28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (4057)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mig furðar nokkuð á því, hversu hv. 8. þm. Reykv. tekur illa þeim ummælum, sem ég lét falla í ræðu minni, þar sem ég kvartaði undan aðferð hv. minni hl. utanrmn. Það er fjarri því, að í ummælum mínum hafi verið eitthvert ódrengilegt níð um fjarstaddan hv. þm. Ég endurtók aðeins það, sem ég sagði hér á fundi, þegar þetta mál var hér síðast til umr., að viðstöddum hv. minni hl. utanrmn., það að mér fyndist framkoma hv. minni hl. og meðferð hans öll á þessu máli óviðeigandi. Og ég hygg, að þau ummæli mín standi óhrakin, að frá því að Alþ. kom saman 1. febr. og fram til dagsins í dag, þ. e. í næstum tvo mánuði, hefur hv. minni hl. n. ekki hafa tóm til þess að skila nál. — ekki vegna veikinda, því að sem betur fer hafa þeir hv. þm., sem eru í minni hl. n. í þessu máli, verið við allgóða heilsu báðir að jafnaði þennan tíma, og ég og hv. 2. þm. Reykv. höfum notið þess að vera samvistum hér á þingi daglega. Það er því fjarri því, að ásökun mín í þessu efni á hendur hv. minni hl. n. megi skoðast sem sérstaklega ódrengileg árás á meðþm. mína. En ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að mér þykir það mjög óviðurkvæmilegt af hv. minni hl. n. að láta standa þannig á sér og koma þannig í veg fyrir afgreiðslu málsins. Og ég sé ekki, að það sé vegna þess, að þeir vilji hafa þinglega afgreiðslu á þessu máli, heldur miklu fremur til þess að tefja framgang málsins, eftir að n. hefur fyrir þremur mánuðum skilað meiri hl. áliti.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. 8. þm. Reykv. minntist á, áróður umbjóðenda minna í þessu máli, þá á hann við áhuga nokkurra íslenzkra kvenna og barna fyrir því, að eiginmenn og feður þeirra öðlist leyfi til landsvistar hér, sem þeir á sínum tíma voru sviptir af erlendum her. Ég tek fram enn, að það, sem efst er í mínum huga í sambandi við þetta mál, er aðeins það, hvað er eðlilegt, mannlegt og sæmandi að gera í þessu máli. Það er af því, sem mínar gerðir í þessu máli hafa stjórnazt, en þær hafa ekki stjórnazt af áróðri þeim, sem hv. 8. þm. Reykv. var að tala um, að hefði verið rekinn af þessu fólki og hann trúlega hefur orðið fyrir. Afstaða mín er því sú sama í þessu máli og þegar ég flutti það hér á hæstv. Alþ. ásamt hv. þm. Str. Ég tel, að það eigi fram að ganga vegna þess, að það sé nauðsynlegt og eðlilegt og ekki sæmandi önnur afstaða til þess af þeim ráðamönnum, sem ráða eiga því, hvort þessu fólki verður veitt leyfi til landsvistar hér eða ekki. Og ég vænti þess, að þeir menn, sem upphaflega stóðu að því áður, að þetta mál var flutt hér á Alþ., séu sama sinnis í þessum efnum. Og ég veit, að svo er.