23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (4113)

242. mál, þorpsmyndun á Egilsstöðum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Eins og kunnugt er, þá er að myndast þorp í landi Egilsstaða í Suður-Múlasýslu. Er talið, að þar muni verða eins konar miðstöð uppi í landi fyrir ýmis viðskipti á Austurlandi. Það er þegar búið að setja þar niður nokkrar byggingar og búið að gera skipun á væntanlegu þorpi þar. Hins vegar hafa enn þá af hálfu hins opinbera ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að létta fyrir með þeim, sem vildu setjast þarna að, með því að setja þar upp nauðsynleg tæki, svo sem vatnsveitu, skolpveitu og annað slíkt. Nú hafði verið í ráði að leggja fyrir Alþingi lagafrv. um þorpsmyndun á Egilsstöðum með nokkuð svipuðum hætti og þau l., sem nú hafa verið afgr. frá Alþingi um nýbyggingar á Skagaströnd. Þetta frv. varð svo síðbúið, að sýnt þótti, að það mundi ekki ná afgreiðslu á Alþingi því, er nú situr. Hefur því orðið að samkomulagi milli mín og hv. þm. fyrir Austurland, að ég flytti þáltill. um þetta mál, og er það einnig gert í samráði við hæstv. fjmrh. Er ætlazt til, að leitað verði samninga um kaup á landi undir þorp á Egilsstöðum og jafnframt verði skipuð þar einhver bæjarstj. til að sjá um þessi mál, þangað til þeim verður skipað með l. Að sjálfsögðu verður þessi heimild ekki notuð nema samkomulag fáist við landeigendur, og enn fremur þarf að leita samkomulags við viðkomandi hrepp, þannig að það geti flýtt fyrir um skil milli hreppanna, þegar Alþingi kemur saman næst.

Myndun sveitaþorpa, slíkra sem þarna er að myndast, er að ýmsu leyti merkileg, og þyrfti að setja um þetta alveg sérstaka löggjöf, og mun tíminn þá verða notaður, þangað til næsta Alþingi kemur saman, bæði til þess að leita samninga við landeigendur og eins til þess að undirbúa löggjöf um þetta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja fleira um þetta mál, en óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.