02.04.1946
Sameinað þing: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (4066)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efni þessa máls, og hv. fyrri flm. hefur svarað þessu, sem hv. 2. þm. Reykv. er að minnast á, orðalag till. Efnislega er enginn munur á orðalaginu í brtt. eða eins og það er upprunalega í till., heldur er þetta mest orðabreyt., því að ef viðkomandi ráðh. hefur þetta í sínu valdsviði samkv. l., þá skiptir vitanlega ekki máli, hvort orðalagið er haft. Þetta vil ég aðeins leiðrétta, þannig að það komi fram í þingtíðindunum, vegna þess að það hefur verið fjasað svo mikið um þetta. En það hefur verið samþ. þáltill. með þessu orðalagi, sem er á upphaflegu till. hér, sem ég ekki orðaði, heldur hv. fyrri flm., réttilega. Og þessa þáltill., sem áður var með sama orðalagi, hefur hv. 2. þm. Reykv. samþ. Hann hefur sjálfsagt verið með í að samþ. margar till. með svona orðalagi. Þáltill. með slíku orðalagi fór fyrir hæstarétt, og var dæmt um þetta orðalag einmitt þar, sem hæstv. Alþ. lét frá sér fara. Og það skiptir ekki máli, hvort orðalagið er notað í þessu efni. Ég býst við, að það sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., hafi komið til af því, að fram til þess tíma, að þessi dómur gekk, var talið, að máli skipti, hvort orðalagið væri haft, sem hér hefur verið rætt um. En fyrir því er nú hæstaréttardómur, að það skiptir ekki máli.