18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal vera fáorður. Hv. þm. Borgf. lagði annan skilning í það stóra atriði en ég, hvernig skipta bæri því fé, sem hann gat um og ég hafði gert að umtalsefni í ræðu minni í dag. En í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda honum á, að það hafa komið fram mótmæli á þessu stigi gegn fyrirkomulagi skiptingarinnar. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég hefði þurft að haga orðum mínum um þetta efni eins og ég gerði, ef það hefði ekki verið til staðar, og sést það m. a. á þeim till., sem komið hafa fram í sambandi við skiptingu þessa fjár. Nú er alveg ljóst, að hæstv. samgmrh. hefur í raun og veru ótakmarkað vald til þess að nota hafnarbótaféð eins og honum sýnist samkv. l. um hafnarbótasjóði. Og ég hygg, að það væri ekki að brjóta þau lög, þó að hann viki eitthvað frá þeirri skiptingu, sem fjvn, var sammála um að leggja til, að gilda skyldi. Það kann líka að vera nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðh. að víkja eitthvað frá þeirri skiptingu, ef ekki er unnið á þeim stöðum, sem gert er ráð fyrir, að unnið verði á, samkv. þeirri skiptingu, sem hér ræðir um. Ég skal ekki ræða meira um það atriði.

Varðandi fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. um, hvað hafi verið gert við féð, sem flutt var frá Selvogsveginum, þá er því til að svara, að því var dreift hingað og þangað um landið, eins og hv. 1. þm. Rang. tók fram. Í fjárlfrv. var gert ráð fyrir 5 millj., og 100 þús. kr. til vegaframkvæmda. Síðan koma till. frá vegamálastjóra um 6 millj. og 300 þús. og að lokum leggur fjvn. til, að veittar verði rúmlega 7 millj. til vega. Má þá geta nærri, að þessar 150 þúsund kr., sem lækkuðu framlagið til Krýsuvíkurvegarins, geta ekki uppfyllt allar viðbætur til annarra staða og því ekki auðvelt að greina, hvert þær hafa farið. En þar sem viðkomandi hv. þm. er ekki viðstaddur hér nú, vona ég, að hv. meðþm. hans beri honum þau skilaboð frá mér, ef honum skyldi var fróun í því, að hver einasti eyrir hafi farið vestur í Barðastrandarsýslu. Hins vegar mun hv. þm. hafa séð till. vegamálastjóra og veit því, hvað mikið átti að fara til Hagabrautar.

Ég sé ekki ástæðu til að svara ræðu hv. þm. Vestm. En ég sé þó, að á þessari stundu hafa þeir orðið vinir þeir hv. þm. Vestm. og 1. þm. Rang., eins og Heródes og Pílatus, og hefur mér þótt það heldur styrkur en hitt. Ég veit ekki, hvernig venja hefur verið að taka form. fjvn. á Alþ. á öðrum tímum en þeim, sem ég hef setið hér, en ég minnist ekki að hafa heyrt falla jafnþung orð í hans garð og þau, sem til mín hafa verið sögð í þessum umr., þar sem m. a. því er haldið fram í fullri alvöru, að ég hafi ekki til annars setið í n. en til að hlúa að mér og kjördæmi mínu. Það þykir kannske eðlilegt, að ég taki á móti slíkum skotum án þess að svara. Ef hv. þm. hafa skotið þessum skotum og búizt við því, þá hafa þeir sett allt annan mann í n. en þeir áttu að gera. Ég tel, að slík skot, bæði frá hv. þm. Vestm. og öðrum hv. þm., séu aðeins þakklætisvottur fyrir það starf, sem ég hef lagt í þetta verk. En ég er viss um það, að ef sjónarmið þeirra hefði ráðið,, þá væri ekki víst, að hæstv. fjmrh. hefði viljað taka við því verki.

Rök hv. þm. V.-Sk., sem heldur því fram, að mismunurinn á 35 og 50 sé 5, ætla ég ekki að ræða. Hitt vil ég taka fram í sambandi við þetta mál, að fjvn. hefur ekki lagt þann skilning í heimildina, að henni ætti að bæta við upphæðirnar, sem heimilaðar voru 1944 og 1945, svo að nú væri heimilað að greiða 95 þús. kr. til Klifanda, en sá skilningur kom skýrt fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. Að gefnu tilefni vil ég líka taka það fram, að ráðh. lagði ekki heldur þann skilning í þessa heimild. Ég hef því farið með rétt mál og rök hv. þm. hafa verið fyrir neðan allt velsæmi hér á hæstv. Alþ. Á slíkum rökum byggði hv. þm. álit sitt á verkum mínum í fjvn.