15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3886)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Gísli Jónsson:

Ég get fullvissað hv. þm. Snæf. um það, að þm. Barð. ber meiri velvilja til málsins en svo, að þetta gæti ráðið úrslitum. En hv. þm. Snæf. hefur hvað eftir annað sagt mér, að það þyrfti ekki að afgr. till., því að hann væri að bera fram málið. Eins og ég tók fram áðan, er það ekki annað en brosleg atkvæðahræðsla, sem kemur honum til þess að hefja hér umr. um þetta mál, frekar en umhyggja fyrir hagsmunum sýslunnar. Ég óskaði þess meðal annars í gær, að hv. þm. kæmi til n. til þess að ræða við okkur um brtt., sem ég hafði búið út og hefði kannske viljað ræða við hann. Þá rauk hann upp með rosta og sagðist skyldi sýna fjvn., að það þýddi ekki fyrir hana að setja sig upp á móti málinu, því að hann hefði alla flokkana í rassvasanum. Ef hv. þm. Snæf. heldur, að svona eigi að fara að við alvarlegt mál, þá held ég, að honum veiti ekki af að ganga í skóla. Ég óska þess, að hæstv. forseti beri það undir atkv., hvort fresta eigi málinu og láta n. fá tækifæri til þess að gefa út nál. áður en þessari umr. er slitið, því að fái n. ekki að fjalla um málið, mun ég bera fram brtt., því að n. telur ekki undir neinum kringumstæðum sæmandi að láta till. fara svona áfram, þótt hún hafi ekki getað fengið hv. þm. Snæf. til að tala við sig um málið.