t. d. húseignum, fer þetta mat fram og eiganda er tilkynnt, að hús hans hafi hækkað um 100 þús. kr., og þar með á hann að svara út þessari upphæð. Raunar er séð um, að hann fái að greiða þetta með árlegum greiðslum á allt að 20 ára tímabili, en eigi að síður verður hann að svara út þessum 100 þús. kr., og í mörgum tilfellum er þetta sama sem að segja manninum að selja húsið. Og það verður tæplega annað sagt en það sé dálítið hart fyrir manninn að verða að greiða þetta, án þess að hann fái nokkuð fyrir það. Hér kemur fram sá mikli munur, sem er á slíkum verðhækkunarskatti og t. d. eignarnámi, þar sem fasteignirnar eru greiddar um leið og þær eru teknar af eigandanum. Hann nýtur ekki þannig hækkunarinnar, en hann er ekki settur í þann vanda að svara út fé, sem hann á ekki til. N. þótti tæplega gerlegt að heimta slíkan verðhækkunarskatt af mönnum án þess að því fylgi kaupskylda fyrir það verð, sem ákveðið er, og þetta færðist þannig yfir, í eins konar eignarnám. Þetta er mjög athyglisvert, og með þeim möguleikum, sem n. hafði til að rannsaka þetta, var erfitt að segja, hvað bezt væri í þessum efnum. Að vísu má fallast á það, sem segir í grg. frv., að verðhækkun sú, sem verður á fasteignum vegna skipulagsbreyt., sé ekki á nokkurn hátt til orðin fyrir atbeina eigandans. En n. telur þó vafasamt, að réttmætt geti talizt, að hann eigi að þola þetta bótalaust. Og í frv. frá 1940 leit sá ágæti lögfræðingur, sem það frv. samdi, svo á, að ekki væri hægt að fara hærra en upp í 84% og að ekki væri gott fyrir hvern mann, sem fyrir því yrði, að verða að svara öllu út. N. tók því það ráð að leggja til, að þessu máli yrði vísað til nánari undirbúnings af ríkisstj., því að n. er það ljóst, að einhverjar ráðstafanir verður að gera og það mjög fljótlega. Það er mjög mikil bótaþörf í vissum hverfum í bænum, þar sem hefjast þarf handa að breyta alveg um fyrirkomulag og því nauðsynlegt að fá um þetta löggjöf, en vissulega þarf sú löggjöf að vera vel undirbúin. Má vera, að sú athugun leiði til þess, að frv. verði borið fram eins og það er nú. En það hefur þá fengið sína athugun, og mundi margur sætta sig betur við að fylgja því, ef nákvæm athugun hefði leitt í ljós, að eftir allt saman megi fara þá leið. N. virtist líka sumt í frv. ekki nógu skýrt, t. d. 6. gr. Það þarf a. m. k. þó nokkurn skarpleika til að sjá, hvað í henni felst, og þyrfti að orða hana alveg um, svo að menn sjái með vissu, hvað í henni felst. Ég vil geta þess, að einn nm., hv. 3. landsk., var ekki á fundi, og ætla ég, þó að hann hafi nokkra sérstöðu, að hann geti samt fallizt á að samþ. frv., þó að hann hins vegar hafi ekki huga á að koma í veg fyrir, að þessar athuganir séu framkvæmdar. N. hefur því lagt til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá á bskj. 775, sem gengur í þá átt að vísa því til ríkisstj. og að lagt verði fyrir næsta Alþ. frv. um þetta efni.