19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (4036)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hefja miklar umr. á ný um þessa till. á þessu stigi málsins. N. hefur skilað áliti, og lögðu 5 nm. af 7 til, að till. yrði samþ. óbreytt, en 2 skrifuðu ekki undir nál., en hafa ekki skilað sjálfstæðu nál.

Það var upphaflega ætlun flm. að fá þessa till. afgr. fyrir jól, en henni var frestað sökum þess, að minni hl. taldi sig ekki hafa tíma til að skila nál., og var málinu frestað með loforði forseta um, að það yrði tekið fyrir á 1. fundi, strax þegar þing kæmi saman, en það hefur nú dregizt, og e. t. v. að einhverju leyti vegna fjarvistar minnar, en þó lengur en mín fjarvist. Nú er liðið á þriðja mánuð frá því að meiri hl. skilaði nál., en minni hl. hefur ekki enn skilað nál., og getur sá dráttur ekki tafið þetta mál lengur. Ég verð því að fara fram á það við hæstv. forseta, að þessu máli verði fram haldið svo sem sakir standa til, afgreiðsla þess hefur þegar dregist of lengi.

Ég vil svo ekki á þessu stigi málsins fara að ræða það efnislega. Ég benti á það fyrir jól, að umr. hefðu farið út fyrir þetta mál, og vil ekki verða til að endurvekja þær umr. á ný, en vil mælast til þess við forseta, að málinu verði nú haldið áfram svo sem sakir standa til.