15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3918)

86. mál, fiskirannsóknir og fiskirækt í Hamarsfirði

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 133, er farið fram á, að það verði látin fara fram ýtarleg fiskirannsókn í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu, með sérstöku tilliti til þess, að það verði komið upp fiskirækt þar í firðinum, ef skilyrði reynast vera góð, og að rannsókn þessi verði gerð af Atvinnudeild háskólans og kostuð af ríkissjóði. Fjvn. hefur leitað umsagnar Árna Friðrikssonar fiskifræðings um þetta mál og hefur birt umsögn hans hér með nál. sem fylgiskjal. Árni Friðriksson mælir með því, að þessi fiskirannsókn verði framkvæmd þarna, og telur fiskideild Atvinnudeildar háskólans vera reiðubúna til þess að leggja fram sína starfskrafta til þeirra hluta, en telur, að til viðbótar þurfi að koma fjárframlag til þess að standa straum af öllum kostnaðinum við fiskirannsóknirnar, svo sem leigu á bátum, flutningi og slíku. Fjvn.menn hafa yfirleitt verið meðmæltir því, að þessi rannsókn yrði látin fara fram, en hins vegar hafa flestir þeirra haldið því fram, að ástæðulaust væri að veita sérstaka fjárveitingu úr ríkissjóði til þessara hluta, heldur bæri fiskimálasjóði að standa straum af þessum rannsóknum, að því leyti sem það væri ekki á kostnað atvinnudeildarinnar sjálfrar. Ég skal taka það fram, að ég og hv. 2. landsk. þm. vildum, að þáltill. yrði samþ. óbreytt, eins og hún er á þskj. 133. Hins vegar gerðum við það til samkomulags að fallast á brtt. á þskj. 547, og hafa þá allir nm. fallizt á þá brtt., sem n. flytur á þskj. 547, þannig að í stað þess, að gert var ráð fyrir, að veitt væri til þessa fé úr ríkissjóði, þá verði rannsóknin kostuð af fiskimálasjóði. Hins vegar hefur n. borizt vitneskja um það, að fiskimálasjóður væri nú fyrst um sinn búinn að ráðstafa því fé, sem hann hefur til umráða, til annarra verkefna. Þess vegna gæti orðið hætta á því, að þessi rannsókn mundi dragast af þeim orsökum, ef fiskimálasjóður ætti að kosta hana. N. hefur því tekið það fram í nál. sínu, að hún mæli með því, að þessi rannsókn verði til bráðabirgða kostuð af ríkissjóði, til þess að ekki þurfi að verða dráttur á, að þessi rannsókn verði framkvæmd, en flytur þó þá brtt., sem ég nú hef lýst, að í stað orðsins „ríkissjóði“ í niðurlagi þáltill. komi: fiskimálasjóði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál að öðru leyti.