17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (3856)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Björn Kristjánsson:

Það mun hafa verið um miðjan október, sem ég, flutti hér í þessari hv. deild frv. um landshöfn á Þórshöfn á Langanesi, og um það bil mánuði seinna fluttu tveir hv. þm. sams konar frv. um landshöfn í Hornafirði.

Síðan fyrra frv. kom fram, eru liðnir um það bil 6 mánuðir, og síðan síðara frv. var tekið fyrir, eru um 5 mánuðir, og nú loks er nýkomið um það nefndarálit frá hv. sjútvn., en um frv. það, sem ég flutti, hefur ekkert heyrzt frá hv. n., nema hvað minnzt er á landshöfn í Þórshöfn í nefndaráliti um hitt landshafnarfrv. Vil ég láta í ljós óánægju mína út af þessari afgreiðslu hv. n., því að ég uni því illa, að frv. mitt, sem var miklu fyrr lagt fram, skuli enga beina afgreiðslu hafa hlotið.

Af nefndaráliti hv. sjútvn. um frv. um landshöfn í, Hornafirði sést, að n. hefur ekki treyst sér til að mæla með því, að það frv. verði samþ. né heldur frv. um landshöfn í Þórshöfn. Leggur n. til, að fyrrnefnt frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem felur í sér áskorun til hæstv. ríkisstj. um að láta athuga vandlega alla aðstöðu til hafnargerða á þessum stöðum og fleiri, sem komið gætu til greina í þessu sambandi. Get ég út af fyrir sig sætt mig við þessa dagskrártillögu, enda bjóst ég ekki við því, að framkvæmdir á hafnargerð á Þórshöfn gætu hafizt á þessu ári, þótt frv. mitt hefði náð samþykki.

Ég óska þess, að hæstv. samgmrh. láti ekki traust sjútvn. sér til skammar verði og sjái um, að ýtarleg rannsókn fari fram þegar á næsta sumri á skilyrðum til hafnargerðar í Þórshöfn, því að sjálfsögðu er sú rannsókn nauðsynleg undirstaða verklegra framkvæmda. Þórshöfn er að flestra dómi einhver sá ákjósanlegasti staður til fiskútgerðar á landinu og skilyrði til búskapar eru þar sérstaklega góð. Mig minnir, að hæstv. samgmrh. segði við 1. umr. þessa máls í haust, að hann teldi ekki rétt að setja 1. um þetta. Sú lagasetning gat þó ekki falið í sér neina hættu, því að sjálfsögðu verður ekki byrjað á framkvæmdum fyrr en fé er veitt til þess í fjárlögum, og slíkar fjárveitingar hefur hæstv. ríkisstj. og Alþ. í hendi sinni.

Nú hafa verið afgr. 1. um landshafnargerð í Njarðvíkum, sem áætlað er, að muni kosta um 10 millj. króna. Er þá auðsætt, að ekki muni þykja fært að byrja á byggingu fleiri landshafna að svo stöddu. En rannsókn á skilyrðum fyrir slíkum framkvæmdum annars staðar er höfuðnauðsyn, sem ekki má láta undir höfuð leggjast.