13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3973)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, er það að segja, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er frekari athugun í þessu efni nauðsynleg, áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Það þarf að athuga starfsemi Þjóðverja hér á landi mjög vandlega, bæði hvað þeir höfðust hér að fyrir stríð og eins það, sem hér fór fram meðan á stríðinu stóð. Hv. flm. halda því fram, að það sé af mannúðarástæðum rétt að veita þessum þýzku mönnum landsvistarleyfi hér, og það virðist svo, að í ræðum þeim, sem hér hafa verið fluttar, hafi því verið haldið fram, að mannúðarleysi hæstv. ríkisstj. sé um að kenna, að hún hefur ekki þegar veitt þetta leyfi. Ég held, að því fari mjög fjarri, að slíku sé til að dreifa. Það er vitað, að hæstv. ríkisstj. hefur séð vel um konur og börn þessara þýzku manna, en þau dvelja nú hér. Því hefur verið lýst yfir og sýnt í verki, að konur þessar og börn hafa nóg að bíta og brenna og njóta sömu réttinda og íslenzkir borgarar.

Í öðru lagi hefur hæstv. ríkisstj. sýnt hug sinn gagnvart íslenzku fólki erlendis, sem hefur verið hjálparþurfi. Það var gerður út leiðangur til þess að koma þeim, sem af íslenzku bergi eru brotnir og dvaldizt hafa í Þýzkalandi á stríðsárunum, hingað heim eða hjálpa þeim á annan hátt. Íslenzka ríkisstj. hefur því innt af hendi mikið verk vegna þessa fólks, og ég tel rétt, að hún stuðli að því, að konur og börn þeirra manna, sem hér um ræðir, fái stuðning frá því opinbera sér til framdráttar, eins og hingað til. Það er dálítið undarlegt, að það skuli vera talað um, að þetta fólk svelti. Það lætur undarlega í eyrum og hlýtur að vera sagt án þess að hugsað sé út í, hvað sagt er. Það er þvert á móti verið að bjarga þessu fólki frá svelti, sem það hefði orðið að þola, ef það hefði verið í sínu eigin föðurlandi. Þetta er nokkuð gálauslega talað um jafnalvarlegan hlut og hungursneyð er. Það er að minnsta kosti einkennilegt tal einmitt nú, þegar verið er að bjarga þessu fólki frá að svelta, og er þá ekki rétt að halda því fram, að um mannúðarleysi sé að ræða hjá hæstv. ríkisstj., eftir það, sem hún er búin að gera fyrir þetta fólk. Það er að minnsta kosti mitt álit, en ég hef átt kost á að kynnast nokkuð ástandinu á meginlandinu og get því hugsað mér, hvernig ástatt hefði verið fyrir þessu fólki, ef það hefði verið í Þýzkalandi nú. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar sýnt afstöðu sína til þessa fólks með því, sem hún hefur gert fyrir það, og held, að þessum mönnum, sem nú sitja úti í Englandi, væri nær að þakka fyrir að vita af konum sínum og börnum hér heima en að stuðla að því, að allur sá áróður, sem nú á sér stað vegna þessa máls, var settur af stað hér í bænum. Hugsunarháttur þessara erlendu manna er sannarlega einkennilegur, þar sem þeir hins vegar hefðu átt að renna huganum til þeirra kjara, sem konur þeirra og börn hefðu sætt, ef þau hefðu verið úti í Þýzkalandi nú í stað þess að vera hér heima og hafa nóg að bíta og brenna.

Hvað snertir þessa menn að öðru leyti, þá kusu þeir, að líklega einum undanskildum, að fara til Þýzkalands, þegar þeir áttu um að velja að fara frá Englandi eða vera þar áfram. Þeir hafa því tekið Þýzkaland fram yfir Ísland, að minnsta kosti meðan þeir héldu, að Þjóðverjar mundu sigra í styrjöldinni. Þeir kusu þetta meðan þeir bjuggust við að geta orðið das Herrenvolk. Þessir menn höfðu betri aðstöðu til að velja en þeir, sem dvalizt hafa í Þýzkalandi á stríðsárunum. Þeir hafa getað lesið það, sem sagt hefur verið um Þýzkaland, og myndað sér sjálfstæðar skoðanir á þeim málum. Þeir völdu Þýzkaland, meðan þeir héldu, að það mundi sigra. Þeir hafa nú verið árum saman í haldi og hafa ekki hið minnsta viljað slaka á sinni sannfæringu gagnvart Þýzkalandi, heldur haldið fast við sína skoðun. Það er því engin ástæða til þess að reyna að skapa sérstaka samúð með þessum mönnum. Þeir eru sannarlega ekki of góðir til þess að hjálpa til að byggja það Þýzkaland upp aftur, sem nazistarnir steyptu í rúst. Hins vegar er sjálfsagt að láta konur þeirra og börn ekki skorta lífsnauðsynjar. Þessir menn eiga skilið að hjálpa til við endurreisn Þýzkalands, og ég sé enga ástæðu til að verða við óskum þeirra um að verða fluttir hingað heim. Þeim ætti að nægja að vita, að fjölskyldum þeirra líður vel hér.

Það er varla hætta á, að illa verði farið með þessa menn, sem nú verða fluttir til Þýzkalands. Þeir eru ekki illa undir það búnir, þótt þeir hafi verið í haldi undanfarin ár. Þeir hafa fengið næstum nægan mat, og það þarf ekki að óttast, að farið verði með þá eins og Þjóðverjar fóru með þá, sem þeir náðu í. Þeir þurfa hvorki að óttast Belsen- né Buchenwald-meðferð, þótt þeir verði fluttir til Þýzkalands. Það er bezt, að þeir hljóti það, sem þeir hafa valið. Ég sé enga ástæðu til þess, að á annan hátt verði að þeim búið af hendi okkar Íslendinga.

Hver var afstaða þessara manna til Íslands og Íslendinga, meðan þeir voru hér á landi? Það voru þeir, sem stjórnuðu njósnarstarfseminni fyrir þýzku leynilögregluna hér á landi. Ég veit ekki, hvar annars staðar í veröldinni en hér gæti verið farið fram á annað eins og það að flytja slfka menn hingað aftur. Hæstv. dómsmrh. hefur sagt frá nokkrum skýrslum, sem ísl. ríkisstj. bárust frá Danmörku fyrir stríð, meðan þessir menn og fleiri slíkir störfuðu hér. Ég sé nú ekki betur en að þessar skýrslur gefi okkur tilefni til að taka mál þetta enn fastari tökum og leiða það ekki til lykta fyrr en fyrir liggja fullkomnar upplýsingar um þá starfsemi, sem skýrslurnar fjalla um. Í þeim er skýrt frá njósnarstarfsemi, sem líklegt þykir, að hafi miðstöð sína í Kaupmannahöfn og frá henni liggja svo þræðir hingað til lands. Ég álít þær skýrslur, sem þegar hefur verið lesið úr hér, vel þess virði, að þær séu teknar til athugunar, áður en ákvarðanir eru teknar um þessa þáltill. Það ætti ekki að fara að ræða hana, fyrr en upplýsingar þær, sem gefnar eru í skýrslunum, hafa verið rannsakaðar ýtarlega.

Hæstv. dómsmrh. skýrði frá því, að þáv. forsrh., hv. þm. Str., hefði ekki séð ástæðu til þess að skýra meðráðherrum sínum frá þessum skýrslum, en Alþ. á eftir að heyra það frá þeim, hvað rétt sé í þessu efni. Það kom og fram í upplýsingum hæstv. dómsmrh., að oftar en einu sinni hefði verið farið fram á, að sendur yrði maður utan til þess að kynna sér þetta mál í Danmörku. Hann átti að fá að hafa samband við lögregluna dönsku, sem með þetta mál hafði að gera. Þáv. ráðh., hv. þm. Str., sendi núverandi lögreglustjóra utan þessara erinda. Ég held nú, að rétt væri, að þm. gæfist kostur á að sjá skipunarbréf hans og skýrslu þá, sem hann væntanlega hefur gefið, þegar hann kom heim úr utanförinni. Það væri fróðlegt að fá að heyra, hvernig farið hefur verið út í að rannsaka þessa njósnastarfsemi. Ég held, að Alþ. hljóti að vilja fá þessar upplýsingar, áður en farið verður að ræða þáltill. þá, sem hér liggur fyrir. Þá. fyrst, þegar þingheimi hefur verið birt skýrsla um málið í heild, er hægt að fara að ræða um þessa þáltill. og taka til athugunar, hvaða afstöðu beri að. taka gagnvart henni.

Almennt séð býst ég við, að Íslendingar séu heldur hlynntir því, að Ísland geti verið griðland þeim, sem hvergi eiga höfði sínu að að halla. En sú skoðun á ekki við í þessu tilfelli, nema að því er konur og börn þessara þýzku manna snertir. Það mun almennt álitið, að rétt sé, að þeim sé rétt hjálparhönd, eins og gert hefur verið. Hins vegar verður að segja, að það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. þm. Str. sækir fast að fá landsvistarleyfi fyrir þessa þýzku karlmenn. Það virðist vera önnur afstaða hans nú en þegar hann hafði sjálfur vald til að veita mönnum landsvistarleyfi. Svo að eitt dæmi sé nefnt, skal það rakið lauslega, hverjar undirtektir hans voru fyrir nokkrum árum, á valdadögum hans, þegar sótt var um leyfi til að taka nokkur austurrísk Gyðingabörn hingað til lands. Tilgangurinn var sá að bjarga þessum börnum úr klóm þýzku nazistanna. Katrín Thoroddsen læknir hafði ætlað að taka austurrískt Gyðingabarn af nauðstaddri móður þess, og skýrir hún frá, hvernig fór um leyfi það, sem hún sótti um til þess að mega taka barn þetta til fósturs. Greinargerð hennar er í Þjóðviljanum 28. apríl 1939. Farast henni þar meðal annars orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Laust fyrir miðjan desember síðastliðinn bað austurrísk kona mig um að taka af sér þriggja ára gamla dóttur sína um óákveðinn tíma. Kona þessi er af Gyðingaættum og maður hennar er einnig Gyðingur. Annars er það af honum að segja, að hann er starfsmaður við gasstöð í Vínarborg, afskiptalítill meinleysismaður, sem aldrei hafði tekið neinn þátt í stjórnmálum. En þegar Hitler komst til valda í Austurríki, var honum ásamt óteljandi fleirum Gyðingum kastað í fangabúðir, og síðan hefur ekkert til hans spurzt. En nú hafði konan fengið tilkynningu um það, að hún mundi einnig verða sett í fangabúðir þann 15. jan., ef hún þá væri enn innan landamæra hins þriðja ríkis. Jafnframt var henni þó neitað um vegabréf, svo að engrar undankomu var auðið. Hjón þessi áttu eina dóttur barna, þriggja ára gamla, og móðurinni hefur líklega þótt vænt um hana, eins og mæðrum þykir stundum vænt um afkvæmi sín. Hún sneri sér því til mín, gegnum millilið þó, og bað mig um að taka barnið, þar til útséð yrði um afdrif hennar sjálfrar, en í annað hús var ekki að venda, þar eð ættingjar hennar voru allir í sömu vandræðum og hún. En á hinn bóginn var ógerningur að koma börnum fyrir hjá arískum vinum og kunningjum, því að hinum aríska kynflokk er stranglega forboðið nokkurt samneyti við Gyðinga eða Gyðingabörn. Slíkt eru talin landráð þar syðra. — Ég vildi gjarnan taka barnið, en hitt vildi ég ógjarnan eiga á hættu, að smábarn, sem sent yrði hingað með pósti, um hávetur, þyrfti að hrekjast aftur út í heim að hálfu ári liðnu og þá sennilega sem óskilaböggull út í hreina óvissu. Ég vildi hafa það á því hreina strax, að barnið fengi dvalarleyfi hér á landi eins lengi og með þyrfti, eða að minnsta kosti 1–2 ár. Hins vegar var ég ekki í neinum vafa um það, að móðirin mundi vilja fá dóttur sína aftur jafnskjótt sem hún sæi þess nokkurn kost að sjá henni farborða. Nú er það á allra vitorði, að áðursögð saga er ekkert einsdæmi, og sneri ég mér því til Friðarvinafélagsins og spurðist fyrir um það, hvort félagið hefði í hyggju að taka hingað nokkuð af hrakhólabörnum, og ef svo væri, hvort mín stelpa gæti þá ekki fylgt þeim hóp. Jú, Friðarvinafélagið vildi gjarnan taka nokkur börn austurrísk, og varð það að samkomulagi, að stjórn þess félags skrifaði ríkisstj. og sækti um innflutnings- og dvalarleyfi fyrir 8–10 börn, ekki var nú talan hærri, og var mín stelpa meðtalin. Þann 12. des. síðastliðinn skrifaði svo stjórn Friðarvinafélagsins umsóknina til ríkisstj. og óskaði eftir fljótu svari, en í bréfinu var tekið fram, að eingöngu skyldi um andlega og líkamlega heilbrigð börn að ræða, og eins hitt, að börnunum mundi komið fyrir á góðum heimilum, því opinbera að kostnaðarlausu.“ Þannig farast Katrínu Thoroddsen orð. En úrlausnin, sem hún fékk hjá núv. hv. þm. Str., var skýlaus neitun. Síðan fylgdi skætingur í Tímanum um, að ástæðulaust væri að sýna Gyðingabörnum mannúð, og nóg væri hér af börnum, sem þyrftu aðstoðar við. Var það og túlkað svo í blöðum flokks hans, að hætta væri fyrir hinn íslenzka kynstofn, að inn væri flutt fólk af Gyðingaættum. En nú var hér aðeins um börn að ræða og einungis bráðabirgðaráðstöfun. Einnig skyldu þau flutt inn og haldið uppi ríkinu að kostnaðarlausu. Þrátt fyrir allt þetta lét hv. þm. Str. sér sæma að neita þessari beiðni. Svona var nú mannúðin á háu stigi hjá þessum hv. þm. þá, þegar um það var að ræða að bjarga nokkrum börnum úr klóm þýzku nazistanna. Það kemur þess vegna úr hörðustu átt, þegar þessi sami hv. þm. flytur nú þáltill. um að flytja til landsins þessa þýzku menn og túlkar það mál sem mannúðarráðstöfun. Manni verður hugsað til austurrísku Gyðingabarnanna, sem hann meinaði landsvistar árið 1939. Þá var mannúðinni ekki fyrir að fara.

Ég held, að það væri nær að athuga þetta mál frá öllum hliðum mjög gaumgæfilega, áður en hafizt verður handa um að flytja þessa þýzku karlmenn til landsins. Menn verða að gera sér það ljóst, að hér er ekkert smámál á ferðinni, heldur mál, sem mjög miklu skiptir, hvernig við er snúizt, mál, sem getur haft miklar afleiðingar fyrir land og þjóð, ef ekki verður réttilega við því snúizt.