21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3842)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð vildi ég segja út af ræðu hv. þm. A-Sk. Ég efast ekkert um það, að það þarf að fara fram meiri rannsókn en þegar er gerð til undirbúnings byggingar landshafnar í Höfn í Hornafirði, áður en allt þetta er framkvæmt, sem lagt er til í þessu frv., að framkvæmt verði þar í sambandi við hafnargerð þar. — En ég vil benda á, að vitamálaskrifstofan hefur þegar gert áætlanir um þau mannvirki, sem hún telur sérstaklega að þurfi að gera vegna hafnarinnar. Á grundvelli þessara rannsókna er það, sem Nesjahreppur hyggst að gera þær framkvæmdir, vegna þess að hann treystir því, að það sé óhætt, og við flm. frv. teljum, að það sé óhætt fyrir Nesjahrepp að gera framkvæmdir á grundvelli rannsókna, sem niðurstöður um hafa komið frá vitamálaskrifstofunni. Og við lítum svo á, að það mundi vera lítil áhætta fyrir ríkið að hefja framkvæmdir á þessum allra nauðsynlegustu hlutum, sem þarf að gera til þess að bæta höfnina þar. Ég hygg, að vitamálastjóri sé því samþykkur, að það megi ekki dragast lengur. Og þá væri það að mínu áliti ekki hætta fyrir hæstv. Alþ. samþ. það, að ríkið tæki verkið að sér á þeim grundvelli, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.