19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (3834)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 162 og flutt er af mér og hv. 6. landsk. þm., er flutt vegna þess, hve mikil nauðsyn er á því að gera hið allra fyrsta hafnarbætur á þessum stað, sem hér er um að ræða.

Það er öllum kunnugt, að við Austurland eru einhver beztu fiskimið landsins, en þau hafa verið allt til 1920 mjög lítið notuð, a. m. k. af vélbátum. Það er fyrst um 1920, að þar hefst nokkur vélbátaútgerð, mest fyrir forgöngu Þórhalls Daníelssonar í Hornafirði með því að byggja verbúðir til hagsbóta fyrir aðkomumenn. En vegna þess, hve hafnarskilyrði eru slæm, hefur þessi útgerð ekki getað verið nema með tiltölulega litlum bátum. Í fyrsta lagi er innsiglingin ekki góð. En annað er það þó, sem fremur hamlar útgerðinni á þessum stað, sem eru grynningar inni á höfninni og skortur á heppilegum leguplássum og bryggjum. Samt vil ég geta þess, að þrátt fyrir svona erfið skilyrði hefur allmikil útgerð verið rekin þarna síðustu árin, þ. e. a. s. kringum þrjátíu bátar hafa stundað þarna útgerð, fremur litlir, hinir stærstu þeirra 30 smál. og flestir fyrir neðan 20 smál. En 7 millj. kr. á ári hefur verðgildi aflans numið þarna síðustu árin. Það sjá því allir, að það er nauðsynlegt að gera eitthvað til þess að bæta skilyrðin fyrir vélbátaflota Austfirðinga og til þess að nota þessi ágætu fiskimið, sem eru fyrir Austurlandi.

Þegar hafnarl. voru sett fyrir Hornafjörð árið 1935, var gengið út frá því sjónarmiði, að þau væru sett fyrst og fremst fyrir hreppinn sjálfan, sem höfnin skyldi vera í, og þess vegna var ákveðið í þeim l., eins og í hafnarl. flestra annarra staða, að hreppurinn skuli leggja fram þrjá fimmtu hluta kostnaðar við hafnarmannvirkin á móti tveim fimmtu hlutum frá ríkissjóði. En svo hefur reyndin orðið sú, að jafnlítill hreppur sem þessi hreppur, Nesjahreppur, hefur ekki séð sér fært að leggja í svona mikið mannvirki á þennan hátt. Að vísu hefur verið gerð lítilsháttar bót á hafnarskilyrðum þarna með hafnargarðinum, sem gerður var 1936, en síðan ekki, vegna þess að hreppurinn sér sér ekki fært að leggja í það. Og með hverju árinu, sem líður án þess að gera umbætur þarna, má segja, að tjón útgerðarinnar við Austurland verði æ meira. Og vegna þess, að hér er fyrst og fremst að ræða um hagsmunamál vélbátaútgerðarinnar á Austurlandi, þ. e. í Austfirðingafjórðungi yfirleitt, þá má segja, að það sé ekki fremur skylda Nesjahrepps eða Hafnarkauptúns að gera þær umbætur á höfninni, sem þarna þarf að gera, heldur sé rétt að líta svo á, að ríkið eigi að hlaupa undir baggann og láta gera þarna hafnarframkvæmdir eins og gera þarf, einmitt á sama grundvelli sem til er ætlazt með stofnun landshafna, sem töluvert hefur verið rætt um undanfarið. — Fram að þessu hefur nær eingöngu verið talað um, að þarna þyrfti að gera hafnarbætur. En nú er ljóst, að hafnarbætur þarna er ekki nóg að gera, þó að bær séu fyrsta sporið. Nú er vitað, að vélbátum landsmanna verður fjölgað mjög á næstu árum. Og til þess að sú aukning vélbátaflotans komi að fullu gagni, þurfa fyrst og fremst að vera til hafnir fyrir bátana. En það þurfa líka að vera til þær fiskvinnslustöðvar, sem nauðsynlegar eru til þess að vinna úr aflanum, þannig að hann verði sem verðmætastur til útflutnings. Þess vegna höfum við flm. frv. þessa talið sjálfsagt að taka með í frv. ákvæði um byggingu bæði fiskvinnslustöðva og verbúða. Ég vil einnig í þessu sambandi geta þess, að þetta er þegar orðin almenn skoðun fiskimanna austanlands. Og í því sambandi vil ég sérstaklega minna á samþykktir, sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur gert, þar sem farið er fram á, að ríkið láti byggja góða höfn í Hornafirði ásamt hraðfrystihúsi og verbúðum. Og sömuleiðis hefur Alþýðusamband Íslands gert samþykkt, sem fer mjög í svipaða átt.

Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu um þetta mál nú, heldur læt ég nægja að vísa til grg. Vil ég þó aðeins minnast frekar á það, að þær framkvæmdir, sem hér er gert ráð fyrir að gerðar verði, eru ekki annað en eðlilegur liður í þeirri nýsköpun, sem ríkisstjórnin álítur, að þurfi að koma í atvinnulífi þjóðarinnar. Það fer ekki hjá því, að það haldi áfram að byggjast bæir hér á landi, eins og verið hefur. En hitt er líka viðurkennt, að ekki sé sama, hvar þeir bæir verði byggðir. Hingað til hefur Reykjavík fengið mestalla fólksfjölgun þjóðarinnar, en það er viðurkennt orðið af flestum, að slíkt sé ekki heppilegt, heldur verði að vinna að því, að sá hluti þjóðarinnar, sem kemur til með að búa í bæjum framvegis, setjist að á þeim stöðum, sem líklegastir eru til þess að geta gefið góð afkomuskilyrði. Og hvert hefur stefnt í þessu efni, er bezta dæmið til sönnunar þess, að þetta mál, sem fyrir liggur í þessu frv., snýr ekki aðeins að Austfirðingum einum. Enn fremur er vert að benda á það, að þetta mál snýr ekki aðeins að sjávarútveginum, heldur líka landbúnaðinum. Nú er það svo, að ýmis héruð berjast um mjólkurmarkaðinn í Reykjavík. Þeir, sem því vilja halda við sem flestum héruðum úti um byggðir landsins og koma í veg fyrir, að sveitabyggðin falli niður að meira eða minna leyti, hljóta þá líka að vera fylgjandi því, að bæir verði byggðir úti um landið, þar sem landbúnaðarskilyrði eru nærri þeim, svo að skilyrði til landbúnaðarafurðasölu skapist í þeim bæjum fyrir nærliggjandi sveitir.

Óska ég svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., að umr. þessari lokinni.