21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (3841)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mig langar til að segja um þetta mál örfá orð, áður en því er vísað til n. — Í þinglokin síðustu var útbýtt hér í handriti á meðal þm. frv. til 1. um landshöfn í Njarðvíkum, sem samið hafði verið af milliþn. í sjávarútvegsmálum og sent ráðuneytinu til fyrirgreiðslu. Þetta frv. fór í þá átt, að ríkisstj. yrði heimilað að byggja í Njarðvíkum, höfn á ríkisins kostnað með hliðsjón af því, að þar væru auðug fiskimið, en lítill hreppur við lendingarstaðinn ómegnugur til stórra framkvæmda, og þangað sæktu bátar víða að af landinu og mundu gera það í ríkari mæli, ef hafnarskilyrði væru þarna betri. Þetta voru þau rök, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum færði fyrir sínu máli og mér fannst mjög skynsamleg rök og eðlileg. Þess vegna var sá háttur hafður á um þetta mál þá — af því að komið var nærri þinglokum og ekki von til, að málið gengi fram á því þingi, — að kynna mönnum málið með því að senda þetta í handriti, svo að það gæti orðið athugað til næsta þings.

Árangurinn af þessari kynningarstarfsemi hefur orðið sá, að hér hafa komið fram tvö önnur frv., annað um landshöfn á Þórshöfn, en hitt frv. er um landshöfn í Hornafirði, en ekki það frumvarpið, sem fyrst og næst lá fyrir, um landshöfn í Njarðvíkum. En það á sínar orsakir, að það síðast talda er ekki komið, því að það hefur verið í stöðugum undirbúningi til síðustu stundar, en hefur verið sent sjútvn. til flutnings, og ég vona, að það komi hér til umr. í hv. d. bráðlega. En hafnargerð í Njarðvíkum hefur verið þrautundirbúin í mörg ár. Það hafa verið gerðar ýmsar fyrirkomulags teikningar og kostnaðaráætlanir um ýmis mannvirki þar, sem líka liggja fyrir. Það hafa verið athugaðir allir nærliggjandi staðir og möguleikar til slíkra framkvæmda þar. Það hefur verið rætt um málið við hafnarnefndir og útgerðarmenn á þessum stöðum um samkomulag við þessa aðila um þátttöku í framkvæmd málanna. — Það er ekki hægt að segja um þessa tvo staði, sem frv. eru komin fram um að gera landshafnir á, þ. e. a. s. Þórshöfn og Hornafjörð, neitt svipað því í þessu tilliti eins og hægt er að segja um Njarðvíkur. Að vísu hafa farið fram bráðabirgðaathuganir á þessum stöðum, sem reyndar gefa vissar bendingar í þá átt, hvert þróunin stefnir. En það er svo fjarri því, að á þessu stigi málsins sé undirbúningi þess svo langt komið, að það sé tímabært, að mínu viti, að flytja frv. um þessa staði í þeirri meiningu að samþ. nú þegar að byggja landshafnir þar. Ég geri ráð fyrir, — eins og ég sagði, þegar til umr. var frv. til l. um landshöfn á Þórshöfn, — að þarna séu ýmsir möguleikar til byggingar landshafnar, sem sjálfsagt sé að athuga, og ýmislegt, sem bendi til þess, að þróunina muni bera í þá átt að gera þarna landshöfn. En ef hér er farið að setja af stað tvö landshafnafrv., meira og minna óundirbúin, við hliðina á því frv., sem er mest undirbúið og hefur mesta möguleika til skjótrar framkvæmdar, þ. e. a. s. um landshöfn í Njarðvíkum, það tel ég mjög illa farið, því að það gæti torveldað framkvæmdir á þeim stað eða stöðum, þar sem málið er vel undirbúið. Hér hefur af hv. þm. verið hlaupið fram fyrir það, sem eðlileg þróun er fyrir hendi um, þó búast megi við, að seinna komi landshafnir á þessum stöðum. — Byggingar stórra hafna, eins og hér er um að ræða, eru gífurlega stór mannvirki. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að byrjunarframkvæmdir landshafnar í Njarðvíkum muni kosta — eftir frv. — um tíu millj. kr.

Hér í frv. um landshöfn í Hornafirði eru nefndar sex millj. kr. Og í frv. um landshöfn á Þórshöfn fjórar millj. kr., þannig að það er vitað mál, að ætti að gera þessar landshafnir mjög fljótlega, ásamt landshöfn í Njarðvíkum, þá mundi þurfa að einbeita þangað ákaflega mörgum kröftum og miklum, sem ég efast um, að okkur tækist að hafa ráð á samtímis. Ég hafði hugsað mér í þessum hlutum þá framkvæmd mála, að fyrst væri tekin ein landshöfn, sem bezt væri undirbúin og mestir möguleikar til, að kæmi sem fyrst að notum, sem ég tel tvímælalaust Njarðvíkur. Tel ég hagkvæmast, að þessar framkvæmdir verði unnar þar svo, að þær kæmu að verulegum notum, áður en farið væri að dreifa kröftunum að verulegu leyti til annarra staða. Hitt er annað mál, að athuga, hvað hægt er að gera til þess að bæta úr brýnustu þörf barna eystra, á þann hátt sem tíðkazt hefur. — Þegar milliþn. í sjávarútvegsmálum hafði þetta mál á döfinni, voru hjá henni nefndar fimm eða sex hafnir, sem gætu komið til mála sem landshafnir, sem hún taldi eðlilegt að nefna í því sambandi. En þær eru, auk Njarðvíkur, Þorlákshöfn, Hornafjörður, Þórshöfn og Skagaströnd og ein á utanverðu Snæfellsnesi. Á öllum þessum stöðum eru ýmsir möguleikar, sem benda til þess, að fyrr eða síðar verði horfið að því ráði að gera þarna einmitt landshafnir kannske í svipuðum stíl og menn hugsa sér nú um Njarðvík. En þó — eins og ég sagði í upphafi — tel ég málið vera það lítið undirbúið á öllum þessum stöðum öðrum en Njarðvík, að það sé ekki rétt að slá föstu með lagasetningu, að þetta skuli gert þegar í stað. Ég skal líka benda á, að á þessum stöðum hafa verið uppi till., svo að segja öllum, um svipaðar aðgerðir á nærliggjandi stöðum. Og þó ég fyrir mitt leyti álíti, að varla komi til greina svipaðar framkvæmdir þar og á þessum stóðum, sem ég nýlega nefndi, þá tel ég þó rétt, að það yrði betur athugað, áður en málinu yrði endanlega ráðið til lykta viðkomandi hverjum þessara staða fyrir sig. Sömuleiðis vildi ég einnig mega á það benda, að ef samþ. verða nú tvö, þrjú eða fjögur landshafnafrv. samtímis, þá er nokkurn veginn víst, að fleiri frv., þ. e. a. s. um hina staðina, sem ég áðan nefndi, koma á eftir, Þorlákshöfn, Skagaströnd og á Snæfellsnesi. Og ég tel, að þessar hafnir allar, sem nefndar hafa verið, aðrar en Njarðvík, hafi nokkurn veginn jafna aðstöðu og megi færa nokkurn veginn jafnsterk rök fyrir nauðsyn byggingar landshafnar á þessum stöðum öllum. Ef frv. um þessar hafnir allar eru borin fram í einu og samþ. og kröftunum svo dreift, að byrjað verði á mörgum stöðum í einu, en á engum lokið né gert svo mikið, að nægi til mikilla bóta, teldi ég verr farið en heima setið. Ég tel skynsamlegustu leiðina í þessum málum að byrja á fáum stöðum í einu, kannske aðeins einum, og fara þar það langt með verkið, að verulegur árangur sæist þegar á fyrstu árum. En ef byrjað er að byggja landshafnir á mörgum stöðum í einu, er hætt við, að líði langur tími, áratugur eða meira, þangað til verkið er komið á það stig, að hægt sé að hafa þess veruleg not.

Ég vil að vísu síður en svo amast við því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, fari til n. og verði athugað. Ég tel sjálfsagt, að svo verði gert. En ég vil aðeins skjóta þessari aths., sem ég hef borið hér fram, til þeirrar hv. n. og beina því til hennar, að hún athugi nokkuð þau sjónarmið, sem ég hef hér greint, áður en hún afgreiðir þessi tvö landshafnafrv. sem hér liggja nú fyrir hæstv. Alþ.

Frv. um landshöfn í Njarðvíkum veit ég ekki annað en að komi mjög bráðlega fram á Alþ., og því fylgja allar þær upplýsingar, sem á þessu stigi málsins er hægt að láta í té um það mál. Og ég tel það svo undirbúið, að í það megi fara nú þegar að byrja á byggingu landshafnar í Njarðvíkum, sem ég tel allra veigamesta staðinn af þessum sex, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum hefur talið, að komið geti til mála sem landshafnir.