18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

16. mál, fjárlög 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal vera fáorður. Bæði er klukkan að ganga fimm að nóttu og svo er hitt, að hv. 6. landsk. (GBen), sem ég ætlaði að svara nokkru, er kominn í háttinn og aðrir búnir að svara honum að nokkru leyti, svo að ég get alveg leitt hann hjá mér, enda þótt enn þá sé nokkuð, sem hann sagði, sem þyrfti að mótmæla.

Það, sem alveg sérstaklega gerir það að verkum, að ég stend upp, er brtt. fjmrh. á þskj. 372, og þá fyrri málsl. hennar sérstaklega. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. fái heimild til þess að lækka um 30% eftir jöfnum hlutföllum þær greiðslur, sem á fjárl. eru samþ. til verklegra framkvæmda, sem ekki séu bundnar í öðrum lögum en fjárl. Ég get nú vel skilið það, að ríkisstj. vilji fá slíka heimild. Mér finnst það ekki nema eðlilegt. En mér finnst á hinn bóginn, að það sé svo himinhrópandi mismunur á þeim framlögum, sem hér er ætlazt til, að gert sé jafnt undir höfði, að það sé gersamlega óhugsandi að samþ. þessa brtt. eins og hún liggur fyrir, nema fyrir liggi a. m. k. yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. um það, að hann muni ekki framkvæma hana að öllu leyti eins og orðalag brtt. gefur tilefni til að ætla, að gert yrði. Það er svo mikill eðlismunur á þörfinni fyrir að klára t. d. einhvern vegarspotta, sem í fjárl. eru ætlaðar 5 þús. kr. til, og hinu, að koma upp byggingum, sem stendur á sama, hvort byggðar eru 1946, 1947, 1948 eða jafnvel 1950, eins og segja má um ýmsar þær byggingar, sem fyrirhugað er, að ríkið reisi á næstu árum, og mundi kosta milljónir að reisa, og allir játa í hjarta sínu, að því efni og vinnu, sem ætlað er til að reisa þær, væri miklu betur varið til þess að reisa með því íbúðarhús, — það er svo mikill eðlismunur á þessum tvennum framkvæmdum; að ég get ekki fellt mig við þessa brtt. hæstv. fjmrh., nema hann a. m. k. gefi þá yfirlýsingu, að ekki verði skorin niður framlög, sem kannske litlu muna fjárhag ríkisins, en framkvæmdirnar, sem gerðar væru fyrir féð, geta orðið tiltölulega mörgum til verulegs gagns, svo sem þar sem gert er ráð fyrir í fjárl. að leggja fram litlar fjárhæðir til að klára vegarspotta, gera hafnir og brýr o. fl. úti um hinar dreifðu byggðir. Og ef hæstv. fjmrh. vildi lýsa þessu yfir, þá treysti ég honum það vel, þó að ég treysti ekki vel ríkisstj. í heild, að ég met orð hans það mikils, að ég tel líklegt, að þá mundi ég sætta mig við að samþ. þessa brtt. hæstv. fjmrh. En ef á að skera jafnt niður fjárframlög til mannvirkja, sem fé er veitt til í fjárl. og eru ekki bundin með öðrum l., hvort sem um er að ræða 5 þús. eða 10 þús. kr. í stað, og hins vegar framlög, sem skipta hundruðum þús. kr. og kannske milljónum og eiga að ganga til mannvirkja, sem er ekki nauðsynlegt að byggja alveg strax, þá get ég ekki þolað það.

Þá er annað, sem undrar mig. Við höfum nú sex ráðh. og hv. þm., sem styðja þá, hafa reynt að binda þá saman, til þess að gera þá sem sterkasta. En þó er það svo, að hæstv. fjmrh. stendur upp við umr. um fjárl. og óskar, að aftur séu teknar tvær brtt., sem meðráðh. hans flytja. Og hann stendur einnig upp til þess að óska, að brtt. hans um heimild til niðurskurðar á framlögum á fjárl., sem ég gat um, verði samþ. Og þó er það svo, að meðráðh. hans flytja brtt., sem eru 600–700 þús. kr. hækkunartill. Og einn hv. þm., sem farinn er hér af fundi nú, hv. 2. þm. Rang., lýsir yfir, að öll ríkisstj. standi á bak við 1,8 millj. aukin framlög úr ríkissjóði, sem brtt. er um. — Mér finnst, að þessir 32 hv. þm., sem saman hnýttu þá 6 hæstv. ráðh. okkar, sem nú eru hnýttir saman í ríkisstj., muni þurfa að reyra böndin fastar, svo að ekki komi fram svona mikið ósamræmi í þeirra gerðum, heldur séu þeir svo fast saman bundnir, að þeir geti komið fram í þessum efnum eins og ein persóna, svo að tveir ráðh. flytji ekki brtt., sem svo þriðji ráðh. óskar, að teknar verði aftur. Og ég vildi mega vænta þess, að þegar til afgreiðslu fjárl. kemur, standi hæstv. ráðh. að einhverju leyti saman um þetta, svo að eitthvað fengist fram af því viti, sem hæstv. fjmrh. vill láta koma í fjárl., en hann virðist ekki ráða við að framkvæma, af því að böndin, sem saman hnýttu þessa 6 ráðh., virðast ekki nógu sterk.