13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (3990)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það er þegar búið að taka flest af því fram, sem ég hafði ætlað að segja, þegar ég kvaddi mér hljóðs. Málflutningur hæstv. dómsmrh. hefur verið þannig, að mér hefur alveg ofboðið, hvernig hann hefur komið fram. Ég verð að segja það, að ég hef aldrei vinur nazista verið. En með málflutningi sínum hefur hann áorkað því, að ég, sem í upphafi var andvígur þessari till., er nú kominn á aðra skoðun og er alveg orðinn sannfærður um, að þessi till. er alveg réttmæt. Hann er með málflutningi sínum sem dómsmrh. búinn að brjóta af sér.

Út af orðum hans um birtingu bréfanna vil ég hér með skora á hann að birta þau öll, ekki útdrátt úr þeim, svo að þjóðinni gefist kostur á að vita, hvað þau hafa að geyma.

Þá leyfði hann sér að nefna Þjóðverja blóðhunda og það hér á Alþ. Hann er hér kominn inn á hála braut. Rússar töldu sér ekki fært annað en að gera griðasáttmála við Þjóðverja. Þar sem svo var ástatt með stærsta ríki Evrópu, þá held ég, að við Íslendingar þolum vel samanburð. Við neituðum Þjóðverjum til dæmis um flugvelli, og hefur sú ákvörðun okkar verið viðurkennd af Bandamönnum. Til þess að taka þá ákvörðun á þeim tíma þurfti meiri karlmennsku en til þess að nefna hina sigruðu Þjóðverja nú blóðhunda eða öðrum viðlíka smekklegum nöfnum.

Hæstv. ráðh. minntist á fimmtu herdeild hér á landi. Ef hann hefur komizt að því, að hún hafi átt að vera hér, þá ætti hann að birta nöfn þeirra manna, sem í henni voru. Ég veit ekki betur en að það sé staða hans og að honum beri til þess skylda að vera á verði þegar svo stendur á. Nú hefur hann valdið, og birti hann þá það, sem hann veit í þessum efnum, til þess að sýna, að þetta sé ekki fleipur eitt.

Það var hálf lúalegt af hæstv. ráðh. að læða því fram úr sér í ráðherrastóli, að hann hefði komizt heim fyrir náð Himmlers. Hvað gaf hann í skyn við Himmler? Er þetta sæmandi úr ráðherrastóli ?

Annars var það ætlun mín með því að biðja um orðið að minnast á herliðið hér á landi. Hvað hefur núverandi ríkisstj. gert til þess að samningur, sem hv. þm. Str. (HermJ) gerði við Bandamenn um hervernd landsins, verði haldinn? Hvenær verður herliðið flutt burtu? Ég vona, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess, að sá samningur, sem gerður var um brottflutning liðsins, verði haldinn Ég vænti, að ráðh. muni verða skeleggir í að láta halda þá samninga, sem hv. þm. Str. gerði hagstæða í stjórnartíð sinni. Ég óska að fá skýr svör við þessari fyrirspurn minni.