20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4026)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Út af því, sem hv. þm. Str. sagði, að hæstv. forseti hafi skipt mjög um skoðun meðan á umr. stóð, vil ég segja það, að mér er kunnugt alveg persónulega, að svo er ekki, heldur hefur hann haldið sínu striki. Þegar hann lýsti því, að umr. mundi verða frestað, var mér það ákaflega þvert um geð. En eftir upplýsingu hæstv. forsrh. og ummæli hæstv. forseta í þessu sambandi vil ég alls ekki fyrir mitt leyti þreyta þetta mál frekar. Fyrir mér hefur alltaf aðalatriðið verið málefnislegt, að greiða götu þessa fólks, en hvorki pólitískur sigur né ósigur á Alþ. Ef þetta mál er í raun og sannleika betur komið, eins og mér gæti vel til hugar komið eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh., með því að hleypa ekki meiri eldi í það, þá vil ég ekki svala skapsmunum mínum hér á Alþ. á kostnað þessa fólks. Mér er alveg ljóst, að framkoma þessarar till. hefur haft sína þýðingu, þó að afgreiðsla hennar verði ekki meiri en nú er orðið. Ég skal fúslega taka þátt í umr. áfram og greiða atkv. með till., ef hún kemur til atkv., en kæri mig ekki um að kveða niður úrskurð hæstv. forseta með atkvgr.