28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4055)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sigfús Sigurhjartarson.:

Herra forseti. Hv. þm. N.-Ísf. þótti sér sæmandi að bera það á brýn fjarstöddum hv. þm., að þeir hefðu beitt hér annarlegum aðferðum um meðferð þessa máls og staðið fyrir málþófi í því skyni að tefja málið. Hann um það. Ég ætla ekki efnislega að ræða þetta mál. Ég tek undir það með hv. þm. Str., að hér er af nógu að taka, og kynni að vera margt að segja, ef þessir virðulegu þm. óska eftir, að málið sé rætt efnislega. M. a. mætti minna á það, með hvaða háttvísi málið hefur verið flutt hér og með hvaða háttvísi það var rekið af ýmsum hv. þm., m. a. af hv. þm. N.-Ísf. Það er líka auðheyrt af ræðu hv. þm. Str., sem þó tók hóflega og skynsamlega á frestunarbeiðni um málið, að það er ekki stefnt að því af honum að athuga málið, en hv þm. Str. hefur dóminn tilbúinn. Hann er þegar búinn fyrir sitt leyti að draga í dilka saklausa menn og seka í þessu tilfelli. Hann sagði, að menn væru hér af Þjóðverjum, sem hér hafa haft landsvistarleyfi áður, sem biðu dóms. (HermJ: Þeir bíða dóms og eru á sveitaheimili hér skammt frá). En vill hann staðhæfa, að hinir Þjóðverjanna séu saklausir? (HermJ: Ég svara því). Hv. þm. Str. hefur staðhæft svo mikið í þessu máli, að það er full ástæða til þess, að málið verði rætt rækilega í sölum Alþ. En ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. forseti verði við beiðni fjarstadds hv. þm. um að fresta afgreiðslu þessa máls enn um sinn.