28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (4050)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þessi þáltill. fer fram á að fela dómsmrh. að veita þeim Þjóðverjum, sem kvæntir eru íslenzkum konum og búsettir voru hér á landi árið 1939, landsvistarleyfi á Íslandi nú þegar, enda hafi þeir ekki orðið uppvísir að því að hafa rekið hér starfsemi í þágu erlendra ríkja, sem hættuleg geti talizt hagsmunum Íslendinga, eða framið aðra verknaði, sem ósæmilegir séu að almenningsáliti.

Ég ætla ekki að fara út í umr. um þetta mál, en skal aðeins geta þess, að ég tel sjálfsagt, að þeim Þjóðverjum, sem till. þessi fjallar um, verði veitt landsvistarleyfi, náttúrlega að þeim undanteknum, sem uppvísir hafa orðið að þeirri starfsemi, sem þarna getur. Og í mínum augum er það svo, að hér er í reyndinni, hvað sem líður lagabókstaf, spurningin um það, hvort rétt sé að svipta þessa menn landsvistarleyfi eða hvort brottvísunarástæða gagnvart þeim sé fyrir hendi. Þessum mönnum var ekki vísað úr landi af íslenzkum stjórnarvöldum, heldur voru þeir teknir með valdi af herliði, sem hér var, gegn mótmælum Íslendinga. Í raun og veru er spurningin um það, hvort þessir menn hafi nokkuð til saka unnið, svo að þeir megi ekki vera hér áfram, eins og þeir voru áður.

Ég vil leyfa mér að flytja brtt. við upphaf þáltill. Svo er mál með vexti, að samkv. gildandi landslögum er valdið til þess að veita landsvistarleyfi í höndum dómsmrh. Og með þál. er að sjálfsögðu ekki hægt að fyrirskipa eða fela þeim ráðh. að veita tilteknum mönnum landsvistarleyfi, svo að það sé bindandi fyrir ráðh. að fara eftir því. Til slíks þyrfti lög eða lagabreyt. Ég tel því rétt að orða byrjun þáltill. svo: „Alþingi ályktar að skora á dómsmálaráðherra“ o. s. frv. Með þessari breyt., ef samþ. yrði, lætur Alþ. greinilega í ljós vilja sinn, m. ö. o. gefur þá viljayfirlýsingu, sem grg. þáltill. talar um, að þurfi með, til þess að leyfi þessi verði á sínum tíma veitt.