15.11.1945
Sameinað þing: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3916)

86. mál, fiskirannsóknir og fiskirækt í Hamarsfirði

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Ég hef leyft mér að flytja till. á þskj. 133, um að skora á ríkisstj. að láta gera ýtarlegar fiskirannsóknir í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Tildrög þessa máls eru þau, að á síðastliðnu hausti kom í ljós, að þarna er sérstaklega auðug uppeldisstöð fyrir flatfiska. Veiðimenn urðu þess varir, að þarna er ógrynni af ungum flatfiski, og munu þess engin dæmi hér, að jafnmikil veiði hafi fengizt í einum drætti í dragnót og þar fékkst í haust. En meiri hlutinn var svo smár, að óheimilt var að hirða veiðina. Óskir hafa því komið fram um, að fjörðurinn yrði friðaður fyrir öllum botnsköfuveiðum, og hefur Alþ. það, er nú situr, gert samþykkt í tilefni af því. Það virðist því vera ástæða til þess, að fiskifræðingar okkar rannsaki sérstaklega slíkar uppeldisstöðvar sem þessa og hvaða gildi þetta hefði. Og margt bendir til þess, að Hamarsfjörður sé heppilegur til slíkra rannsókna. Hann er að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum fjörðum, og má svo heita, að sandrif og grynningar loki firðinum að mestu, og komast bátar varla inn í hann, nema á flóði. Þó er fjörðurinn sjálfur alldjúpur og talsvert stór, þegar inn er komið. Þessi till. miðar því að því, að þarna fari fram fiskifræðilegar rannsóknir, og álít ég miklar líkur til, að slíkar rannsóknir mundu leiða til mikilvægra upplýsinga um uppeldi flatfiska og verða mikilvægar fyrir fiskimenn.

Ég legg svo til, að málið gangi til fjvn.