19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Það er rétt hjá hv. 6. landsk. þm., að það mun hafa verið unnið að undirbúningi þessa máls í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Og það hefur legið fyrir í ráðuneytinu uppkast að frv. um þetta efni, þegar núv. ríkisstjórn tók sæti. Ég hygg, að þetta frv. hafi verið sent hæstarétti og óskað eftir umsögn hæstaréttardómara um viss atriði í frv., og mun hafa legið fyrir álit þeirra um, að viss atriði í frv. muni ganga í bága við núverandi stjórnarskrá. Af þeim ástæðum hefur ríkisstj. ekki lagt frv. þetta fyrir hæstv. Alþ. — Nú hef ég nokkuð látið athuga frv. til að freista þess að gera breyt. á því, svo að það fari ekki í bága við stjskr., en þá er nokkur vafi á því, hvort frv. nær tilgangi sínum. Ég hef einnig látið athuga, hvort frv., ef að l. yrði, gæti náð til jarðeigna sveitaþorpa, þar sem ríkið þegar hefur hafið framkvæmdir, og álit skipulagsstjóra í bréfi, sem ég nýlega hef fengið frá honum því viðvíkjandi, er á þá leið, að frv. mundi ekki ná tilgangi sínum viðvíkjandi þeim jarðeignum. Sennilegt er, að ákvæðið í frv. frá þessari milliþn. um það, að ekki megi meta til eignarnáms jarðeignir hærra verði en eftir fasteignamati næst á undan, geti ekki staðizt eftir stjskr. Og verður því að láta athuga, hvort ekki er hægt að láta koma þessu fyrir á annan hátt, svo sem með því, að settur verði verðhækkunarskattur á lóðir.

Ég hef haft þetta mál til nokkurrar athugunar og tek sennilega ákvörðun um það innan mjög fárra daga, að hve miklu leyti hægt er að nota það frv., sem ég minntist á, og hvort hægt er að breyta því þannig, að það gæti náð tilgangi sínum að samþ. það á hæstv. Alþ.