21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (3845)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera þá stuttu athugasemd við ræðu hæstv. samgmrh., þar sem hann var að tala um, að það mundi ekki vera rétt að setja lög um fleiri landshafnir en eina í einu og ekki vit í að leggja samtímis í fleiri slík mannvirki að ég vil benda honum og hv. sjútvn. á, að í frv., sem ég flutti um landshöfn á Þórshöfn, er ekki gert ráð fyrir, að í framkvæmdir þar verði ráðizt fyrr en fé er veitt til þess í fjárl., og þó að frv. væri samþ., mundi ekkert verða framkvæmt þar fyrr en fé væri veitt til þess í fjárl. Svo að hættan við að samþ. þessi frv. er, eftir því sem ég bezt fæ séð, ekki nein fyrir ríkisstjórnina.

Annað vil ég drepa á í sambandi við það, sem hann var að telja upp hafnir, sem milliþn. í sjávarútvegsmálum minnist á í sínu nál. og telur eðlilegt, að ríkið kosti jafnvel að öllu leyti. Viðkomandi Þorlákshöfn er það að segja, að ég hef heyrt, og það síðast í morgun frá hv. þm. Árn., að það muni ekki vera tilætlun þeirra, sem búa í héraðinu þar umhverfis, að ríkið beri kostnað við þá höfn, nema að því leyti að styrkja hafnarframkvæmdir þar með beinum framlögum og einnig með því að ganga í ábyrgð fyrir láni til framkvæmdanna. Það mun vera ríkjandi skoðun í héraðinu, að héraðið sjálft eigi að eiga þá höfn, svo að ég hygg, að hæstv. ráðh. þurfi ekki að óttast það, að samþykkt frv. um landshöfn í Þorlákshöfn verði sótt fast á Alþ., ekki a. m. k. að svo stöddu. — Hættan við að samþ. frv. um landshöfn á Þórshöfn, eins og ég flutti það snemma á þessu þingi, virðist því ekki vera nein fyrirríkissjóð, vegna þess að það er ekki ætlazt til, að svo mikið sem framlög til byrjunarframkvæmda eigi sér stað fyrr en Alþ. veitir fé til þeirra í fjárl.