19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég hygg, að það sé einsdæmi í þingsögunni, að þm., sem hefur fengið svo vel afgr. mál sitt fyrir sitt kjördæmi, hafi haldið slíka ræðu, eftir að málið hefur verið afgr. eins og hér er gert, sem hann hefur nú haldið. Því að það virðist aðallega vaka fyrir þessum hv. þm. að reyna að telja mönnum trú um, að ég hafi unnið sviksamlega að þessu máli, því að öll ræða hans snerist um það, en ekki um efni málsins. Ég vil leyfa mér að taka það fram, sem er sannleikurinn í málinu, að n. gat ekki afgr. þetta mál vegna vantandi gagna, sem hv. þm. Snæf. vildi ekki eða gat ekki sjálfur útvegað n. Það er sama, hvað oft hann mótmælir því. Ég varð meðal annars fyrir tilmæli hæstv. forseta að klára þetta mál fyrir ákveðinn tíma og varð að níðast á vegamálastjóra á sunnudegi til þess að fá þessi gögn frá honum, sem hv. þm. Snæf. hefur kannske aldrei lesið. Hann virðist vera andvígur því, að ábyrgðin sé hækkuð upp í nauðsynlega fjárhæð til þess að geta lokið verkinu. Af því að till. kemur frá fjvn., óskar hann helzt eftir því, að hans till. verði nú samþ., um 500000 kr., og væri þá rétt, að það kæmi fram, að hann óski eftir því, að sú till. verði samþ. Það væri í samræmi við þá ræðu, sem hann hélt hér um þetta mál. Hann segir, að ég hafi staðfest það, að ég hafi farið með rangt mál. Öll skjöl sanna, að málið var ekki nægilega undirbúið, og það, að n. afgr. ekki málið fyrr, kom af því, að það var fullt samkomulag milli mín og hv. þm. Snæf. um að geyma málið þar til hann væri búinn að koma fram þeirri löggjöf um vatnsveitur, sem hér hefur verið rætt um. En n. hefði þótt miklu betra, að þetta hefði verið gert, þó að löggjöf hefði ekki verið samþ. á þessu þ., að frv. hefði komið fram, til þess að hún hefði haft það sem leiðarvísi um það, í hverja átt hún ætti að leggja til, að farið yrði um þessa ábyrgð. Þetta kom ekki fram, og það er einungis fyrir skilning n. á málinu, en ekki fyrir tilmæli hv. þm. Snæf., að málið fær svo góða afgreiðslu nú. Það hefur t. d. verið afgr. annað mál hliðstætt hér í dag, um Keflavík, þar sem þm. viðkomandi kjördæmis beitti allt öðrum starfsaðferðum en þessi hv. þm.

Ég vil svo að lokum beina því til hæstv. stj., að það er mjög aðkallandi mál að setja hér löggjöf um vatnsveitur á Íslandi, því að eins og þessi gögn bera með sér, eru margir staðir þannig settir, að algerlega er óviðunandi í þessum efnum, og verður ekki hægt að láta það bíða lengur. Vegamálastjóri leggur á það áherzlu, að sem fyrst verði horfið að því að marka ákveðna stefnu í þessum málum. En það þarf alveg sérstaklega að breyta l. um vatnsskatt, en eftir því, sem tal féll hjá hv. þm. Snæf., skildist mér, að hann færi ekki að ráðast á þá löggjöf samfara því að eiga að búa þessa til, því að hann lét þau orð falla í samtali við mig, að ekki nægði löggjöf um aðstoð við vatnsveitur, heldur þyrfti að breyta löggjöfinni um vatnsskatt. Vill hann sjálfsagt mótmæla Þessu eins og öðru, sem við ræðum. Það er hlægilegt að halda því fram, að það sé rangt hjá mér, að vegamálastjóri hafi gert þessa áætlun. Hann hefur sent mér áætlunina undirskrifaða af sér. Svo heldur hv. þm. Snæf. því fram, að það sé rangt. Hverjir hafa reiknað ú.t tölurnar, veit kannske hv. þm. Snæf., en undirskrift vegamálastjóra er hér og útreikningarnir frá okt. 1944. En þetta sýnir bezt alla málafærslu hans í þessu máli. Ég ætla alveg að láta hann um það, hvort það sé nauðsynlegt að hækka ábyrgðarheimildina, en honum er þá í lófa lagið að óska eftir því, að þm. svo og hans umbjóðendur segi til um það. Í sambandi við það vil ég benda hv. þm. á, að atvinnutækin í Stykkishólmi hafa aukizt það mikið síðan málið var tekið upp, að í staðinn fyrir 100 tonna geymi þarf a. m. k. 400 tonna geymi til þess að geta látið í té nægilegt vatn til þessara fyrirtækja, sem hv. þm. Snæf. veit ekki um, að til séu í Stykkishólmi, t. d. frystihús og útgerðarverzlun, sem n. fannst, að taka þyrfti til athugunar þegar málið væri afgr. Ég ætla ekki að deila meira um þetta mál. Það er sjáanlegt, að hv. þm. Snæf. gerði sér sem mest far um að svívirða fjvn. og mig persónulega, en ég ætla ekki að deila um þau atriði hér.