17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (3907)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm., (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Ég skal hafa orð mín fá um þetta mál. Ég vil taka það fram, að ég hafði kvatt mér hljóðs fyrr sem frsm., en aðrir hv. þdm. hafa farið fram úr þeim rétti. — Sjútvn. hefur haft þetta mál nokkuð lengi og ástæðan fyrir því, að þetta hefur dregizt, er sú, að n. hefur haft með höndum almenn hafnarlög, og hefur svo farið, að frv. um landshöfn á Þórshöfn og þetta frv. voru látin bíða, þar til n. sæi afdrif hafnarlagafrv. Ég skal bæta því við, að ástæðan til þess að n. tók fyrir frv. um landshöfn í Höfn í Hornafirði, er sú, að það er svo brýn nauðsyn, að aðrir staðir jafnast ekki þar við að því leyti. Frá því í fyrra er helmingi meiri floti á vetrarvertíð en áður, og horfur eru á því, að allur bátaflotinn dragist hingað, ef dregst með þessar framkvæmdir.

Í tilefni af því, að hv. 1. þm. Árn. hefur lagt til að inn í hina rökst. dagskrá komi Þorlákshöfn, skal ég taka það fram, að ég tel sjálfsagt að bæta þeim stað við, því að rannsókn er þar nauðsynleg. Ég skal svo ekki tefja umr., en vænti þess, að málið fái sæmilega afgreiðslu og að góður árangur verði af þessu hið fyrsta.