19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (4039)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Það hefur verið vikið dálítið að minni hl. af tveimur hv. þm., en hvorugur þeirra er hér viðstaddur. En ég get gert grein fyrir því, að þeir hafa ekki skilað áliti, en það er af því, að málið er enn í rannsókn. Annars hefur það e. t. v. ekki mikla þýðingu upp á landsvistarleyfi þessara manna að halda áfram þessum umr., þar sem þeir eru nú flestir komnir til Þýzkalands og vandkvæðum bundið að komast þaðan sem þangað. Nú eru hér 2 Þjóðverjar, sem óskað hafa eindregið eftir að komast til síns heimalands, en það hefur enn ekki tekizt, þrátt fyrir tilraunir utanrrn. Ég get upplýst, að dómsmrn. hefur tekið upp nýja háttu um atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga. Áður tíðkaðist það ekki, að slík leyfi þyrftu að endurnýjast, og enn fremur hefur sá háttur verið tekinn upp, að slík leyfi eru ekki gefin nema til ákveðins tíma, lengstu leyfin til eins árs, en mörg til skemmri tíma. Þá hefur og útlendingaeftirlitinu verið komið í annað horf en verið hefur. Það er haft nákvæmt eftirlit með því, í hvaða erindum útlendingar koma til landsins, og er haldin spjaldskrá yfir alla útlendinga, sem hér dvelja. Ég hef talið rétt að taka upp þá reglu hér um atvinnu- og dvalarleyfi, sem almennt er fylgt á Norðurlöndum, þ. e. að veita þeim dvalarleyfi, sem þess óska, ef ekkert er hægt að finna athugavert, sem mælir á móti því, en ekki að veita atvinnuleyfi nema þeim, sem atvinnurekandi óskar eftir og tekur við og ábyrgist, að fari af landinu, þegar leyfið er útrunnið, landinu að kostnaðarlausu. — Það virtist svo sem hér vantaði allt eftirlit með útlendingum fyrir stríð.

Ég gat þess áðan, að þetta mál, þ. e. a. s. starfsemi Þjóðverja hér fyrir stríð, væri enn í rannsókn. Það hafa verið gerðar tilraunir til að fá þau gögn, sem tekin voru í vörzlu setuliðsins þegar Bretar komu, en þær tilraunir báru lengi engan árangur. En að lokum fékk dómsmrn. þá tilkynningu gegnum utanrrn., að leyfi væri fengið til að rannsaka þessi skjöl. Tilkynningin um þetta barst dómsmrn. 30. des. og er þar vitnað í nótu frá 6. des. og viðtal við mig, og er þar sagt, að yfirmaður hersins hér hafi fengið leyfi hjá hernaðarstjórninni til að sýna fulltrúum frá dómsmrn. þessi skjöl. Var byrjað að vinna að því að athuga þessi skjöl snemma í janúar, og hafa þeir, sem ég fékk til þess, rannsakað þetta og gefið skýrslu, en ekki er enn búið að vinna úr henni. Nokkuð af nýjum skjölum fannst, eftir að byrjað var á þessari rannsókn, í þýzka ræðismannsbústaðnum við Túngötu, og munu þau skjöl vera nokkuð á annan hátt en tíðkast í sendiráðum annarra landa. Eru þessi bréf hvatning til Þjóðverja hér um að ganga í Deutsche Arbeitsfront eða nazistaflokkinn, nokkuð sama hvort heldur væri, bara ef þeir væru reiðubúnir að ganga í þjónustu foringjans, þegar kallið kæmi. Þeir áttu að hlýða skipunum foringjans, en þær voru að grípa til vopna gegn því landi, sem hafði veitt þeim gistingu. Þótt ekki sé sagt með þessu, hvað hver og einn hefði gert, þegar kallið kom, þá er tilgangurinn augljós. Ég skal geta þess, að þau skjöl, sem fundizt hafa í þýzka ræðismannsbústaðnum, hafa eiginlega ekki fært neitt nýtt í ljós umfram það, sem sagt var í skýrslu þeirri, er samin var af Bretum. En hins vegar hefur þessi skýrsla staðfest skýrslu Breta í öllum aðalatriðum, að ræðismaðurinn var sendur í sérstökum erindum Gestapoforingjans Himmlers. Það verk, sem honum var ætlað að vinna, virðist hafa verið það sama, sem þýzku nazistarnir unnu í öllum löndum, að stofna hér öflugan nazistaflokk til að vera viðbúinn, þegar skipanirnar kæmu. En við höfum séð fyrir okkur, frá öðrum löndum, hvaða skipanir það voru, sem þessir menn áttu von á.

Ég hef gert allt, sem í mínu valdi stendur, til að fá þessi mál betur upplýst en gert hefur verið. Ég hef óskað eftir því við sendiráð Bandaríkjanna, að það hlutaðist til um, að athugað væri, hvort nokkur skjöl væru í Þýzkalandi, sem væru Íslandi viðkomandi. Einnig hef ég farið þess á leit við Hugo Lindberg, sem er fulltrúi Svía í Nürnberg, að hann grennslaðist eftir því, hvort í Nürnberg væru nokkur skjöl varðandi Ísland. Þá hefur í þriðja lagi verið hér staddur, raunar í fríi, Bandaríkjamaður, er átti íslenzka konu, sem fórst með Dettifossi, og er starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Hann sagði mér, að hann hefði séð úti í Kassel í Þýzkalandi skjöl, sem sýndu ráðagerðir Þjóðverja um að gera innrás í Ísland. Ég bað hann um að reyna að komast að því, hvað til væri af skjölum um þetta og láta mig svo vita um það, og að síðan yrðu gerðar ráðstafanir til þess, að slík skjöl yrðu uppgefin og við gætum fengið aðgang að þeim. Hann sagði mér, að þegar verið var að ljóstra upp svikum Quislings í Noregi, hefði norska, stjórnin farið svipaða leið og fengið upplýsingar hjá herstjórn Bandamanna. — Síðan hef ég ekkert um þetta heyrt, nema hvað mér hefur verið tjáð, að dr. Gerlach, sem sendur var hingað, ekki sem venjulegur sendifulltrúi, heldur í sérstökum tilgangi fyrir nazistaflokkinn, sé nú í haldi í Þýzkalandi og verði tekinn til yfirheyrslu. Lengi hefur staðið til, að skjöl þau, sem hér eru til í málinu, verði send til Þýzkalands og notuð þar við yfirheyrslu Gerlachs. Kemur þá vonandi í ljós, hvers konar fyrirætlanir hafi verið gerðar hér af Þjóðverjum og í hvers konar tilgangi. Æskilegt væri, að íslenzka ríkisstjórnin fengi að hafa fulltrúa við þessi réttarhöld, og mun ég gera mitt til þess. að slíkt leyfi fáist.

Framyfir það, sem áður var reyndar upplýst í þessu máli og ég hef nú gefið upplýsingar um, má segja, að ekki hafi mikið gerzt. Það má að vísu segja til tíðinda, að tvær sendistöðvar hafa fundizt í bústað þýzka ræðismannsins við Túngötu, og er full ástæða til þess að ætla, að önnur þeirra hafi verið sú, sem hv. þm. Str. sagði hér í Alþ. og lét hafa eftir sér í blaðinu Tímanum, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði látið loka. En í sambandi við þá lokun hljóta að hafa verið einhver mistök, því að við reynslu reyndist hún vera í bezta lagi og lögreglustjóri hefur tjáð mér, að hann hafi aldrei séð hana. Hér hlýtur því eitthvað að fara milli mála, að lögreglustjórinn hafi lokað þessari stöð.

Um fundinn er það að segja, að þegar ráðgert var, að dómsmrn. flytti í húsið nr. 18 við Túngötu, spurði ég Birgi Thorlacius, fulltrúa, sem viðstaddur hafði verið uppskriftir á munum í húsinu, hvort hann hefði ekki orðið neitt var við hluta úr þessari sendistöð, Ég tók nefnilega ummæli hv. þm. Str. svo alvarlega, að ég hélt, að þarna mundu í hæsta lagi hafa verið einhver merki um stöð og e. t. v. einhverjir partar úr henni, vegna þess að lögreglustjóri mundi varla hafa getað haft hana alla með sér. Ég minnist þess, að Tíminn sagði tvisvar, að þessari sendistöð, sem blaðið sagði, að hefði verið siglingum landsmanna svo hættuleg, hefði verið lokað. Ég var svo barnalegur að trúa þessu, þ. e. að Tíminn hefði þetta rétt eftir hv. þm. Str. Það datt því alveg ofan yfir mig, er Birgir Thorlacius sagði mér, að hann hefði, er hann var við uppskrift á eignum þar, fundið uppi á háalofti tösku með sendistöð, en enga parta úr stöð þeirri, sem lögreglustjóri átti að hafa lokað. Í skýrslu Birgis Thorlaciusar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vorið 1945 tjáði sænski sendifulltrúinn íslenzku ríkisstj., að hann vildi afhenda henni eignir Þjóðverja hér á landi til varðveizlu, þar sem Svíþjóð væri hætt að gæta þýzkra hagsmuna. Eignir þessar væru húseignin Túngata 18 í Reykjavík, ásamt húsbúnaði, bifreið o. fl., er þar var geymt.

Hinn 31. maí 1945 var innsigli stj. sett við hliðina á innsigli sendiráðs Svía á þau herbergi, er sendiráðið hafði haft innsigluð. Síðan varð það að ráði, að borgarfógetinn í Reykjavík skyldi beðinn að vera við, þegar innsiglin væru rofin, og gera skrá um alla þá hluti, er íslenzka ríkisstj. tæki við af sænska sendiráðinu. Hófst skrásetning þessi 13. sept. 1945 og lauk 15. janúar 1946. Við skrásetninguna var lögð til grundvallar skrá, er Ólafur Þorgrímsson hæstaréttarlögmaður og Guðjón Jónsson, bryti, höfðu gert að beiðni brezku herstjórnarinnar, þegar sænska sendiráðið tók við vörzlu eignanna. Skráin er dagsett 9. júlí 1940.

Meðal muna í suðausturherbergi á efsta lofti í Túngötu 18 kom í ljós svört ferðataska, ólæst. Í henni reyndist vera sendistöð. Enn fremur var í þessu herbergi brún ferðataska, læst, með óþekktu innihaldi. Töskur þessar voru báðar skrásettar, en þeirra virðist eigi getið í fyrrgreindri skrá Ólafs Þorgrímssonar, en tekið er fram, að herbergið, sem töskurnar voru í, hafi ávallt verið aflokað og sé „því ekki ástæða til nákvæmari upptalningar.“

Herbergi þetta var eigi innsiglað, þar sem sænska sendiráðið taldi, að jafnan þyrfti að vera hægt að komast inn í það til að þurrka upp vatn, sem stafaði af því, að þakið væri bilað.

Eftir að sænska sendiráðið hafði hinn 15. jan. 1946 afhent íslenzku ríkisstj. vörzlu umræddra eigna, var sendistöðin í svörtu töskunni afhent skrifstofustjóra Landssímans, Friðbirni Aðalsteinssyni, og Gunnlaugi Briem, verkfræðingi, til rannsóknar, sbr. skýrslu þeirra, dags. 19. jan. 1946. Nokkrum dögum síðar var brúna ferðataskan sprengd upp. Reyndist einnig vera sendistöð í henni, er var samstundis afhent Friðbirni Aðalsteinssyni og Gunnlaugi Briem til rannsóknar, — sbr. skýrslu þeirra, dags. 26. jan. 1946.

Þess skal getið, að í húsinu nr. 18 við Túngötu bjó eftirgreint fólk, er íslenzka ríkisstj. tók við vörzlu hússins :

Á efstu hæð : Kjartan Bjarnason, lögregluþjónn og fjölskylda hans.

Á miðhæð : Frk. Guðrún Guðmundsdóttir og frk. Meinert, þýzk stúlka.

Fólk þetta býr enn í húsinu.

Reykjavík, 7. febr. 1946.“

Síðan hefur verið látin fara fram rannsókn á því, hvort fólkið í húsinu veit, hvort töskurnar hafi alltaf verið þar. Við þá rannsókn hefur engin vitneskja fengizt, nema sú, að sumt fólkið heldur, að töskurnar hafi verið þar síðan farið var að ganga um herbergið, en nánast hefur aðeins ein áðurnefnd manneskja gengið um herbergið. Skýrsla sú eða lýsingar, sem starfsmenn Landssímans hafa gefið, leiðir í ljós, að sendistöð sú, sem er í svörtu töskunni, nær varla til útlanda, en mundi ná til skipa umhverfis landið, þótt í nokkur hundruð mílna fjarlægð væru. Í skýrslu um fyrri töskuna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 19. janúar 1946.

Samkvæmt tilmælum ráðuneytisins hafa verið rannsökuð tæki í tiltekinni svartri ferðatösku.

Í töskunni voru 2 tæki, 4 lausir lampar, raftaugar og smárit á þýzku með leiðbeiningum um notkun tækjanna.

Annað tækið felur í sér lítinn loftskeytasendi (gerð S 73/4), en hitt netspennutæki (afriðil), til þess að nota við sendinn, þegar orkan er tekin úr riðstraumsrafveitu í stað rafhlaðna.

Bæði tækin reyndust í lagi, og gaf sendirinn um 2 watta orku til loftnets og var hægt að stilla hann á hvaða öldulengd sem var á milli 24 og 44 metra. Í ritinu, sem fylgdi með, var tilgreint öldusvið 24,7–42 m. og sveifluorka 5 watt. Hvorki er getið um firmanafn í ritinu eða utan á tækjunum, sem venja er til, en áletrun á tækinu er á þýzku og hlutirnir í því eru flestir þýzkir, en nokkrir frá Hollandi (lampar), Frakklandi, (mælir) og frá Bandaríkjunum (viðnám). Tækin eru nýleg og virðast lítið sem ekkert hafa verið notuð. Frágangur allur bendir til, að þau hafi verið gerð hjá stóru fyrirtæki. Þess skal getið, að merkið S 73/4 gæti bent til, að tækin væru frá Telefunken-félaginu, því að það hefur áður notað bókstafinn S framan við tölur til þess að tákna gerðir senditækja sinna, t. d. S 317 H, S 307 S, S 309 S, o. s. frv., en þó verður ekkert fullyrt um það.

Orka þessa senditækis er mjög lítil, eða aðeins hluti af því, sem notað er við minnstu bátatalstöðvar hérna. Mörg dæmi eru þó til þess, að með svo lítilli orku hefur stundum tekizt að ná sambandi við fjarlæg lönd, þegar skilyrðin í háloftunum hafa verið sérstaklega hagstæð.

Athugun þessi var gerð af G. Briem og F. Aðalsteinssyni.

e. u.

G. Briem.

Til Dómsmálaráðuneytisins hér.“

Eftir að komið hafði í ljós, að þarna hafði verið sendistöð, án þess að hafa verið skrásett, e. t. v. öðruvísi en ferðataska, er sendiráð Svía tók við húsinu, bað ég Birgi Thorlacíus að opna brúnu töskuna. Það var gert, og eins og ég las upp áðan, kom í ljós, að þarna var mjög aflmikil sendistöð, sem fagmenn hér telja, að þýzki ræðismaðurinn hér hafi notað vissan tíma á árinu 1939 og vissan tíma á árinu 1940, að því er menn vita, en blaðið Tíminn segir, að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi verið látinn loka.

Sömu fagmenn, sem ég gat um áðan, hafa gefið eftirfarandi skýrslu um þetta tæki, en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt tilmælum ráðuneytisins hafa verið athuguð tæki í tiltekinni brúnni ferðatösku, sem ráðuneytið afhenti í dag til rannsóknar.

Í töskunni var sambyggt senditæki og viðtæki fyrir loftskeyti, auk morselykils, heyrnartóls, 4 viðtökulampa, mælis og raftauga. Engar leiðbeiningar eða straumrásarmyndir eða þess háttar voru þar.

Ferðataskan var ómerkt og ekkert firmanafn var á tækinu, en áletranir á þýzku voru við hina ýmsu stillihnappa framan á tækinu, er gáfu til kynna hlutverk þeirra. Heyrnartólið var frá Telefunken, en morselykillinn frá Lorenz-firmanu í Þýzkalandi og gæti það bent til þess, að tækið væri einnig frá Lorenz-firmanu í Þýzkalandi, þótt ekkert sé hægt að fullyrða um það. Hlutirnir í tækinu eru yfirleitt þýzkir, nema lamparnir, sem eru amerískir (sendilampagerð 6 L 6).

Senditækið er stuttbylgju-loftskeytasendir, sem getur tekið orku frá riðstraumsrafveitu með mismunandi spennu, en var stilltur fyrir 220 volta rafveituspennu. Raftaugar fylgdu með tækinu, til þess að hægt væri að taka orku frá rafhlöðum og rafgeymum í stað rafveitu.

Senditækið reyndist í lagi og mældist gefa um 20 watta orku í loftnet. Bylgjusvið þess mældist 3140–27000 kílorið/sek., eða 11–95 metrar. Þó fór orkan minnkandi og varð mjög lítil á 11 metra bylgjulengd. Mikið „lykilklikk“ er frá þessum sendi. Þótt þetta sé tiltölulega orkulítill sendir, virðist hann nægilega sterkur til þess að koma boðum milli fjarlægra landa, þegar skilyrðin í háloftunum eru sæmilega góð. Virðist ekki ólíklegt, að sendir með svipaðri orku, bylgjusviði og lykiltengingu hafi verið notaður hér veturinn 1939–1940, eins og ráðuneytinu var á sínum tíma gert kunnugt um.

Viðtækið reyndist ekki alveg í lagi, en sennilega er aðeins um smábilun að ræða, því að tækið litur vel út. Viðtækið er gert fyrir mikið langdrægi og hefur svipað bylgjusvið og sendirinn, eða 10–86 m.

Ef ráðuneytið óskar, að viðtækið sé tekið sundur og orsök bilunar nákvæmlega fundin og gert við tækið, er að sjálfsögðu unnt að gera það, en það tekur nokkurn tíma. Þetta hefur ekki verið gert, þar sem talið var, að sendirinn væri aðalatriðið og ef til vill væri æskilegt, að tækin væru fyrst um sinn í nákvæmlega sama ástandi og þau fundust í.

Athugun þessi var gerð af G. Briem og F. Aðalsteinssyni.

Reykjavík, 26. jan. 1946.

G. Briem, Frb. Aðalsteinsson.“

Rétt er nú að geta þess í sambandi við fund þessara sendistöðva, er átti að hafa verið lokað á sínum tíma, að þær voru notaðar, eftir því sem Landssíminn segir, haustið 1939 og vorið 1940.

Mér hefur tekizt að fá skýrslu, sem rn. var send á sínum tíma, og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Um miðjan október s. l. haust varð loftskeytastöðin í Reykjavík vör við morsetruflanir, sem virtust stafa frá nálægri radíóstöð. Símamálastjórinn lét þegar hefja rannsóknir á þessum truflunum og leita að upptökum þeirra. Truflanirnar reyndust stafa frá ókunnum morsesendingum á ýmsum tímum sólarhringsins, þó oftast nær á eftir veðurskeytasendingum stuttbylgjustöðvarinnar, og á ýmsum öldulengdum, svo sem 20,8 metrum, 34 m. og 54 m. Sendingarnar voru ávallt með sama sniði, t. d. tveggja stafa kallmerki, svipaðar skammstafanir o. þvíl., og stóðu venjulega aðeins 2–3 mínútur í einu, en einstaka sinnum lengur. Vegna þess hve sendingarnar stóðu stutt yfir og öldulengd og senditími var breytilegur, var strax sýnilegt, að leitin að upptökum þeirra yrði örðug, enda hafði símamálastjórnin ekki hentug tæki til slíkrar leitar.

Loftskeytastöðin var frá og með 17. október beðin að rita niður hin ókunnu morsemerki, eftir því sem við varð komið. Jafnframt voru sett saman ófullkomin miðunartæki fyrir stuttbylgjur í hentugri stefnu utan við bæinn og reyndist stefnan til hinnar ókunnu stöðvar að liggja í línu Garðastrætis. Síðan voru miðanir teknar frá ýmsum stöðum í bænum og virtust skurðarpunktarnir yfirleitt liggja á vegamótum Túngötu og Garðastrætis, en þó nokkru fyrir utan. Til þess að reyna að leiðrétta fyrir stefnuskekkjum, sem ávallt eru á stuttbylgjumiðunum inni í bæjum, var smíðaður smástuttbylgjusendir og farið með hann um miðhluta bæjarins, og sýndi hann, að ekki var fyllilega hægt að treysta á miðanir húsa á stuttum bylgjum, vegna breytilegra skekkjuhorna. Samtímis þessu var athugað með aðstoð rafveitunnar, hvort hinn ókunni sendir fengi orku sína úr rafveitukerfi bæjarins, og sýndi það sig, að hann þagnaði skyndilega, ef raforkan var tekin af bænum. Enn fremur var byrjað að mæla styrk merkjanna í nágrenni ofannefndra skurðarpunkta og hafa gætur á grunsamlegum stöðum, m. a. hjá tveim íslenzkum loftskeytamönnum í miðbænum, sem höfðu verið grunaðir um að eiga amateur-senditæki. En þá (6. des. 1939) hættu hinar leynilegu sendingar skyndilega og var því ekki unnt að halda rannsókninni áfram. Miðvikudaginn 10. þ. m. varð loftskeytastöðin á ný vör við sams konar truflanir og þótti sýnilegt, að um sama sendi mundi vera að ræða. Sendingarnar voru nú á 30,8 m. öldulengd. Nákvæmar athuganir voru nú þegar hafnar í kringum það svæði, er fyrri rannsóknir höfðu vakið grun á. Samkvæmt upplýsingum Rafveitu Reykjavíkur eru tiltölulega fá hús á einum rafmagnsstreng í Túngötu og var hægt að rjúfa hann í nálægri spennistöð. Var nú farið í hlutaðeigandi spennistöð með tvö viðtæki. Þegar sending var byrjuð, var rafstrengurinn skyndilega rofinn (10. þ. m. kl. 21,11) og hurfu morsemerkin þá samstundis. Raforkunni var síðan eftir augnablik hleypt aftur á strenginn og komu merkin þá aftur, en sending merkjanna breyttist að því leyti, að hún varð nú bæði hraðari og ekki eins örugg. Við þessa athugun voru viðstaddir í spennistöðinni Magnús Magnússon, símaverkfræðingur, Einar Pálsson, símaverkfræðingur, og Baldvin Skaftfell, starfsmaður Rafveitunnar. Einar og Baldvin heyrðu greinilega er merkin hurfu um leið og raforkan var tekin af strengnum, en Magnús sá á mælitæki, er mælir styrk merkjanna, að aflsvið sendisins hvarf um leið. Styrkur aflsviðsins var mældur og reyndist 800 uv/m. Þótti sannað með þessu, að hinn ókunni sendir tæki raforku sína frá rafmagnskerfinu í einhverju hinna 8 húsa í Túngötunni, sem tengd eru við hlutaðeigandi jarðstreng. Bæði síðastliðið haust og nú höfðu verið athuguð öll loftnet, sem lágu til þessara húsa, og var athugað, hvaða tæki væru tengd við loftnetin í öllum hlutaðeigandi húsum nema í Túngötu 18, þar sem erlendur ræðismaður hefur aðsetur sitt. Loftnetin eru sýnd á meðfylgjandi teikningu II. Athugun þessi þótti sýna, að ekkert þeirra loftneta, sem inn í hin húsin lágu, kæmi til greina sem sendiloftnet fyrir hinn ókunna sendi. Féll þá grunur á, að sendirinn væri í Túngötu 18. Inn í það hús liggja tvö loftnet (auk samansnúinnar taugar til Túngötu 16). Grunntengivír var tengdur við loftnetið á þakinu á Túngötu 20 aðfaranótt 12. þ. m. Við sendingu kl. 8.02 var lampi tengdur við loftnetið og hefði hann átt að lýsa, ef um sterkan sendi hefði verið að ræða, en eigi var sýnilegt ljós á honum. Við sendingu kl. 9.06 var svo loftnetið grunntengt, fyrst með því að snerta vírinn lauslega nokkrum sinnum, en síðan með varanlegri grunntengingu. Viðstaddir voru við prófanir þeir Einar Pálsson og Magnús Magnússon. Einar grunntengdi loftnetið og heldur hann því fram, að merkin í viðtækinu hafi horfið í hvert sinn, er hann kom með vírinn við loftnetið, en Magnús álítur, að merkin hafi eigi horfið, heldur deyfzt, en brak heyrðist í viðtækinu í hvert sinn, sem grunntengt var. Aftur á móti eru báðir sammála um það, að merkin hafi horfið með öllu á sama augnabliki og loftnetið var varanlega grunntengt. Síðan var prófað, hvort brakið í viðtækinu, sem kom fram við snertingu loftnetsins með grunntengivírnum, kæmi einnig fram, án þess að sending færi fram, og kom það greinilega í ljós, að svo var ekki. Verða því brestirnir í viðtækinu ekki skýrðir á annan hátt en þann, að þá hafi rafhleðsla verið á loftneti því, er snert var með grunntengivírnum. Stuttu síðar, eða kl. 9.10 heyrðist sending á ný, en þessi sending var svo stutt, að eigi reyndist unnt að gera neinar prófanir fram yfir það, sem þegar höfðu verið gerðar. Rétt á eftir var það athugað, að maður kom út í glugga á vesturhlið hússins nr. 18 og horfði hann upp á loftnetið eins og hann byggist við einhverju athugaverðu þar. Þetta hafði einnig komið fyrir kvöldið áður, er starfsmenn Landssímans voru þarna staddir til að athuga möguleikana á því að koma fyrir grunntengivír á loftnetið. Strax og opnaður var gluggi á herberginu, kom maður út í gluggann andspænis og leit athugandi upp í gluggann. Seinna, eða kl. 11.45, sást maður fara með handtösku í hendi út í bíl, er beið fyrir utan húsið nr. 18 við Túngötu. Númer bifreiðarinnar var 1254. Kl. 13.00 heyrðist stutt sending, en kl. 15.10 voru send tvö skeyti, annað 23 orða, en hitt 11 orða, en seinna, kl. 17.05, var sent 130 orða skeyti og stóð sendingin í ca. 15 mínútur. Þykir rétt að benda á, að þegar sendingar hefjast á ný eftir langt hlé, er það sama daginn og símasambandi er slitið við Danmörku. En síðasta sendingin, áður en hlé varð á þeim, heyrðist 6. des. 1939, en þann dag slitnar sæsíminn og eru þá rétt á eftir teknar upp skeytasendingar loftleiðina beint til Danmerkur. Næsta dag þann 13. þ. m. er haldið áfram prófunum með grunntengingu loftnetsins til þess að ganga alveg úr skugga um það, hvort áðurgreint loftnet væri notað til sendinganna. Í fjögur skipti, sem þessar prófanir voru endurteknar, hafði það engin áhrif á sendingarnar að öðru leyti en því, að tónstyrkur merkjanna frá viðtækinu minnkaði ofurlítið, en ekkert brak eða brestir heyrðust við snertingu loftnetsins með grunntengivírnum. Þykir af þessu sýnt, að einhver breyting hafi orðið á sendiloftneti miðað við það, sem áður var. Viðstaddir þessar prófanir voru þeir Ingólfur Matthíasson og Elías Kristjánsson. Rannsóknunum er haldið áfram.“

Áframhaldið af þessari skýrslu er svo þannig, með leyfi hæstv. forseta. (Skýrslan er dagsett 15. apríl 1940) :

„Í dag var farið með viðtæki í hlutaðeigandi spennistöð og hlustað þar á sendingarnar. Kl. 12.59 heyrðist sending, og var þá rofinn rafstraumurinn í jarðstrengnum í Túngötu. Hurfu þá samstundis merkin í viðtækinu. Viðstaddir við þessar prófanir voru þeir, Magnús Magnússon, símaverkfræðingur, Elías Kristjánsson, símaeftirlitsmaður, Ingólfur Matthíasson, loftskeytamaður og Baldvin Skaftfell, starfsmaður Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Á sama tíma hlustaði Einar Pálsson símafræðingur á sendingarnar á viðtæki í landssímahúsinu og tók jafnframt sendingarnar niður á öldurita. Fylgir með skýrslunni pappírsrenningur úr ölduritanum. Einnig hlustaði loftskeytastöðin á sendingarnar.“

Það, sem m. a. er eftirtektarvert við þessa skýrslu, eru mánaðardagarnir, sem tilgreindir eru. Sendingarnar halda áfram til 6. des. 1939, en þá var hætt að senda skeyti yfir England og tekið upp loftskeytasamband við Danmörku. Þetta gerði mögulegt að senda kvótaskeyti beint til Þýzkalands gegnum loftskeytastöðina hér. Ef mér hefur verið sagt rétt frá, var slíkum skeytasendingum haldið áfram til 10. apríl 1940, eða þangað til Danmörk var tekin af Þjóðverjum, en þá neitaði stöðin á Grænlandi að taka við skeytum, en hún hafði verið notuð sem milliliður. Allan þennan tíma hafði þýzki ræðismaðurinn hér möguleika til að senda skeyti til Þýzkalands um skipaferðir, veður o. fl., sem Þjóðverjum kom vel að fá að vita. Þann 10. apríl tekur ræðismaðurinn svo aftur sendistöðina í notkun, og upp úr því er svo hafizt handa um það, sem kallað hefur verið að loka þessari sendistöð. Það er að vísu rétt, að eftir það truflaði þessi stöð ekki sendingar loftskeytastöðvarinnar, en með því er ekki sannað, að hún hafi ekki verið notuð einhvers staðar á landinu og henni hafi svo síðar meir verið komið inn í húsið, þar sem hún fannst.

Það hefur verið skýrt frá því áður, að fyrrv. forsrh. hafi gert undirbúning að því að veita þýzka sendifulltrúanum hér atlögu, en niðurstaðan hafi svo orðið sú, að hann skyldi einungis aðvaraður. En jafnframt hefur lögreglustjórinn hér tjáð mér, að ræðismaðurinn hafi brugðizt hinn versti við og neitað því, að hann hefði nokkra slíka stöð. Þess vegna fer því alls fjarri, að lögreglustjórinn hafi lokað stöðinni. Hann einu sinni sá hana aldrei.

Ég veit ekki, hvort gerðar hafa verið tilraunir til að þýða þau skeyti, sem til eru og þýzki ræðismaðurinn sendi, en ég hef óskað eftir því við leyniþjónustu Bandaríkjanna, að þau yrðu þýdd, og er líklegt, að það fáist gert á næstunni, og fæst þá væntanlega fullkomnari vitneskja um störf þýzka ræðismannsins en tekizt hefur að afla til þessa. Ég hef enn fremur látið Bandaríkjaherinn fá umræddar sendistöðvar til athugunar, og er skýrsla hersins að mestu samhljóða skýrslu þeirri, sem ég las hér áðan, þótt athuganirnar hafi verið gerðar sitt í hvoru lagi.

Eins og ég hef áður tekið hér fram, hef ég leitazt við að gera hér allt, sem í mínu valdi hefur staðið, til að fá upplýsingar um störf Þjóðverja hér á landi fyrir ófriðinn, m. a. vegna þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég tel, að þótt Þjóðverjar hafi veitt okkur illar búsifjar í stríðinu, beri okkur ekki lengur en full ástæða er til að láta aðra reglu gilda um þeirra landsvist en annarra þjóða. En hitt er nauðsynlegt að fá upplýst, hverjir eru sekir, og tryggja það, að menn, sem líklegir eru til að vinna gegn íslenzkum hagsmunum, fái ekki leyfi til að flytja inn í landið. Því fer fjarri, að nokkurt ríki sé skyldugt til að leyfa hverjum sem er landsvist, heldur er sá háttur hafður víðast hvar, eins og ég hef áður sagt, að landsvist er ekki leyfð nema til ákveðins tíma í senn og atvinnuleyfi ekki, nema það sé í þágu viðkomandi lands.

Þar sem nú er alllangt um liðið frá því að þetta mál var síðast til umr., má vera, að ég hafi hlaupið yfir eitthvað, sem rétt hefði verið að taka fram í sambandi við þetta mál.

Ég hygg, að einhver hafi látið þau ummæli falla við fyrri umr., að þessir menn hafi verið sviptir landsvistarleyfi. Nú er það svo, að það er á valdi ríkisstj. að veita landsvistarleyfi, og það er gagnstætt lögum og venju allra þjóða að veita slík leyfi um óákveðinn tíma eða án athugunar. Hér er ekki um það að ræða að svipta þessa menn neinum rétti, heldur er um það að ræða, hvort eigi að veita þeim rétt til landsvistar.

Ég tel, að í þessum umr. hafi verið sagt marga ómaklegt. Að því er mig minnir, lét einn flm. þau orð falla hér fyrir nýárið, að það væri níðingsskapur við konur og börn þessara manna að veita þeim ekki landsvist. Þannig mætti e. t. v. segja um alla flóttamenn, sem þjóðirnar telja þó nauðsynlegt að láta hlíta reglum og einatt hefta frelsi þeirra.

Ég hef lýst yfir því áður, að ég tel, að aðrar reglur ættu ekki að gilda um Þjóðverja en aðrar þjóðir. Ef sannanlegt reynist, að hér hefur átt sér stað þjóðhættuleg starfsemi, þá tel ég, að ekki eigi að neita öðrum mönnum um landsvist en þeim, sem hafa tekið þátt í slíkri starfsemi. En viðvíkjandi því að upplýsa þetta mál og flýta fyrir því að komast að raun um, hverjir eru saklausir og hverjir sekir, þá tel ég, að þessi till., sem hér liggur fyrir, geti ekki gert neitt gagn eða haft nein áhrif. Ég mundi ekki veita slík landsvistarleyfi fyrr en málið er að fullu upplýst, og þótt ráðherraskipti yrðu, þá er samgöngum nú þannig háttað, að ekki mundi reynast fljótlegt fyrir þessa menn að komast hingað.

Ég get svo látið máli mínu lokið, enda mun fundartími á þrotum. Ég hef gert allt, sem í mínu valdi stendur, til að fá málið upplýst eftir líklegustu leiðum. En þótt rannsókn málsins verði flýtt svo sem auðið er, getur þó dregizt enn um sinn, að henni verði lokið. Því að þótt þýzka sendiráðið hér hafi eyðilagt eitthvað af gögnum, sem að haldi mættu koma, þá er ekki ólíklegt, að afrit séu til í Þýzkalandi, ef nokkuð má marka af fréttum, sem borizt hafa af réttarhöldum þeim, sem nú fara fram, en samkvæmt þeim virðast Þjóðverjar hafa skrásett allar sínar áætlanir, og kynni því að finnast þar það, sem vantar hér. Mér hefur þótt rétt að geta um, hvað hefur verið gert til að fá þetta mál upplýst og hvert rannsóknum er nú komið.

Hv. þm. Str. verð ég að biðja afsökunar á því, að ég trúði því, sem stóð í Tímanum, að hann hefði látið loka sendistöðinni hjá þýzka ræðismanninum, en hún virtist vera fullkomlega í lagi, þegar hún fannst í bústað ræðismannsins nú í vetur.