20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (4028)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Gunnar Thoroddsen:

Mér skilst, að um frestun umr. byggi hæstv. forseti á þeirri sannfæringu, að samþykkt þessarar till. í nótt mundi ekki hraða raunverulegri afgreiðslu þessa máls, þ. e. veitingu landsvistarleyfis fyrir þessa umræddu útlendinga. Ég efast ekki um, að forseti er sannfærður um þetta, og þakka jafnframt yfirlýsingu hæstv. forsrh. En þó að ég beri fyllsta traust til hans, heyrir málið ekki undir hans ráðuneyti og verður þess vegna í höndum dómsmrh. Mér finnst þess vegna ekki ófyrirsynju, að við fengjum yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um afstöðu hans til málsins. Það er mikið talað um rannsókn, en ég held, að rannsókn í meginatriðum hafi farið fram. Það er vitað, að þessir menn voru teknir af hernámsliðinu, og að það hefur rannsakað mál þessara manna niður í kjölinn. Ef á þeim hefðu hvílt samkv. þeirri rannsókn einhverjar sakir fyrir njósnir, dettur mér ekki í hug, að þeim hefði verið sleppt frjálsum frá Englandi til Þýzkalands. En það má vera, að ástæða sé til einhverrar frekari rannsóknar, og þá er von mín, að þetta verði ekki notað sem falsástæða til að tefja málið.

Það væri og fróðlegt að heyra frá hæstv. dómsmrh., hvernig hugsað er að haga þessari rannsókn. Hér er ekki um að ræða venjulega opinbera rannsókn, að íslenzkir embættismenn hér rannsaki málið og sakborningar séu varðir. Á að biðja erlend stjórnarvöld að rannsaka málið? Er meiningin að senda Íslendinga utan til að afla gagna og yfirheyra þessa menn? Og er meiningin að byggja á gögnum, sem hingað er hægt að afla, án þess að fá vitnisburð mannanna sjálfra? Ég tek þetta fram vegna þess, að þessari rannsókn hlýtur eðli málsins samkv. að verða öðruvísi háttað en venjulegum rannsóknum hér. Væri ástæða til að æskja yfirlýsingar hæstv. dómsmrh. um hans fyrirætlun í þessu efni.