20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (4030)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég hef ekki mælzt undan því að halda áfram umr. um þetta mál. Hins vegar hefur hæstv. forseti kveðið upp úrskurð, að þeim skuli hætt, og þá beygi ég mig. Ég hef setið og hlustað á ýmsar aths. þm., en setið hjá, enda hélt ég, að umr. væri að verða slitið. Ef hins vegar meiningin er að halda áfram, þá er ég til. Ég hef upplýst það á Alþ., að ég óska að fá frá hlutaðeigendum skýrslur um þessa menn, nokkuð svipaðar og ég hef um þá menn, sem teknir voru sem njósnarar hér á landi. Það hefur gengið mjög erfiðlega að fá þessi plögg, og er á engan hátt á mínu valdi að flýta þeim. En ég hef gert allt, sem ég get, til að fá allar upplýsingar, sem í herstjórnarinnar höndum hafa verið. Og ég hef alveg nýverið fengið að vita það, — og hef skýrt frá því hér á Alþ. áður, svo að þm. ætti að vera vorkunnarlaust að muna, — að það voru í höndum herstjórnarinnar hér skjöl, sem sýndu ýmislegt um framferði Þjóðverja hér á landi á meðan þeir höfðu hér ræðismann. Hvað sem líður samþykkt þessarar till., þá held ég áfram tilraunum um að fá þessi skjöl, sem ég hef nokkra von um, að beri árangur. Hvað þau kunna að sanna, veit ég ekki neitt.

Um rannsókn málsins að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða, eftir að búið er raunverulega að slíta umr. um málið. En ég ítreka það, að ég hef sérstaka ástæðu til að ræða þetta mál, og mæli mig síður en svo undan umræðum, m. a. vegna alls konar aðdróttana, sem til mín hefur verið beint í blaði hv. þm. Str., þar sem hann ber mér á brýn, að ég sé með minni varfærni, sem ég taldi mér skylt að sýna, að stía sundur fjölskyldum. Og það liggur við, að hv. þm. Str. hafi líkt mér við einhvers konar barnamorðingja, a. m. k. hefur hann í blaði sínu borið mér alls konar illar hvatir á brýn í þessu máli, hvatir, sem öllu heldur mundu kannske búa undir hans brúnum en mínum.