20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (4018)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil geta þess, að það er ekki rétt hjá hv. þm. Str., að það, sem hæstv. forseti las upp, sé flutt fyrir tilmæli ríkisstj. Það er bezt að segja hverja sögu eins og hún gengur, að við vorum búnir að ræða um málið, en ekki komnir að niðurstöðu um málsmeðferðina, þegar við fengum skilaboð frá hæstv. forseta, hvað hann ætlaði sér að gera í málinu. Mér þykir skynsamleg hans aðferð. Ég er meðal þeirra, sem hafa hugsað sér að greiða götu þessara manna. Og ef ég teldi þessa málsmeðferð stein í götu þess, mundi ég ekki fella mig við hana. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, hygg ég óhætt að treysta, að það skipti engu máli um landsvistina, hvort till. er samþ. í dag eða að þingfrestun lokinni. Þess vegna álít ég alveg rétt að fella niður þessar umr. nú. Ég fyrir mitt leyti vil vinna að því af fremsta megni að greiða fyrir því, að þessu máli verði hraðað eins og hægt er. Og þeir, sem hugsa um efnishlið málsins, mega líta á það sjónarmið, enda ekki víst, að ný vökunótt og nýjar ádeilur persónulega verði til að greiða götu málsins. Ég veit, að hæstv. dómsmrh. mun halda áfram því, sem hann hefur byrjað á, að afla upplýsinga, sem að lokum allt á að byggjast á, enda skilst mér, að flm. till. ætlist til, að slík rannsókn fari fram. Ég er meðal þeirra, sem mundu ekki telja eftir mér eina vökunótt, ef það skipti máli. En því meira kapp, sem hleypur í svona mál, þeim mun minni líkur eru til, að sú fyllsta skynsemi komist að. Ég álít nóg komið af deilum um málið og rétt að hraða rannsókninni, sem fyrir liggur.