19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3894)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég get ekki annað en verið ánægður yfir nál. og till. hv. fjvn. um þetta mál. Hún fellst á nauðsyn þess og vill ekki aðeins samþ. þá ½ millj. kr. ábyrgð til vatnsveitunnar, heldur vill hún hækka ábyrgðina upp í 600000 kr. Ég vil því lýsa ánægju minni yfir því, að málið er komið á svo góðan rekspöl. Er bersýnilegt, að ef hæstv. forseti hefði ekki orðið við beiðni minni um að taka málið á dagskrá s. l. föstudag þrátt fyrir mótmæli hv. form. fjvn., þá væri málið ekki svo langt á veg komið.

Það ætti ekki að þurfa að ræða málið frekar, því að það hefur verið útlistað það rækilega. Ég kemst þó ekki hjá því að benda á, að með þessu nál. eru hraktar vissar staðhæfingar, sem slegið var föstum hér á síðasta fundi af hv. þm. Barð., og það er vissulega ánægjuefni, þegar hægt er að hrekja staðlausar staðhæfingar, og ánægjulegast er þó, þegar þeir gera það sjálfir, sem hafa haldið þeim fram. Ég hélt því fram í þeim umr., að form. fjvn. hefði ekki viljað afgr. þetta mál sér, heldur bíða eftir heildarlöggjöf. En hann hélt því fram, að það hefði ekki verið n. sök, að málið hefði dregizt, ég hefði beðið n. að geyma málið. Með nál. eru svo þessar fullyrðingar hv. þm. hraktar af honum sjálfum, og þar með er sannað það, sem ég hef haldið fram. Þm. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Taldi n. rétt að bíða með afgreiðslu þáltill.“ Og síðar: „Þótt n. hefði kosið, að hægt hefði verið að geyma afgreiðslu þessa máls“ o. s. frv. Með öðrum orðum, það er viðurkennt, að það var tilgangur n. að geyma málið og afgr. það ekki eins og ég fór fram á. — Í öðru lagi var því slegið fram af hv. þm., að mál þetta væri ekki nógu vel undirbúið. Nú er í nál., sem er samið af hv. þm., ekki aðeins viðurkennt, að málið hafi verið vel undirbúið, heldur er þar líka skýrt frá kostnaðaráætlun, sem vegamálastjóri hefur gert. Að vísu er það rangmæli, því að núverandi hafnarstjóri samdi þá áætlun, en hún er undirskrifuð af honum og vegamálastjóra til samans. Ég vil taka þetta fram, til þess að heiðurinn verði ekki tekinn af þeim manni, sem aðallega á hann skilið í þessu efni. — Í nál. segir, að kostnaður sá, sem þegar er séð fyrir um, sé mjög í samræmi við það, sem áætlað var. — Í öðru lagi viðurkennir n., að málið sé vel komið á veg, þar sem hreppurinn hafi fest kaup á pípum, en það var aðalástæðan fyrir því, að ég krafðist þess, að málið yrði tekið á dagskrá s. l. föstudag, að málið stendur og fellur með því nú, að till.samþ., til þess að hægt sé að senda efnið frá Englandi.

Ég taldi ástæðu til að láta þetta tvennt koma fram, vegna þess að hv. þm. Barð. bar hér fram vissar staðhæfingar, sem hann hefur nú sjálfur hrakið í nál. Að öðru leyti, um efni málsins, þá get ég vel fellt mig við þessa hækkun, í 600000 kr., en vil aðeins taka það fram, að þetta er ekki nauðsynlegt. Þessu máli er vel borgið í bili með 500000 kr. ábyrgð, eins og gert hafði verið ráð fyrir. En ég legg hins vegar ekkert á móti þessari hækkun, tel hana heldur til bóta. En þessi hækkunartillaga er varhugaverð að vissu leyti, af þeim ástæðum, að þá eru stjórnmálaflokkarnir lausir við þau loforð, sem þeir hafa gefið. En eins og ég skýrði frá síðast, liggur fyrir loforð flokkanna um stuðning við ½ millj. kr. ábyrgð, og því mundu þeir lausir við það loforð vegna þeirrar hækkunar, sem hv. fjvn. gerir ráð fyrir. En það er samt von mín, að þingflokkarnir hverfi ekki frá fyrirheiti sínu um stuðning við þetta mál, þó að þessi hækkun yrði gerð á ábyrgðinni, og tel því sjálfsagt að greiða atkv. með þessari brtt. n.