13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3997)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er hissa á því, að hæstv. forseti skuli láta svona, þótt orðið sé þetta framorðið. Við höfum áreiðanlega séð það stundum svartara hér á Alþ. (Forsrh.: Hv. 2. þm. S.-M. fær að tala á morgun).

Ég vil segja það út af ræðu hæstv. dómsmrh., að það eina, sem hann ásakaði hv. þm. Str. um, var það, að hann lét þjóðina ekki vita um njósnamálið. En hvað var það, sem sendiherra okkar í Danmörku lét íslenzku ríkisstj. vita? Ekki annað en að álitið væri, að njósnir væru reknar hér á landi. Svo er ráðh. að ámæla hv. þm. Str. fyrir að hafa ekki sett þetta í blöðin. Þetta sýnir, hvað hæstv. dómsmrh. hefur hætt sér út á hálan ís. Þetta er það eina, sem hann hefur nú eftir af því, sem hann ber á hv. þm. Str. Annað er hann búinn að taka aftur. Hann er minni maður eftir að hafa verið með þessar dylgjur, ef hann birtir ekki þau skjöl, sem hér um ræðir.

Þegar um stjórnmáladeilur er að ræða, gerir hv. 2. þm. Reykv. (EOl) mun á því, hvaðan vindurinn blæs, hvort hann er á austan, suðvestan eða sunnan. Það gerir ekki til, þótt austanvindurinn haldist. — Hv. 2. þm. Reykv. telur sig mikinn baráttumann gegn nazistum. Hann byrjaði með því, þegar skipið Emden kom hingað til lands fyrir nokkrum árum, að fara fram á, að pantaðir væru enskir bryndrekar til að vera hér, meðan hið þýzka skip stæði við. Svo kom samningurinn milli Stalins og Hitlers. Þá breyttist viðhorf þessa hv. þm. Þá var sama, hvernig fasistinn var búinn, hvort hann var mórauður eða í öðruvísi litum einkennisbúningi. Svo kom það, að við ættum að hætta að senda Bretum fisk, hætta að hjálpa þeim, þegar þeir stóðu einir í baráttunni gegn fasismanum. — Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. ætti ekki að óska eftir framhaldsumræðum um þetta mál.