23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (4100)

201. mál, byggingarstyrkur til flóabáts

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa þáltill. til athugunar og rætt hana við hæstv. fjmrh. og talið rétt, að till. væri breytt eins og sést á brtt. n. á þskj. 768. Aðalbreyt. er í því fólgin, að setja sérstök skilyrði fyrir fjárveitingunni, m. a. að samgöngumálaráðuneytið samþ. gerð bátsins og byggingarsamning, og að framlag ríkissjóðs til bátsins verði eignarhluti ríkissjóðs í útgerðinni, en ekki lagt fram sem beinn styrkur. Auk þess, að ríkissjóður hafi ávallt a. m. k. einn mann í stjórn fyrirtækisins. Þar að auki, að báturinn haldi uppi póst-, farþega- og vöruflutningaferðum á milli Stykkishólms og Brjánslækjar og um sunnanverðan Breiðafjörð, Hvammsfjörð og Gilsfjörð í samráði við Skipaútgerð ríkisins. Og í síðasta lagi, að haldið verði áfram undirbúningi undir byggingu strandferðabáts fyrir Breiðafjörð í samræmi við till. milliþn. í strandferðamálum.

Einn nm., hv. þm. V.-Húnv., hefur gert aths. við þennan síðasta lið og telur, að hann eigi ekki heima í þessari þáltill., þó að hann sé samþykkur honum að efni til. En ég tel, að þessi liður eigi að vera eitt af meginskilyrðunum fyrir greiðslunni til þessa flóabáts, sem till. er um, vegna þess alveg sérstaklega, að það hafa verið uppi ákveðnar till. um bát til ferða um Breiðafjörð. Og ég vil ekki, að þessi bátur, sem hér ræðir um í till. þessari, verði til þess að tefja framkvæmdir við byggingu strandferðabáts fyrir Breiðafjörð í samræmi við till. milliþn. í strandferðamálum, því að slík töf yrði Breiðfirðingum til hins mesta skaða.

Þessar till. um afgreiðslu þáltill. hafa verið bornar undir hv. flm. þáltill., sem eru samþykkir ákvæðum brtt. n. Og leggur fjvn. til, að þáltill. verði samþ. með þeim breyt., sem felast í brtt. n. á þskj. 768.