28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4059)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Forseti (JPálm) :

Hv. flm. þessarar till. hafa rétt fyrir sér í því, að dráttur á afgreiðslu þessarar þáltill. er orðinn miklu meiri en ég tel heppilegt, og mér hefur þótt mjög slæmt að geta ekki afgr. hana fyrr. En það hafa alltaf verið einhverjar orsakir í veginum fyrir því og kröfur, sem ég hef álitið rétt að taka til greina, til þess að fá samkomulag um afgreiðslu þessa deilumáls. Nú stendur svo á, að hv. frsm. minni hl. n., sem fjallað hefur um málið, er veikur, og þar að auki eru sex hv. þm. fjarstaddir úr bænum. Tveir af þeim hafa óskað þess, að atkvgr. fari ekki fram um málið að þeim fjarstöddum, og enn fremur er annað mál hér á dagskránni, sem líka er deilumál. Af þessum orsökum mun ég nú í síðasta sinn veita frest á afgreiðslu þessa máls. En ég lofa því jafnframt, að á næsta fundi sameinaðs Alþ., sem verður ályktunarfær, skal Þetta mál verða tekið til áframhaldandi afgreiðslu í einhverri mynd, og þó að það kosti næturfund.