12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3970)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég verð að mótmæla þeirri stafhæfingu hv. þm. N.Ísf., að ekki hafi verið rekið á eftir þessu máli af stj. Strax í vetur fékk ríkisstj. bráðabirgðaskýrslu hjá herstjórninni um hvern einstakling. Þessi skýrsla þótti ekki nógu nákvæm, og var þá spurt um, hvort ekki væru til réttarhöld yfir þessum mönnum. Eftir langan tíma kom það svar, að engin slík réttarhöld hefðu farið fram. Síðan hefur verið spurzt fyrir um þetta í Danmörku, en þar virðast ekki vera fyrir hendi nein skjöl um þessa menn.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi réttara að hraða rannsókn þessa máls en láta saklausa gjalda hinna seku. Þetta er ekkert annað en hringavitleysa. Þessir menn eiga engan rétt. Spursmálið er, hvort eigi að veita þeim þennan rétt. Hitt er annað mál, hvort rétt væri að setja lög um, að erlendir menn fengju íslenzkan ríkisborgararétt við að giftast íslenzkum konum. En við eigum enga öryggisþjónustu og höfum engar ástæður til að koma slíkri stofnun á fót. Það er þessvegna hættulegt fyrir okkur að veita erlendum mönnum landsvistarleyfi. Það er ekki rétt að gefa landsvistarleyfi um óákveðinn tíma til manna, sem hafa ekki ríkisborgararétt.

Ég held, að bæði hv. þm. Str. og hv. þm. N.-Ísf. hafi komizt þannig að orði, að það sé ekki farið fram á í till. að leyfa landsvist öðrum en þeim, sem eru saklausir. Saklausir af hverju? Hv. þm. Str. gat ekki um það, en hv. þm. N.-Ísf. sagði „saklausir af að hafa unnið á móti hagsmunum landsins, eða hafa brotið af sér við íslenzka ríkið.“ Ég veit ekki, hvort nokkur þessara manna hefur brotið nokkuð af sér við íslenzka ríkið. Annað mál er það, að þessir menn hafa undantekningarlaust verið meðlimir í félagsskap þýzka ríkisins hér á landi, þar sem þeir hafa svarið hollustueiða. (GSv: Hæstv. ráðh. fer hér út í veður og vind). Ég hef í höndum skrá frá Gerlach, svo að það er hæpið að koma og segja, að ég vaði hér reyk. (GSv: Ég heyri, hvernig hæstv. ráðh. talar). Hv. þm. ætti þá að skilja það, sem ég segi. Nei, það verður kannske aldrei hægt að sanna, hverjir hafi viljað taka þátt í því að bera vopn gegn íslenzka ríkinu. Þess vegna er till. hæpin, af því það verður kannske aldrei hægt að vita, hverjir eru saklausir og hverjir sekir. Ef hv. þm. vildu koma með nöfn mannanna, sem þeir vilja fá leyfi fyrir, taka á sig ábyrgðina á því, þá lítur málið öðruvísi út.

Það er einkennileg röksemd að halda því fram að mennirnir hafi ekki látið knýja sig inn í nazistafélagsskapinn þýzka, heldur flúið þaðan, og það eftir að nazistar náðu völdum, komið síðan hingað til Íslands, þar sem þeir voru frjálsir ferða sinna, þar sem Þjóðverjar gátu alls ekki beitt þá neinu ofbeldi, en einmitt þar hafi þeir verið knúðir inn í félagsskapinn. Ég hafði haldið, að þýzku nazistarnir hefðu staðið miklu betur að vígi að sýna mönnum ofbeldi í Þýzkalandi en hér á landi, þar sem þeir voru búsettir hingað og þangað úti um þær dreifðu byggðir. Þeir höfðu engin ráð á að flytja þessa menn heim, engin ráð á að setja þá í fangelsi. Mennirnir unnu fyrir sér hér á landi. Þess vegna var náttúrlega miklu auðveldara fyrir mennina að halda sér utan við allan slíkan félagsskap hér á landi en í Þýzkalandi.

Ég skal ekki segja, hvað hefst upp úr því, ef ríkisstj. fær loks þau skjöl, sem gengið hefur verið eftir hjá brezku og amerísku ríkisstj. Ég veit þó, að þar eru ýmis gögn, sem sanna það, sem ég hef verið að segja. En það getur vel verið, að það þurfi að leita alla leið til Nürnberg til að fá fullar upplýsingar. Ég sá fyrir nokkru getið um, að fyrirhuguð hefði verið innrás í Ísland. Þá getur verið, að þar séu skjöl varðandi Ísland eins og tugi annarra landa.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að segja fleira um þetta að sinni, en ég vil spyrja hv. þm. Str., hvort hann hafi fengið einkaskýrslu hjá lögreglustjóranum um för hans eða opinbera skýrslu. Ég hef ekki getað fundið hana í dómsmálaráðuneytinu, en ef hún hefur verið opinber, þá á hún að vera þar. Mér þætti vænt um, ef hann gæti vísað mér á, hvar þessi skýrsla er, m. a. vegna þess, að það kemur ekki fram af bréfi sendiherrans, sem er dagsett 24. jan. 1940, að lögreglustjórinn hafi verið í Kaupmannahöfn í þessum erindum, sem hv. þm. Str. gat um. (HermJ: Efast hæstv. ráðh. um, að ég segi það satt?). Ég er ekki að bera brigður á þetta, en vil aðeins spyrja um, hvar skýrslan mundi vera niður komin, m. a. vegna þess, að fyrrv. hæstv. utanrrh. hefur ekki getað munað um það, að hann hafi séð neitt þessu viðvíkjandi, þegar ég minntist á það við hann fyrir nokkrum dögum. Hins vegar minnist ég þess, að hv. þm. Str. vakti máls á þessum skjölum á utanríkismálanefndarfundi, sem var haldinn einhvern tíma í sumar eða haust.