15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3885)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Út af síðustu ummælum hv. þm. Barð., um að hin aðþrengda fjvn., sem í nærri 3 mánuði hefur ekki haft tíma til að afgr. þetta mál, fái frest til þess, vil ég mótmæla því, að þessu máli verði frestað til þess að setja það aftur í hendur fjvn. Ég býst við, að hver þm. geti skilið það, að n., sem svo hefur vanrækt starf sitt að liggja á þessu máli, undir forustu form., síðan 5. des., hefur ekki nokkurn rétt á því að krefjast þess, að málinu verði frestað til þess að hún taki það til meðferðar. Að öðru leyti verð ég að segja það, að mig furðar stórlega á ummælum hv. þm. í ræðu hans nú, ekki sízt vegna þess, að út af fyrir sig var fullt samkomulag á milli okkar um aðatatriðið í þessu máli, sem sé að fá heildarlöggöf um stuðning við vatnsveitur: Nú segir hv. þm., að það, að málið hafi dregizt í n., sé eingöngu að kenna vanrækslu þm. Snæf., hann hafi aldrei lagt fram fullnægjandi upplýsingar í þessu máli. Ég verð að segja það, að hv. þm. er ekki klígjugjarnt. Hann veit vel, að hvorki hann né n. hafa beðið mig um upplýsingar og kostnaðaráætlunin, sem ég hef ekki sýnt, liggur fyrir í þskj. og grg. fyrir þeirri brtt., sem ég flutti um þetta í fyrra, sem sé, að það eigi að nota 650000 kr.. í þessu skyni. Ég veit, að þessi hv. þm. les þingskjöl mjög samvizkusamlega, og þess vegna undrar það mig mjög, að þetta skuli hafa farið fram hjá honum. Hv. fjvn. hefur aldrei óskað eftir frekari upplýsingum í þessu máli en þeim, sem eru í grg., annars hefði henni verið það velkomið að fá þær, en ég hélt, að það væri nóg, enda hefur form. n. aldrei imprað í þá átt. Hann sagði við mig, að hann vildi ekki afgr. þetta mál eitt út af fyrir sig, og tjáði ég mig reiðubúinn til samvinnu um það. Hitt er svo annað mál, að mér hefur ekki verið falið að semja þessa löggjöf, það hefur verið unnið að því af vegamálastjóra. Hv. þm. sagði : „Það er samkomulag um það við hv. þm. Snæf. að geyma þetta mál.“ Ég held, að ég þurfi varla að svara þessu. Hvers vegna skyldi ég viku eftir viku hafa verið að hamra á því, að n. skilaði áliti, hefði mér verið sama. Nei, þetta er of ósennilegt til að nokkur trúi því. Ég þarf ekki að bæta miklu við, en skal þó aðeins endurtaka það, að þessi fullyrðing hv. þm. Barð. fær hvergi staðizt. Ég skal viðurkenna, að mér og nýbyggingarráði hefur orðið á ein alvarleg yfirsjón, og hún er sú, að um leið og leitað var umsagnar stjórnmálaflokkanna í landinu, þá skyldi vera leitað persónulegrar umsagnar hv. þm. Barð., og þess verður málið nú að gjalda.