12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3942)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég tel mér skylt að veita þær upplýsingar um starfsemi Þjóðverja hér fyrir stríð, sem fyrir hendi eru. Það, sem ríkisstj. hefur borizt fyrst og fremst, er um njósnamálin. Það er kunnugt, að Þjóðverjar reyndu að fá Íslendinga til þess að reka njósnir hér. Sá, sem stóð fyrir þessu, var dr. Lotz, sem stundaði hér refarækt, en með nokkuð einkennilegum hætti, og hafði hann hana bara að yfirskini. En ég tel ekki rétt að fara út í þetta nánar. Sumir Íslendingar segja, að þeir hafi orðið að gefa vilyrði til þess að fá að fara heim, en þeir eru nú fyrir dómi. Aðrar upplýsingar, frá árunum 1939 og '40, eru frá Sveini Björnssyni, tilkynning um, að hér væri rekin víðtæk starfsemi af Þjóðverjum. Og mér er nær að halda, að hv. þm. Str. hafi ekki gert opinbert um þessa tilkynningu. Í bréfi frá 2. marz 1939 og í viðtali, sem sendiherrann átti við dönsku leynilögregluna, er sagt, að í Danmörku hafi verið rekin víðtæk starfsemi, og línurit sýndi, að þræðirnir lágu til danska flotamálaráðuneytisins. Þeir, sem höfðu tekið að sér þessar njósnir, höfðu gert það fyrir hótanir frá nazistum í Berlín. — Ég sé ekki ástæðu til að lesa þessi bréf. Þó að þau líkist glæparóman, er þetta allt bláköld alvara. — Sendiherrann lætur þess getið, að þræðir þessara njósna liggi til Íslands, og danska leynilögreglan sé reiðubúin til samstarfs við íslenzku lögregluna til þess að grafast fyrir þessa þræði. Loks stingur sendiherrann upp á því, að til Danmerkur verði sendur ungur íslenzkur lögfræðingur til þess að afla upplýsinga í þessu máli. Hann segir, að yfirlögreglustjórinn í Danmörku hafi fallizt á þessa ráðstöfun, og hann mundi fús að taka á móti slíkum manni. En að sjálfsögðu verði þetta að vera sérstakur hæfileikamaður, sem njóti fyllsta trausts ríkisstj., og auk þess svo vel launaður, að Þjóðverjar geti ekki freistað hans með mútum.

Ég hef ekki fundið neitt, sem bendir á, að þessu bréfi hafi verið svarað, enda skrifað sem einkabréf, en með þeim tilgangi augsýnilega að flytja þjóðinni þessar fréttir með því að senda þær forsætis- og dómsmálaráðherra. En það er hvergi sjáanlegt, að aðrir hafi fengið að vita um þetta en dómsmrh. — Ekki sést, að farið hafi verið eftir ráðleggingu sendiherrans í einu eða neinu.

Í næsta bréfi frá sendiherra, sem ritað er 10. marz, er sagt frá njósnum í hernaðar- og pólitísku augnamiði og einnig njósnum um flóttamenn. Algengt er að senda menn til Danmerkur og draga þá síðan inn í njósnakerfið, sem mest starfar í hópum. — Í einu bréfinu er sagt frá handtöku Hartungs.

Yfirmaður leynilögreglunnar dönsku upplýsir, að meira muni um slíkar njósnir á Íslandi en menn hafi almennt hugmynd um. Það er sömuleiðis gefið í skyn, að benzínbirgðir séu geymdar hér fyrir þýzka kafbáta, annaðhvort sökkt niður í sjó í fjörðunum eða grafið í jörðu. Ég veit ekki til, að slíkt hafi komizt upp, en snemma í stríðinu höfðust kafbátar mikið við á Arnarfirði vestra. Mér er ekki kunnugt um, að þáv. forsrh. hafi á nokkurn hátt látið rannsaka þetta eða gefið aðvörun í þessu sambandi, enda þótt þetta væri stórhættulegt fyrir öryggi landsins. — Í þessu sama bréfi, 10. marz 1939, er lögð áherzla á yfirlýsingu leynilögreglunnar dönsku, að meira muni hér um njósnir en menn hafi hugmynd um, og er þess vegna talið mjög æskilegt, að íslenzkur maður komi til Danmerkur að kynna sér þessi mál, en skemmri dvalartími en 3 mánuðir verði árangurslaus, þar sem þetta sé svo víðtækt mál.

Þriðja bréf, sama efnis, er dagsett 28. marz 1939. Skýrir sendiherra Íslands þar frá því, að hann hafi séð eina möppu í máli Pflugk-Hartungs merkta Ísland, en flest bréfin hafi verið ómerkileg, svo að hann hafi ekki séð ástæðu til þess að taka neitt þeirra til sérstakrar íhugunar.

Í fjórða bréfi frá sendiherra, 24. jan. 1940, skýrir yfirmaður leynilögreglunnar dönsku frá því, eftir heimildum, sem hann segist ekki geta tilgreint, að fregnir um ferðir skipa Bandamanna berist frá leynilegri stöð einhvers staðar í Danmörku til þýzka ræðismannsins í Reykjavík og þaðan til Þýzkalands. Óskaði lögreglustjórinn, að þetta yrði athugað, og bauð enn aðstoð dönsku öryggislögreglunnar, og hann benti á, að Danir gætu lesið dulmál, sem Íslendingar hefðu ef til vill ekki aðstöðu til að lesa. Í þessu sambandi minnist sendiherrann á, að líklegt megi telja, að slíkar fregnir hafi valdið því, að Royalpindi var sökkt. Ekki er mér kunnugt um, að þessar upplýsingar hafi verið notaðar eða ráðstafanir gerðar þeirra vegna. Ég hef getið þessara skýrslna í sambandi við landsvistarleyfi fyrir þessa Þjóðverja, vegna þess að þær sýna, hvernig starfselni Þjóðverja var háttað hér á landi fyrir styrjöldina.

Í sumar fór ríkisstj. þess á leit við herstjórn Breta og Bandaríkjamanna að fá til afnota skjöl þau, sem tekin voru hér í þýzka sendiráðinu. Loks fékkst skýrsla um Þjóðverjana, sem hér voru búsettir fyrir stríð. Kom þar í ljós, að með örfáum undantekningum voru þeir meðlimir í Deutsche Arbeitsfront eða nazistaflokknum þýzka. Hins vegar neituðu Bretar og Bandaríkjamenn, að nokkur skjöl væru til varðandi þýzka sendiráðið hér, þar til nú fyrir nokkrum dögum, að yfirlitsskýrsla úr því fannst í þýzka ræðismannsbústaðnum. Þar sést, að Gerlach aðalræðismaður er sendur hingað í alveg sérstökum erindagerðum. Í skjölum þessum var bréf frá Gerlach til Himmlers, þar sem tekið er fram, að hann fari hingað ekki sem venjulegur konsúll, heldur til þess að reka erindi nazistaflokksins hér á landi. Þýzka utanríkisráðuneytið hafði tekið Gerlach illa, og hótar hann því að fara beint í Ribbentrop, ef hann fái ekki fyllstu aðstoð í starfi sínu eða fara sem sérstakur sendimaður nazistaflokksins til Íslands. Af skjölunum er ljóst, að erindi Gerlachs var útbreiðsla. nazismans hér á landi með því að ná sambandi við alla Þjóðverja hér á landi, með viðureign við ríkisstj. og með því að skipuleggja fimmtu herdeild hér á landi. Þessi viðureign var í því fólgin, að í hvert skipti, sem sagt var frá grimmdarverkum nazista, fór Gerlach til forsrh., Hermanns Jónassonar. Forsrh. setti stundum ofan í við útvarp og blöð, en mestum árangri mun Gerlach hafa náð, er bannað var að sýna kvikmyndir með andnazistisku efni, og bók Langhoffs um fangabúðirnar þýzku, „Die Moorsoldaten“, var bönnuð. Í skjölum þessum má sjá, að Gerlach hefur ekki fengið alls staðar þær móttökur, er hann vænti. Lætur hann óspart í ljós fyrirlitningu sína á Íslendingum og hvetur þýzk stjórnarvöld til að þjarma að Íslendingum í viðskiptasamningum og á annan hátt fyrir andúð þeirra gegn nazistum. Þá munu Þjóðverjar hafa haft njósnara hér við höfnina og sent fregnir um ferðir skipa í byrjun stríðsins.

Mér er ekki kunnugt, hvaða reglur gilda í Deutsche Arbeitsfront, en telja má víst, að ef til innrásar hefði komið hér, á sama hátt og í Danmörku og Noregi, hefðu Þjóðverjar hér, undir stjórn Gerlachs, verið stórhættulegir fyrir öryggi landsins. Með hliðsjón af því tel ég óvarlegt að veita þeim landsvistarleyfi á ný. Nú verð ég að segja, að mér er erfitt að neita um þessi landsvistarleyfi frá mannúðarlegu sjónarmiði. Margir segja, að þegar stríðið er búið, eigi að láta sakir niður falla og geymt verða gleymt. Það er nærri mér að samþykkja þetta, en mér finnst það ekki, með þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru.

Það hefur verið talað um það, að aðstandendur, þessara manna muni líða skort, en þeir eiga rétt á því, að íslenzka ríkið sjái þeim farborða. Meðan á stríðinu stóð, fengu þeir styrk af þýzku innstæðunum hér. Bretar hafa nú tekið þessar innstæður, en þessir aðilar hafa rétt til þess að snúa sér til síns sveitarfélags. Nú hef ég talið rétt að láta rannsaka mál þessara manna sérstaklega, en sú rannsókn hefur gengið vonum seinna vegna þess, hvað erfitt er að fá ýmis skjöl varðandi þessi mál. En ég álít slíka rannsókn nauðsyn fyrir framtíðina. Það hlýtur alltaf að vera varhugavert að hafa hóp manna í landinu, sem er undir lögum annars lands, og sömuleiðis hlýtur að vera hættulegt að hafa þá menn búsetta í landinu, sem eru félagar í flokkum, sem boða öfgar og ofbeldi eins og nazistar. Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta að svo stöddu, en það virðist augljóst, að ekki er heppilegt að hafa hér menn, sem telja sig skuldbundna að bera vopn á íslenzka þjóð. Ég skal ekkert um það fullyrða, hverjir þessara manna hafa verið fúsir til slíkra verka, en ég tel líklegt, að ef til hefði komið, þá hefðu ekki allir skorizt úr leik.

Ég ímynda mér, að ýmsir, sem skrifað hafa undir þessa till., geti sætt sig við, að málið fari til n. til frekari athugunar.