17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3911)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Sveinbjörn Högnason:

Mig undrar það stórlega, að þeir þm., sem eiga sæti í sjútvn., skuli leyfa sér að bera það á borð, að ekki hafi einu sinni verið farið fram á rannsókn á lendingarbótum við Dyrhólaey. Það er ekki langt síðan hæstv. samgmrh. gat um það, að. vitamálastjórnin hefði látið framkvæma rannsókn í Vík og í Dyrhólaey og hefði orðið sammála um það, að ekki væri hægt að gera þar lendingarbætur nema þá með mjög miklum kostnaði, en hins vegar væru möguleikar á að gera þar höfn. Mig undrar því stórlega, að þm., sem sæti eiga í sjútvn., annar form., skuli leyfa sér að viðhafa þau ummæli, sem þeir hafa nú gert. Hvar hafa þessir hv. þm. verið, þegar rætt hefur verið um þessi mál? Eða loka þeir augunum fyrir öllu nema því, sem viðkemur þeirra kjördæmum? Mig skyldi ekki undra, þótt eitthvað vantaði inn í þessa till., þegar hún verður afgr. Þá þykir mér það undarlegt, þegar hv. 7. þm. Reykv. segir, að aðeins einn maður af stjórnarliðinu hafi talað. Kannske telur hann ekki einu sinni hæstv. samgmrh. hlutgengan, — eða er hann ekki stjórnarliði? Kannske hann verði með okkur í vantraustinu? Eða er hv. 6. landsk. þm. genginn úr stjórnarliðinu, eða kannske hv. 7. þm. Reykv. ?