12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3939)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Eins og tekið er fram í grg. þessarar till., er hún fram komin vegna þess, að hæstv. dómsmrh. hefur ekki talið sér fært án viljayfirlýsingar Alþ. að veita nokkrum Þjóðverjum, sem hér höfðu dvalið fyrir 1939, landsvistarleyfi. Það stendur nú svo á um þessa menn, að þeir voru fluttir burt af Bretum, en er nú sleppt. Þessir menn eiga hér konur og börn, sem eru illa stödd og komast á vonarvöl, ef mönnum þessum verður ekki veitt hér landsvistarleyfi. En að sjálfsögðu er hér bara átt við þá menn, sem hafa ekki orðið uppvísir að því að reka hér erindi erlendra þjóða, sem hættuleg eru hagsmunum Íslendinga. Þetta er mannúðarmál, og tel ég sjálfsagt, að Alþ. gefi þá yfirlýsingu, svo að þessir menn fái landsvist.

Ég óska svo eftir, að hraðað verði afgreiðslu þessa máls, því að vitað er, að þessir menn verða fluttir til Þýzkalands, og veldur það miklum erfiðleikum, ef svo verður.