15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (3989)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Á þskj. 839 flytur menntmn. 8 brtt. við frv. þetta. — 1. brtt. er við 6. gr., um að takmarka nokkuð vald ráðherra frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., og hljóðar svo: „Ráðherra getur samkvæmt till. háskólaráðs aukið verksvið deilda, enda sé áður leitað . .“ o. s. frv. N. þótti ástæðulaust að gefa ráðh. svo víðtæka heimild sem var samkv. frv.

2. brtt. er í sambandi við till., sem kom frá hv. þm. A.-Sk. við 2. umr. Varð n. sammála um eftirfarandi brtt. aftan við 7. gr.: „Búnaðarfélag Íslands ásamt tilraunaráðum jarðræktar og búfjárræktar, Fiskifélag Íslands og Landssamband iðnaðarmanna skulu ár hvert gera tillögur um það, að hvaða rannsóknum skuli unnið í þeim undirdeildum atvinnudeildar, sem hlut eigi að máli.“ Ég skal taka það fram, að þessar stofnanir hafa einungis tillögurétt hjá stjórn deildarinnar.

3., 4. og 5. brtt. fara í sömu átt og till. frá hv. þm. A.-Sk., sem fram komu við 2. umr.

6. brtt. er einungis leiðrétting.

7. brtt. er við 14. gr. og er í þrennu lagi. — a-liðurinn er á þá leið, að á eftir orðinu „tilraunastöðin“ í 1. málsgr. komi: í sjúkdómafræði. — b-liður miðar í þá átt að koma til móts við þá skoðun, sem kom fram í athugasemdum hv. þm. Ak. við 2. umr. — c-liður er í samræmi við 1. brtt., við 6. gr. frv.

8. brtt. er þess efnis, að í stað þess að fella úr gildi 9.–11. gr. nr. 64 1940 komi 9.–10. gr. Menntmn. varð sammála um að flytja þessar brtt. og mæla með þeim.