11.02.1946
Sameinað þing: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (4125)

113. mál, brúargerð á Hvítá hjá Iðu

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Ég tel alveg nauðsynjalaust að fara mörgum orðum um þáltill. þessa, því að hún lýtur að málefni, sem hv. þm. er kunnugt og fullljóst, því að það hefur áður verið rætt hér á hæstv. Alþ. — Það hefur verið samþ. þáltill. um brúargerð þarna, þ. e. a. s., að aðkallandi nauðsyn sé, að þessi brú verði gerð á Hvítá þarna hjá Iðu. Þessi nauðsyn hefur verið viðurkennd á hæstv. Alþ. með samþykkt þáltill. En þessi endurtekning á að bera þetta mál fram er einungis sprottin af því, að hin fyrri samþykkt laut að flutningi hinnar gömlu Ölfusárbrúar þangað upp að Hvítá, ef hún væri nothæf þar. En athugun á því máli hefur leitt í ljós, að svo sé ekki. En nauðsynin á að brúa Hvítá hjá Iðu stendur óbreytt og er náttúrlega því meiri sem lengra líður. Og af þessum ástæðum er þessi þáltill. borin fram.

Ég geri ráð fyrir, að það verði ekki komizt hjá því að vísa þessari þáltill. til n. og væntanlega hv. fjvn., og skal það ekki verða til þess að tefja fyrir þessari till., að ég eyði hér um hana mörgum orðum sem frsm. við flutning hennar.