21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (3837)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þyrfti í raun og veru ekki að taka til máls nú, því að ég geri ráð fyrir, eins og sá hv. þm., sem síðast talaði, að þetta mál gangi til þeirrar n., sem ég á sæti í. En á þessu stigi málsins vil ég þó, vegna hv. flm. og vegna þeirrar ræðu, sem hv. þm. A.-Sk. flutti nú, taka fram, að það er alveg rétt, að þetta mál er ekki þann veg undirbúið, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum taldi óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að hún sendi frá sér frv. um landshöfn á þessum stað. Og þetta gildir ekki um þennan stað einan, heldur er um fleiri staði að ræða, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum hefur bent á sem líklega staði fyrir landshafnir. Milliþn. hafði alveg sérstaklega til athugunar, hvar svo væri ástatt, að auðug fiskimið væru undan landi, en fámenn og fátæk sveitarfélög, þar sem helztu lendingarstaðir koma til greina. Sýndist n., að á slíkum stöðum yrði ríkið að taka að sér að kosta hafnir, ef fiskimiðin ættu að nytjast eins og nauðsyn bæri til fyrir hag landsins, en ekki þýddi að ætlast til þess, að fátæk sveitarfélög tækju þar á sig t. d. þrjá fimmtu kostnaðar. Því að það mætti búast við því, að hin veika aðstaða sveitarfélaganna yrði til þess, að byrjað yrði miklu smærra, og jafnvel þá að stórt yrði byrjað, þá kæmi strax kyrkingur í framkvæmdirnar, og því þýddi ekki annað en að ríkið hefði þetta algerlega með höndum. Og vænta má, að slíkar hafnarframkvæmdir komi sveitarfélögum og héruðum í nánd alveg að sama gagni, þó að sá háttur væri hafður á eins og milliþn. lagði til, að hafnir þessar, sem við kölluðum landshafnir, yrðu sjálfseignarstofnanir. Milliþn. í sjávarútvegsmálum hafði athugað skilyrði, eins og ég áður tók fram, á nokkrum stöðum á landinu fyrir landshafnir, sem fyrst og fremst yrðu fiskihafnir. En svo stóð þá á, að fullkomnar rannsóknir og fullkomnar kostnaðaráætlanir lágu ekki fyrir um neinn af þessum stöðum, sem milliþn. hafði einkum í huga, nema um Njarðvík á Reykjanesi. Milliþn. lét sér þess vegna nægja að semja frv. um þann eina stað og senda ríkisstjórninni. Og frv. þetta var prentað í handriti og útbýtt meðal þm. í fyrra, eins og hv. þm. A.-Sk. tók fram. En n. skrifaði ráðh. hins vegar bréf og benti á fjóra aðra staði, sem hún teldi, að ætti að gera sérstaka athugun á, hvort ekki ættu að byggjast upp sem landshafnir, og óskaði n. alveg sérstaklega eftir, að skilyrði fyrir landshöfn í Hornafirði væru rannsökuð. Nú er mér ekki kunnugt, að slík rannsókn hafi farið fram síðan, en má þó vel vera, að svo sé. Og þó ég tæki ekki eftir því hjá hv. flm. frv., að þeir skýrðu frá því, þá gæti það vel verið. En það eru svo alveg sérstök lendingarskilyrði í Hornafirði, að það er nauðsynlegt, að nákvæm rannsókn fari fram á því, hvort hægt er að byggja þar höfn og þá hve stóra, áður en lög eru samþ. um það með ákveðnum fjárframlögum, að þarna skuli verða byggð höfn og það skuli vera landshöfn.

Um málið ræði ég ekki frekar, því að það kemur til sjútvn., og n. getur látið skoðanir sínar koma fram í nál. fyrir hv. þd. En það er rétt að taka það fram nú þegar, að fiskibátafloti Austfirðinga hefur ekki haft annað að flýja á síðari árum að heita má á vetrarvertíð en til Hornafjarðar. Því að það hefur reynzt vera svo miklum erfiðleikum bundið að sækja verstöðvar við Faxaflóa, að flestir Austfirðingar hafa gefizt upp á því, þótt fiskimiðin séu ágæt. Og ástæðan er sú, að hafnarskilyrðin hafa verið léleg, en mjög langt fyrir Austfirðinga að fara í þessa selstöð, og þeir hafa því orðið að fara til Hornafjarðar. Og þar eru ágæt fiskimið, þó að þau í sumum árum hafi brugðizt.

En ég tel, að alveg nauðsynlegt sé, áður en ákveðið er, hvort þarna kemur landshöfn, að hafnarskilyrði þarna verði rannsökuð til hlítar.