19.03.1946
Sameinað þing: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (4042)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Hermann Jónasson:

Ég get verið stuttorður um þetta mál nú. Ég vil byrja á því að svara því, sem hæstv. dómsmrh. endaði ræðu sína með og átti að vera nokkurs konar rúsína í pylsuendanum. Mér var bent á það hér í vetur, að blaðamaður við eitt dagblaðið hér í Reykjavík er látinn segja í viðtali við hæstv. dómsmrh. viðvíkjandi þessu máli: „Hermann Jónasson hefur þá skrökvað því, að sendistöðinni hafi nokkurn tíma verið lokað.“ Ég hló, þegar mér var bent á þetta í blaðinu. Ég lét þetta einnig afskiptalaust, þegar hæstv. ráðh. las upp skýrslu sína. En þegar þetta er hvað eftir annað borið fram, hlýt ég að lýsa yfir, að hér er farið rangt með. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að fletta upp í ræðu minni hér í vetur, eins og hún kemur frá þingriturum, og gæta að, hvað þeir hafa eftir mér. Ég hef hér fyrir mér ræðu mína eins og hún er skrifuð niður, og ég hef fundið á tveim stöðum vikið að því, að sendistöðinni hafi ekki verið lokað, vegna þess að álitið hafi verið, að það gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar, en hins vegar hafi orðið samkomulag um, að lögreglustjóri talaði við þýzka ræðismanninn. Ég hygg, að til séu á þriðja stað ummæli eftir mér um þetta, þótt ég hafi ekki fundið það enn þá. Enda þótt orð mín liggi þannig skýlaus fyrir, er leitazt við í blaðaviðtali við hæstv. ráðh. að rangfæra þetta og segja, að ég hafi skrökvað því, að búið væri að eyðileggja sendistöðina. Með þessum endurteknu ósannindum á að reyna að blekkja almenning og fá fólk til að trúa því, að Hermann Jónasson hafi sagt ósatt. En ef það hefur verið haft eftir mér í blöðum, að ég hafi lokað sendistöðinni, þá er það ranglega eftir mér haft, og það er ekki hygginna manna háttur að hlaupa eftir fregnum í blöðum og meta það meir en það, sem ég hef sjálfur um þetta mál sagt og hér liggur fyrir skrifað. Nú hlýt ég að lýsa hér yfir því, að hæstv. dómsmrh. hefur af þessum sökum ekki skrökvað einu sinni, heldur tíu til tuttugu sinnum bæði hér í sölum Alþingis og í blaðaviðtali.

Um málið í heild vil ég segja það, að þetta leynistöðvamál kemur vitanlega ekkert við því máli, sem hér liggur fyrir til umræðu. Það er vitað, að slíkar stöðvar hafa víða verið notaðar í leyniþjónustu, og því fer fjarri, að það réttlæti á nokkurn hátt, að þeir, sem ekkert hafa verið við njósnir riðnir, eigi að gjalda þeirra, sem sekir kunna að vera. Ég vil svo vekja sérstaka athygli á þeim atriðum í skýrslu hæstv. dómsmrh., þar sem sagt er frá fundi þessara leynistöðva. Þegar Englendingar komu hér fyrst, vissu þeir um leynistöð, sem starfaði hér, og þeir létu leita að henni um allt og þá einkum í umræddu húsi. Veggir voru bankaðir og sérfróðir menn látnir gera rannsókn, en allt kom fyrir ekki. Síðan, þegar Bretar láta þetta af höndum, eru menn látnir skrifa upp hvert tangur og tetur, meira að segja að viðstöddum hæstaréttarlögmanni, og enn þá fer svo, að ekkert finnst. En þegar svo íslenzka ríkisstj. fær þetta í hendur, þá finnst þessi leynistöð í kompu, sem talin var geyma svo ómerkilegt rusl, að ekki þótti taka því að rannsaka hana, en um þetta herbergi var gengið af hinum og þessum. Það virðist harla einkennilegt, að bezta leyniþjónusta í heimi skuli ekki geta fundið stöðina í þessu húsi, hafi hún alltaf verið þar. Ég skal ekki ræða þetta nánar, en ég verð að segja það, að mér virðist harla ósennilegt, að stöðin hafi allan tímann verið í þessu herbergi.

Um meðferð þessa máls vil ég segja það, að mér virðist hún harla ósæmileg Alþingi. Það kann að vera, að ýmsir séu því mótfallnir, að saklausum Þjóðverjum sé leyfð landsvist, annað er ekki farið fram á í till., — en þá er rétt að það komi fram. En að segja fyrir jól, að málið verði afgreitt þegar eftir nýár, en draga það síðan á langinn með þeim hætti, sem gert hefur verið, verður vægast sagt ekki talið sæmilegt. Um daginn, þegar málið var á dagskrá, voru tilkynnt forföll dómsmrh., og í dag er lagt til, að málinu sé frestað, vegna þess að forsrh. sé veikur, og loks lýsir svo dómsmrh. yfir því, að samþykkt till. hafi enga þýðingu, en endurtekur jafnframt ósannindi um afskipti mín þessu viðvíkjandi, en gengur fram hjá ummælum mínum, sem liggja fyrir í þingræðu. Ef þetta mál verður ekki tekið fyrir með venjulegum hraða héðan í frá, mun ég bera fram ósk samkv. þingsköpum um, að málið verði afgreitt. Hið eina, sem er sæmandi fyrir Alþingi í þessu máli, er að samþykkja eða fella till., eftir að hún hefur verið rædd. Ég veit, að ríkisstj. á erfitt með afgreiðslu þessa máls vegna afstöðu hæstv. dómsmrh. Ég veit, að hann hótaði að segja af sér fyrir jólin, ef till. yrði þá samþ. Þetta veikti afstöðu Sjálfstfl., eins og nú hefur komið fram. Nú hefur það þó áunnizt, að hæstv. ráðh. segir einungis, að ekki komi til mála að leyfa sekum mönnum landsvist, en með því hefur hann raunar fallizt á aðalefni till., enda eðlilegt og sjálfsagt. En hann notar aðstöðu sína sem dómsmrh. til þess að draga á langinn þá rannsókn, sem kveður á um það, hverjir eru saklausir og hverjir sekir. Þetta er hægt að fyrirbyggja með því að samþykkja till. mína um að skipa 4 manna nefnd til að fara yfir þau skjöl, sem til eru varðandi starfsemi Þjóðverja hér á landi. — Ég hef ekkert við það að athuga, þótt atvinnu- og dvalarleyfi séu veitt til ákveðins tíma. En viðkomandi þeim erfiðleikum, sem hæstv. ráðh gat um á því, að þetta fólk kæmist hingað heim, þá er það atriði, sem kemur samþykkt þessarar till. ekki við. Annars hygg ég, að ekki muni þau vandkvæði á um þetta, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta. Mér er kunnugt um, að ýmsir hafa komið frá Þýzkalandi bæði hingað og til hinna Norðurlandanna, svo að það virðist alls ekki ókleift.

Hæstv. ráðh. minntist á það sem rök fyrir sínu máli, að til mundu vera bréf frá þýzka konsúlatinu, þar sem Þjóðverjar væru hvattir til þess að ganga í nazistaflokkinn eða vinnufylkinguna. Þetta er vitanlega ekkert nýtt. Þeir, sem þetta gerðu, urðu vissulega að gera það, sem þeim var falið, hvort sem það samrýmdist nú hagsmunum þess lands, er þeir dvöldu í. Hins vegar verður ekki fram hjá því gengið, að það, sem hér er nefnt; hefur hent þúsundir manna víðs vegar um lönd, og dettur engum í hug að dæma þá eftir því, hvort þeir mundu kannske hafa fallið fyrir þessari ósk. Það verður að dæma menn eftir því, sem þeir hafa gert, en ekki eftir getgátum um, hvað þeir kynnu að hafa gert. Ég álít tilgangslaust að ræða þetta mál frekar, en úr því að hæstv. dómsmrh, hefur þá skoðun, að saklausum mönnum beri að veita landsvistarleyfi, vænti ég, að hann taki nú rögg á sig og láti afgreiða þetta mál svo sem sæmilegt er. Ef hann gerði það, þá er ég viss um, að hann yrði ánægðari með sjálfan sig og sínar aðgerðir í þessu máli.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að óska þess, að hæstv. ráðh. endurtaki ekki oftar þau ósannindi, sem oft er búið að flytja viðvíkjandi þessum sendistöðvum. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því, hvað menn geta niðurlægt sig í málsmeðferð.