20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (4010)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þegar minnzt hefur verið á þetta mál hér að undanförnu í sambandi við að setja það á dagskrá, hefur hv. 2. þm. Reykv. (EOl) getið þess réttilega, að við tveir nm., sem höfum ekki getað orðið hv. samnm. okkar samferða, höfum ekki enn þá gefið út minni hl. nál. Hv. 2. þm. Reykv. mótmælti því fyrir sitt leyti, að mál þetta væri tekið á dagskrá, meðan svo stæðu sakir. Ég vil fyrir mitt leyti algerlega taka undir þetta. Þegar mál þetta kom fyrir utanrmn. á föstudaginn var, var mjög orðið áliðið fundartímans, því að önnur aðalmál höfðu verið þar á dagskrá. Þegar kom að þessu málefni, var þess óskað af hv. 2. þm. Reykv., að hæstv. dómsmrh. væri kvaddur til fundar til skrafs og ráðagerða og einnig óskaði hann eftir öðrum upplýsingum, sem n. mættu að gagni koma. Hv. meiri hl. n. sá sér hins vegar ekki fært að verða við þessum óskum minni hl., en lét ganga til atkvæða um það í n., hvort nm. væru með till. óbreyttri eða ekki. Fimm af sjö nm. töldu sig fylgjandi till. óbreyttri. Ég og hv. 2. þm. Reykv. (EOl) gátum ekki gengið inn á till. eins og hún lá fyrir og óskuðum eftir frekari umræðum; upplýsingum og skjalasöfnun í n. sjálfri. Hv. meiri hl. varð ekki við þessum óskum okkar og er þetta óvanaleg aðferð í n., því að í þeim n., sem ég hef átt sæti, hef ég ekki orðið þess var, að meiri hl. n. meinaði minni hl. n. að fá upplýsingar og viðræður við vissa menn, sem hann óskaði eftir, áður en n. tæki endanlega afstöðu. Af þessu hefur leitt það, að við hv. 2. þm. Reykv. höfum ekki séð okkur fært að skila áliti, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, sumpart af því að síðan hafa verið miklar þingannir, fundir langir og strangir og lítill tími til annars en að sitja fundi og taka þátt í atkvgr. Ég hef ekki einu sinni getað rætt við hv. 2. þm. Reykv. (EOl) um það, hvort við getum gefið út sameiginlegt nál. eða ekki. Afstaða mín, eins og hans, er sú, að við getum ekki gengið inn á till. óbreytta, og má það vera öllum ljóst, af því að þegar þessi till. var til umr., var útbýtt frá mér ásamt hv. þm. V.-Ísf. till. til breyt. á frumtill.

Ég verð að lýsa yfir, að ég get ekki gengið inn á till. þessa eins og hún er flutt. Við, sem er um í minni hl. n., ætlum að afla gagna í málinu og gefa út nál. Í n. höfum við orðið fyrir því, að till. okkar hafa verið hundsaðar, svo og afstaða okkar. Okkur var ekki leyft að ræða við hæstv. dómsmrh. til þess að fá hjá honum nauðsynlegar upplýsingar. Yfirleitt má segja, að mál þetta hafi sætt mjög óþinglegri meðferð. Við viljum hafa rétt til að gefa út álit minni hl. Það er ekki úr hófi, þótt það líði 5 til 6 dagar, án þess að við getum komið því við, jafnmiklar annir og hér hafa verið að undanförnu og eru enn. Ef það yrði ekki tilbúið að þeim tíma liðnum, gæti hæstv. forseti tekið málið á dagskrá. En eftir þann tíma, sem við nú höfum haft til undirbúnings, er óverjandi, að það skuli hafa verið tekið til umræðu. Ég óska, að málinu sé á þessu stigi þess frestað og að okkur verði gefinn frestur til að skila nál.